Ríkisstjórnin í mótvindi

Pistlar
Share

Ríkisstjórninni hafa verið mislagðar hendur við stjórn efnahagsmála. Henni hefur mistekist að hafa hemil á þenslunni með þeim afleiðingum að verðbólgan er orðin meiri en verið hefur í langan tíma. Það eru dekkri blikur á lofti fyrir almenning um þessar mundir en sést hafa síðan fyrir 1995. Þessi staða er að mörgu leyti óvænt en sannar hið fornkveðna að sitthvað er gæfa og gjörvileiki. Ríkisstjórn stóru flokkanna er ekki endilega sú sem leysir verkefnin best af hendi.

Eftir alþingiskosningarnar í fyrra mynduðu stóru flokkarnir í íslenskum stjórnmálum ríkisstjórn sem styðst við stærsta meirihluta á Alþingi sem sögur fara af með stuðningi 43 þingmanna. Meirihlutinn er svo mikill að ríkisstjórnin þarf aldrei að reiða sig neitt á liðsinni stjórnarandstöðunnar við framgang mála á Alþingi. Að sama skapi er stjórnarandstaðan fámenn sem aldrei fyrr, aðeins 20 þingmenn sem skiptast í þrjá flokka.

Ríkisstjórn hins mikla meirihluta tók við völdum við tiltölulegar góðar aðstæður í þjóðfélaginu, atvinna næg fyrir alla og meira til, kaupmáttur hafði farið vaxandi um margra ára skeið, hagnaður fjármálafyrirtækja síðustu ára talinn í hundruðum milljarða króna, verð á áli og fiskafurðum slógu fyrri met og verðbólga var tiltölulega viðráðanleg, þótt hún væri að vísu yfir markmiði Seðlabanka Íslands. Þess vegna var ákveðið síðastliðið sumar af forystumönnum ríkisstjórnarinnar að skera niður þorskveiðar um þriðjung í þeim tilgangi að byggja upp stofninn , enda hefði þjóðarbúið aldrei verið jafnvel í stakk búið til þess að mæta tekjutapinu sem af niðurskurðinum leiðir.

Eðlilega hefur ríkisstjórnin til þessa haft yfirburðastöðu á stjórnmálavellinum. Vinsældir hennar hafa verið miklar og verulega umfram kosningafylgi stjórnarflokkanna 70 – 80% landsmanna hafa stutt ríkisstjórnina í könnunum. Eins og hendi væri veifað breyttist þessi staða um páskana og í stað þess að ríkisstjórnin bruni áfram á lensinu er hún skyndilega komin í verulegan mótvind og sætir vaxandi gagnrýni.

Efnahagsmálin virðast vera ríkisstjórninni ofviða og hún nær ekki samstöðu um aðgerðir. Gengi íslensku krónunnar féll snögglega og verðbólgan hefur rokið upp í kjölfarið. Skuldir fyrirtækja og heimila hækka í takt við vaxandi verðbólgu og greiðslubyrðin að sama skapi. Þetta þýðir einfaldlega að framundan er almenn kjaraskerðing sem getur orðið tilfinnanleg. Það var hlutverk ríkisstjórnarinnar að halda þenslunni í skefjum og ná fram hægri aðlögun að jafnvægi í efnahagsmálum. Ríkisstjórninni mistókst það herfilega og hver vikan á fætur annarri hefur liðið án þess að nokkuð bóli á samhæfðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka Íslands. Það er almenningur sem borgar fyrir úrræðaleysið.

Undanfarnir mánuðir hafa reynst vera tími hinna glötuðu tækifæra fyrir stjórnarflokkanna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þagað þunni hljóði en Samfylkingin hefur við hvert tækifæri rætt um aðild að Evrópusambandinu og evruna rétt eins og að það leysi aðsteðjandi vanda. Báðir flokkarnir hafa forðast að ræða það sem máli skiptir fyrir almenning í landinu, efnahagsástandið og nauðsynlegar aðgerðir. Ríkisstjórnin hefur ekki getað unnið sitt verk þrátt fyrir mikinn þingmeirihluta. Það vantar greinilega samstöðu og innri styrk í stjórnarsamstarfið. Mótvindurinn sem ríkisstjórnin stendur óvænt í um þessar mundir er afleiðing af hennar eigin aðgerðaleysi.

Þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur lagt sig fram um það á yfirstandandi þingi að ástunda málefnalega og ábyrga stjórnarandstöðu. Þingmenn flokksins hafa flutt fjöldamörg þingmál sem mörg hver hafa fengið góðar viðtökur og hafa haft áhrif í þjóðfélagsumræðunni . Þingflokkurinn hefur ekki hikað að styðja góð mál ríkisstjórnarinnar og gagnrýnt hana ákveðið þegar það hefur átt við. Áfram verður haldið á þeirri braut.

Athugasemdir