Eitt af því sem háir Vestfirðingum er að landsfjórðungurinn er mjög háðir flutningi raforku frá landskerfinu og að afhendingaröryggið er það langversta á öllu landinu. Flutningslínan slær mjög oft út og þá verður rafmagnslaust um allt svæðið frá Breiðafirði norður til Ísafjarðardjúps. Nútímaþjóðfélag krefst þess að rekstraröryggi raforkukerfa sé mikið. Straumleysi í kerfinu hefur verið um 46 klst á ári og það er algerlega óviðundandi fyrir bæði heimili og fyrirtæki.
Önnur staðreynd er að aðeins um þriðjungur af raforkunni sem notið er á Vestfjörðum er framleidd í fjórðungnum. Líðlega 60% raforkunnar er flutt um langan veg frá meginlandinu. Orkunotkunin árið 2006 var 226 GWh og þar af var orka flutt vestur um 180 GWh. Aukin framleiðsla á raforku heima í héraði er öflugasta leiðin til þess að auka raforkuöryggi og gera fjórðunginn betur samkeppnisfæran við aðra landshluta samhliða endurbótum á flutningslínum á Vestfjörðum. Að auki opnast möguleikar til orkufreks iðnaðar í fjórðungnum en það ræðst auðvitað af þeim virkjunarkostum sem fyrir hendi kunna að vera.
Undanfarin ár hefur ríkt alger kyrrstaða af hálfu stjórnvalda þegar kemur að athugun á virkjunarkostum. Svör Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi í vikunni voru hins vegar afdráttarlaus á þann veg að hann ætli að beita sér fyrir könnun á virkjunarkostum og hafði góð orð um að stækka Mjólkárvirkjun sem fyrst. Vonandi er lokið löngu tímabili aðgerðarleysis í þessum efnum.
Glámuvirkjun er kostur sem skoðaður var fyrir nokkrum árum. Á vegum Orkubús Vestfjarða var gerð forathugun og verkfræðistofan sem vann verkið skilaði bráðabirgðaskýrslu í apríl 2002. Afl Glámuvirkjunar er talið vera 67 MW og orkuvinnslugetan 400 GWh á ári eða tæpalega tvöfalt meiri en núverandi notkun á Vestfjörðum. Gert er ráð fyrir að sækja vatn um Glámuhálendið með liðlega 30 km jarðgöngum og því veitt niður í Hestfjörð.
Kostnaður var lauslega áætlaður 12,5 milljarðar króna á verðlagi í janúar 2001. Þessi virkjunarkostur var nokkru dýrari en aðrir hagkvæmir kostir á þeim tíma í rammaáætlun stjórnvalda eða 31 kr. hver kWh samanborið við 19-23 kr. Síðan 2001 hafa einhverjir kostir verið virkjaðir og aðrir orðið ólíklegir af umhvefisástæðum þannig að munurinn hefur greinilega minnkað. Auk þess hefur verðið hækkað sem orkukaupendur eru tilbúnir að greiða fyrir raforkuna og það gerir Glámuvirkjunina vænlegri kost. Loks er það ávinningur fyrir aðra landshluta ef Vestfirðingar framleiða eigin orku því þá verður þar til sölu orka sem í dag er flutt vestur.
Eins og gefur að skilja er allmikil óvissa um ýmsa grundvallarþætti Glámuvirkjunar og því aðkallandi að fram fari frekari rannsóknir áður en endanleg forathugunarskýrsla verður gerð. Kanna þarf betur gangagerðina og hagstæðasta lágmarksþversnið þeirra og endurmeta kostnaðinn í ljósi nýrrar tækni. Gera þarf betri kort af svæðinu og frum- umhverfismat þar sem gæta þarf að áhrifum virkjunarinnar á einstök vatnsföll og vatnasvið þeirra.
Ýmsar aðrar smærri útfærslur þarf að skoða en Glámuvirkjun, t.d. 20 MW virkjun í Mjólká sem sækir vatn yfir í vatnasvið Skötufjarðar með 5 km jarðgöngum. Frekari athuganir munu leiða fram þá kosti sem telja verður raunhæfa og mögulega vegna kostnaðar og umhverfisáhrifa. Annar möguleiki á stórvirkjun sem vert er að skoða frekar er í Hvalá í Strandasýslu.
Kyrrstaðan er verst fyrir Vestfirðinga og hún á mikinn þátt í því að fjórðungurinn hefur dregist stórlega afturúr á undanförnum tveimur áratugum.
Athugasemdir