Utanríkisráðherra mælti fyrir í síðustu viku frumvarpi ríkisstjórnarinnar til varnarmálalaga. Frumvarpið er um margt gott og til bóta frá núverandi ástandi, en þó ekki gallalaust. Verður fyrst vikið að hinu jákvæða.
Ákveðið er að varnarmál verði á forræði Utanríkisráðherra og formlega skotið lagastoð undir starfsemi Ratsjárstofnunar með þeim hætti að stofna nýja ríkisstofnun, Varnarmálastofnun, sem fer með verkefni Ratsjárstofnunar og sinnir verkefnum á sviði varnarmála, auk þess að annast framkvæmd þjóðréttarskuldbindinga á því sviði. Vissulega er löngu tími til kominn að skjóta lagastoð undir starfsemi Ratsjárstofnunar, sem starfað hefur árum saman án lagagrundvallar. Sú staðreynd segir sína sögu um veika stöðu Alþingis gagnvart ráðherrum á hverjum tíma.
Frumvarpið er byggt á nokkrum þáttum sem segja má að myndi aðalatriðin í utanríkisstefnu Íslendinga. Aðild að NATO og Sameinuðu þjóðunum, samstarf við nágrannaþjóðir um öryggis- og varnarmál og það sem mér finnst skipta miklu máli og er til þess að gera nýmæli, herlaust land.
Um þessi atriði er ekki ágreiningur við ríkisstjórnina fremur en hvar varnarmálin eru vistuð innan stjórnarráðsins eða um stofnanauppbygginguna sjálfa og skil á milli stofnunar og ráðuneytis. Þó verður að hafa í huga að varnarmál eru ekki utanríkismál í eðli sínu og vissulega er hægt að finna þeim annan stað innan stjórnarráðsins. Þróun þeirra mál getur orðið þannig að ástæða væri til þess að breyta síðar, en eins og sakir standa nú er þetta eðlileg skipan mála.
En þá að aðfinnslunum. Þær eru helstar þær að ráðherrann fær of mikið vald í málaflokknum og bæði Alþingi og ríkisstjórn eru áhrifalaus með beinum hætti.
Ríkisstjórnin er fjölskipað stjórnvald eins og það heitir á fræðimáli. Það þýðir að hver ráðherra fer einn með valdið í sínum málaflokki eftir því sem lög ákveða. Hann þarf ekki að bera ákvarðanir undir aðra ráðherra né leita eftir samþykki þeirra. Þetta er svo sem ekki sérstakt varðandi utanríkisráðherra heldur á við um þá alla. Í raun þýðir íslenska fyrirkomulagið að ríkisstjórnarfundir eru aðeins pólitískir samráðsfundir, þar eru ekki atkvæðagreiðslur eða formleg staðfesting á ákvörðunum.
Frægasta dæmið um þetta var ákvörðunin um aðild Íslands að lista hinna staðföstu þjóða í Íraksstríðinu. Hún var ekki tekin á ríkisstjórnarfundi, ekki heldur kynnt þar eða rædd. Meira að segja þeir sem að lokum tóku ákvörðunina fóru út af ríkisstjórnarfundi til þess og svo aftur inn á fundinn án þess að segja raðherrunum, sem sátu inni á fundinum, frá því sem ákveðið hafði verið, ef rétt hefur verið greint frá atburðarrásinni í fjölmiðum á sínum tíma.
Það versta við frumvarpið er eiginlega þessi staða, að ráðherrann fer með allt vald um stefnumótum og framkvæmd hennar. Hann þarf ekki að leggja mikilvægar ákvarðanir fyrir Alþingi til kynningar og ráðslags áður en tekin er endanleg ákvörðun og hann þarf ekki að fá samþykki Alþingis eða staðfestingu þess með einhverjum hætti.
Utanríkisráðherra er falið einræði, þ.e. ráða einn, í málaflokknum varðandi stefnumótun, framkvæmd, yfirstjórn og alþjóðasamskipti. Hvergi í frumvarpinu er vikið að Alþingi rétt eins og það sé ekki til.
Alþingi hefur auðvitað valdið samkvæmt stjórnarskránni til þess að skipa málum með lögum og þess vegna er frumvarpið flutt þar, en innihald frumvarpsins er lýsandi dæmi um samskiptin milli löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins. Eina lagaákvæðið, sem ég hef rekist á, er í 24. grein þingskaparlaga. Þar er mælt fyrir um að utanríkismálanefnd Alþingis skuli vera ríkisstjórninni til ráðuneytis. En í sömu andrá er tekið fram að nefndarmenn skuli vera bundnir þagnarskyldu um vitneskju þá sem þeir fá í nefndinni og þá sér hver maður að ekki vera miklar umræður eða opinber skoðanaskipti um málin lokuð inn í 9 manna nefnd. Svo er orðalagið samráð svo sem ekki mikils virði eitt og sér, í því felst engin trygging fyrir því að ráðherrann fari eitthvað eftir því sem alþingismenn hafa um málið að segja.
Lagt er til að Alþingi afsali svo gott sem öllu valdi sínu til ráðherrans. Vissulega má segja að svona hafi þetta verið og það er rétt, hygg ég. En svona á þetta ekki að vera og mér finnst að nýir og þróttmiklir stjórnmálaflokkar eigi að vinna að breytingum sem styrkja löggjaldarvaldið og lýðræðið í landinu fremur en að falla í skugga forna viðhorfa sem eru að hníga vil viðar.
Það er ekki ásættanleg löggjöf, að áfram geti, eftir atvikum óvandaðir stjórnmálamenn, tekið hápólitískar og þýðingarmiklar ákvarðanir án samþykkis Alþingis eða svo mikið sem samráðs við hina kjörnu fulltrúa þjóðarinnar.
Athugasemdir