Utandagskrárumræða á Alþingi 21. jan. 2008: Álit mannréttindanefndar S.þ.

Pistlar
Share

Virðulegi forseti.

Fyrir fjórum árum tilkynnti ríkisstjórn Íslands um framboð til sætis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna árin 2009 – 2010. Nú fer að líða að því að kosið verði, það verður í október nú í haust og eins og gefur að skilja er mikilvægt að ríkisstjórnin haldi vel á málum sem snerta helstu áherslur hennar í málefnum Sameinuðu þjóðanna og kynntar eru öðrum þjóðum í kosningabaráttunni.

Ég vil þakka hv. Utanríkisráðherra fyrir það að gefa kost á umræðu á Alþingi um framboðið til setu í Öryggisráðinu og gera grein fyrir helstu markmiðum ríkisstjórnarinnar með framboðinu og gefa skýr skilaboð nú þegar um viðbrögð hennar við nýlegu áliti einnar helstu nefndar Sameinuðu þjóðanna, mannréttindanefndarinnar, sem starfar á grundvelli samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, í máli tveggja vestfirskra sjómanna gegn íslenska ríkinu.

En nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði ekki sýnt fram á að það fyrirkomulag og sá háttur sem var viðhafður við innleiðingu fiskveiðiheimilda skv. lögum frá 1990 stæðist kröfur meðalhófssjónarmiða. Með þessu háttalagi hefði eignarréttindum verið veitt upphaflegum kvótaeignum varanlega, í andstöðu við ákvæði laganna um sameign þjóðarinnar, málshefjendum til tjóns.

Opinberlega hefur af Íslands hálfu verið lögð áhersla á virðingu fyrir alþjóðalögum, mannréttindum og lýðræði. Minni ég á ræðu þáverandi utanríkisráðherra á Alþingi í nóvember 2003 þar sem þinginu var gerð grein fyrir áherslum ríkisstjórnarinnar með framboðinu. Þar kom fram að Ísland legði áherslu á virðingu fyrir grundvallarmannréttindum, eflingu lýðræðis og virðingu fyrir grundvallarreglum þjóðarréttar. Núverandi utanríkisráðherra hefur skýrt afstöðu nýrrar ríkisstjórnar á ágætan hátt í ræðu sinnu á málþingi í Háskólanum á Akureyri þann 10. desember í fyrra.

Þar sagði ráðherra að leið ríkisstjórna, þar á meðal ríkisstjórnar Íslands, til að ná árangri og framförum í mannréttindamálum væri að starfa af heilindum innan alþjóðastofnana. Ennfremur fullyrti ráðherrann í sömu ræðu að framfarir í mannréttindamálum á Íslandi á síðustu áratugum hafi verið miklar og að þær framfarir hafi komið að utan.

Þá sagði utanríkisráðherra einnig: með leyfi forseta:
"Almenningur á Íslandi hefur lært að leggja traust sitt á mannréttindi og alþjóðlega vernd þeirra í eigin lífi. Íslenskt samfélag í heild hefur notið ómælds gagns af starfi alþjóðlegra mannréttindastofnana og það er þegar af þessum ástæðum augljóslega hlutverk íslenskra stjórnvalda að styðja, þroska og efla stofnanir og mannréttindastarf hvarvetna í samfélagi þjóða. Mannréttindin hér heima og mannréttindi á heimsvísu eru eitt og sama verkefnið".

Ég tek undir áherslur og ummæli utanríkisráðherra viðulegi forseti og tel þarna vel mælt. Ég vil einnig minna á þessi ummæli ráðherra frá 11. janúar sl. í fréttur Sjónvarps RÚV um álit mannréttindanefndarinnar:
„Ég tek svona úrskurð Mannréttindanefndarinnar mjög alvarlega. Þetta er sú nefnd á sviði mannréttindamála sem er svona fremst meðal jafningja og ég tel að lýðræðisríki og ríki sem vill styðjast við svona ákveðna lögfestu í sínum vinnubrögðum hljóti að gefa þessu alvarlegan gaum, eins og Íslendingar. Vegna þess að ef við gerðum það ekki, hvernig gætum við þá gert kröfur á, á önnur ríki að þau lúti þeim, þeim úrskurðum sem stundum eru mjög alvarlegir og koma frá þessari sömu nefnd“.

Ástæða er til þess að fagna afstöðu utanríkisráðherra og að auki ummælum varaformanns sjávarútvegsnefndar Alþingis, Karls V. Matthíassonar, því af þeim leiðir að ráðherrann og flokkur hans muni beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum til þess að verja mannréttindi hér innanlands.

Það sem veldur vonbrigðum og vekur upp efasemdir um heilindi ríkisstjórnarinnar í þessu máli eru yfirlýsingar sjávarútvegsráðherra og forsætisráðherra, sem báðir hafa sagt að ekki þurfi neinar lagabreytingar. Er það svo að ríkisstjórnin er tvíhöfða eins og rómverski örninn og talar til beggja handa ólíkum tungum? Ef svo fer að ekkert verður aðhafst til þess að uppfylla álit nefndarinnar hvaða skilaboð er verið að senda þjóðum heimsins sem munu í október næstkomandi kjósa í öryggisráðið? Að Ísland líti á mannréttindi aðeins í orði en ekki á borði? Telur utanríkisráðherra að aðgerðarleysi í þessu máli verði til þess að auka hróður Íslendinga meðal þjóða heimsins, sérstaklega í ljósi þeirrar miklu áherslu sem lögð er á mannréttindi af Íslands hálfu? Ég sé ekki betur en að trúverðugleiki framboðsins til öryggisráðsins sé i húfi.

Athugasemdir