Illa farið með fólk

Pistlar
Share

Kvótakerfið fer illa með fólk. Um það eru mörg dæmi síðustu 17 árin nánast um land allt. Fólkið býr við stöðugan ótta um atvinnu sína og afkomu, og missir svo vinnuna fyrirvaralaust án þess að geta rönd við reist. Það standa engir starfslokasamningar til boða eða 12 mánaða laun vegna þess að starfið er lagt niður. Nei, verkafólkið og sjómennirnir fá vinnu í einn mánuð og besta falli þrjá mánuði og svo er dyrunum skellt í lás.

Þetta sama fólk, sem býr við annan veruleika í starfsöryggi en við heyrum af í fjölmiðlum, úr ýmsum greinum eins og fjármálamarkaðnum, er algerlega á sama báti og aðrir landsmenn þegar kemur að því að greiða skuldir sínar. Þær eru verðtryggðar á sama hátt um land allt og bera sömu vextina, þó að vísu hafa framsæknar fjármálastofnanir fundið það út að skuldarar sem búa í sjávarþorpum landsins eigi að borga hærri vexti, ef á annað borð er lánað fólki sem þar býr.

Fólkið sem kvótakerfið fer illa má þola að eignir þess lækka í verði, það má þola að árstekjur dragist aftur úr öðrum, en það nýtur þess í botn að skuldirnar eru jafnverðmætar um land allt, líka í kvótalausum sjávarplássum. Kvótakerfið gefur útvöldum hundruð milljóna króna og sumum jafnvel meira, en það gefur fólkinu ekkert nema áhættu, áraun og áfall.

Þennan veruleika sjá ekki allir. Sjávarútvegsráðherrann sá hann ekki í Bolungavík og Einar Oddur sá hann ekki á Flateyri. Þess vegna ræddu þeir ekki sjávarútvegsmál í nýafstaðinni kosningabaráttu heldur olíuhreinsunarstöð. Í Bolungavík eru liðlega 60 manns í sjávarútvegi með uppsagnarbréf í höndunum, að auki fengu 10 manns sem unnu við Ratsjárstöðina slíkt bréf ekki fyrir svo löngu. Á Flateyri munu 120 manns fá uppsagnarbréf á næstu dögum.

Við þurfum frið sagði framkvæmdastjóri útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækis á Vestfjörðum og frambjóðandi Sjálfstæðiflokksins í blaðaviðtali í síðustu viku. "Ef við fáum að vera í friði og fáum að gera það sem við erum að gera í dag þá lítur framtíðin nokkuð vel út."

Framtíðin er þannig að útlit er fyrir að fólki fækki um 100 í Bolungavík og um 200 á Flateyri, og ég veit ekki betur en að stóru kvótahafarnir hafi fengið að vera í friði. Þeir fá frið til þess að taka út peningana sem liggja í kvótanum, þeir frá frið fyrir öllum skyldum við aðra en sjálfa sig, þeir fá frið fyrir útsvarinu, þeir fá frið til þess að leika sér í golfi um áhyggjulausa ævidaga og það e r rétt að framtíð þeirra lítur nokkuð vel út.

En framtíð fólksins lítur ekki eins út, það fær ekki frið fyrir skuldunum. Það er illa farið með fólk og það hefur verið gert undanfarin ár. Það verður að breyta kvótakerfinu og tryggja atvinnu og byggð í landinu. Það vita stjórnmálamenn, líka þeir sem þögðu í kosningabaráttunni.

Því er spurt, verður ný ríkisstjórn samfylking um almannahagsmuni eða leysir samfylking sérhagsmuna af hólmi framsókn sömu hagsmuna? Verður áfram farið illa með fólk?

Athugasemdir