Útlendingar fá lægri laun

Pistlar
Share

Formaður Samiðnar hefur staðfest að útlendingar fái lægri laun en Íslendingar fyrir sömu vinnu. Það kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins. Bendir formaðurinn á að með þessu sé útlendingunum mismunað og á þeim brotið. Svipaðar upplýsingar höfðu áður komið fram í skýrslu Þóru Helgadóttur, starfsmanni Kaupþings, frá janúar 2007. Þar kemur fram að vísbendingar megi greina í þá veru að erlent vinnuafl sé að þiggja lægri laun en innlent. Vísar hún til launaþróunar í byggingariðnaði og mannvirkjagerð skv. upplýsingum frá Hagstofu Íslands, en einmitt í þeim greinum er mest af erlendu vinnuafli.

Þegar Evrópusambandið stækkaði og við bættust 10 ríki frá Austur Evrópu varð sú breyting vinnumarkaður gömlu Evrópusambandsríkjanna og ETFA ríkjanna opnaðist fyrir fólki sem býr við miklu lægra launa- og velferðarstig. Það bauð heim því ástandi að þangað leitaði launafólk sem sætti sig við lægri laun en innfæddir en fengi samt mun betri laun og lífskjör en eru í boði í þeirra heimalandi.

Við þessu var varað í fyrra þegar íslenskur vinnumarkaður opnaðist. ASÍ lagði til að opnuninni yrði frestað í 3ár og benti t.d. á að ótti væri við að verkafólk frá nýju ríkjunum væri tilbúið að sætta sig við lakari kjör en hér gilda .Sá ótti hefur nú verið staðfestur. Verkalýðsfélag Húsavíkur benti á að of hröð fjölgun verkafólks frá láglaunasvæðum myndi valda tekju- og lífskjaraskerðingu fyrir íslenskt launafólk og að réttindi erlenda fólksins yrðu ekki tryggð. Svipaðar áherslur komu fram hjá Verkalýðsfélagi Akraness. Afl, starfsgreinafélag Austurlands, sem hefur ef til vill mesta reynslu af þessari stöðu vegna framkvæmdanna við Kárahnjúkavirkjun og álverið í Reyðarfirði, sendi alþingismönnum ályktun þegar breytingin var til meðferðar á Alþingi í apríl 2006, og upplýsti að trúnaðarráð félagsins teldi þegar hafna þróun í þá átt að íslensku starfsfólki sé sagt upp störfum og erlent launafólk á lægri launum ráðið í staðinn. Lítur trúnaðarráðið félagsins svo á að í óheftum innflutningi felist bein aðför að kjörum íslensks launafólks sem muni auk þess grafa undan grundvallaratriðum velferðarkerfisins

Það eru mörg dæmi um að útlendingar ráða sig til vinnu fyrir lægri laun en Íslendingar sætta sig við. Þau eru til úr sjávarútveginum, byggingariðnaði og ýmsum iðngreinum. Þessi staða mun auðvitað hafa áhrif á laun Íslendinganna til lækkunar líka þegar fram líða stundir. Nú er Seðlabankinn að spá því að atvinnuleysi geti orðið allt að 5% eftir tvö ár og um 6000 störf tapast. Halda menn að þá sé hægt að senda útlendingana úr landi eins og hverja aðra vöru sem ekki er þörf fyrir lengur? Auðvitað ekki, þeir hafa fullan rétt til þess að vera hér áfram og hafa margir hverjir sest hér að og munu leita sér að starfi og áfram vera tilbúnir að þiggja lágmarkslaunin. Það er að mínu mati nokkuð fyrirsjáanlegt hvað þá muni gerast.Útlendingarnir munu áfram fá lægri laun og þegar störfum fækkar munu laun Íslendinganna lækka.

Um þetta snýst málið, að verja launastigið og kjör þeirra sem starfa á íslenskum vinnumarkaði, bæði útlendinga og Íslendinga. Verkafólk og iðnaðarmenn eru þær starfsstéttir sem verða fyrir barðinu á þessari þróun og eiga mest undir því að stjórnvöld verji kjör þeirra. Stjórnun á vinnumarkaði er ekki aðeins möguleg heldur nauðsynleg. Annað væri ábyrgðarleysi.

greinin birtist í Fréttablaðinu í dag.

Athugasemdir