EES samningurinn heimilar stjórnun

Pistlar
Share

Deilt hefur verið um hvort íslenskum stjórnvöldum er heimilt að takmarka einstaka þætti fjórfrelsisins, sem varðar fólk, fjármagn , vöru og þjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Nokkrir hafa haldið því fram að það væri óheimilt og jafngilti uppsögn samningsins. Slíkar fullyrðingar eru fjarri öllu sanni. Í samningnum eru skýr ákvæði sem heimildar einstökum samningsaðilum að grípa einhliða til aðgerða sem takmarkar fjórfrelsið, einn þátt þess eða fleiri eftir atvikum. Óumdeildur er réttur samningsaðila til aðgerða, hvenær þær hefjast og hann einn metur hvort skilyrði eru fyrir hendi.

Aðrir samningsaðilar geta skotið til gerðardóms því hvort umfang og gildistími aðgerða sé í samræmi við vandann sem brugðist er við, en gerðardómurinn getur ekki tekið afstöðu til þess hvort ráðstafanir voru nauðsynlegar eða ekki, af þeirri ástæðu að rétturinn til ráðstafana er óumdeildur og einhliða. Ég vísa til samningsins og fylgiskjala hans þessu til sönnunar.

Að sjálfsögðu gerðu samningamenn Íslendinga ráð fyrir því að frjáls för launafólks innan EES svæðisins gætu haft óæskileg áhrif og ríkisstjórnin lagði fram sérstaka bókun til þess að skýra að hún teldi sig geta gripið til ráðstafana ef alvarleg röskun yrði á vinnumarkaði vegna meiriháttar flutninga starfsfólks sem beindust að sérstökum landssvæðum, störfum eða atvinnugreinum. Í skýringum sem fylgdi frumvarpinu á sínum tíma, er tekið fram sem dæmi um aðgerðir að tekin yrðu upp atvinnuleyfi á nýjan leik, en þá yrði að gera það á þann veg að reglan gilti um alla borgara EES svæðisins, en beindist ekki gegn tilgreindum þjóðum. Nú liggur fyrir að þau áhrif hafa orðið á vinnumarkaði að dæmi er um að útlendingum eru greidd lægri laun en Íslendingum fyrir sömu vinnu og að af því getur leitt að laun annarra lækki í kjölfarið. Þá eru mörg dæmi þess að aðbúnaði þeirra sé áfátt og á þeim brotinn réttur.

Þetta eru málefnalegar ástæður til þess að grípa til aðgerða í þeim tilgangi að verja laun og önnur kjör verkafólks og iðnaðarmanna. Þær aðgerðir gætu t.d. verið að taka upp sömu reglur um leyfi til starfa á íslenskum vinnumarkaði og eru í gildi gagnvart þeim 6 milljörðum manna sem búa utan EES svæðisins. Gerðar eru kröfur um atvinnuleyfi og það ekki veitt nema skorti kunnáttumenn innan lands eða atvinnuvegina skorti vinnuafl og aflað umsagnar verkalýðhreyfingarinnar áður en leyfi er veitt. Þeir sem tala gegn aðgerðum á vinnumarkaði í ljósi þess sem vitað er, eru að vinna gegn haugsmunum launafólks, einkum verkafólks og iðnaðarmanna og ganga erinda atvinnurekenda sem hafa gengið á lagið.
Það er alveg ný afstaða stjórnmálamanna hér á landi, sem fram hefur komið hjá nokkrum þeirra, að stjórnun á vinnumarkaði komi ekki til greina vegna þess að það séu grundvallarréttindi sem ekki verði vikið frá að atvinnurekendur geti lækkað laun á Íslandi. EES samningurinn var ekki lögfestur til þess að vega að verkafólki og iðnaðarmönnum.

Athugasemdir