Í síðasta sunnudagsblaði Morgunblaðsins er Steingrímur J. Sigfússon í ítarlegu viðtali um stjórnmálin og hugsanlega stjórnarmyndun að afloknum alþingiskosningum í vor. Hann segir um stóriðjuna að það yrði meira og minna óaðgengilegt fyrir Vinstri græna að fara inn í ríkisstjórn við aðrar aðstæður en þær, að allt sem hægt væri að stöðva, yrði stöðvað.
Afstaðan kemur svo sem ekki á óvart. En eitt vekur þó sérstaka athygli mína í ljósi þess að Steingrímur lýsir því skýrt að hann útilokar ekki stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn og gerir það fyrir Agnesi Bragadóttur að tala hýlega til flokksins. Það er að Steingrímur setur engan fyrirvara eða skilyrði um engar nýjar ákvarðanir um stóriðju fram til kosninga. Vitað er að ríkisstjórnin vinnur hörðum höndum að því að festa í sessi sem mest af stóriðju fyrir vorið og má þar nefna álver í Straumsvík og Helguvík.
Yfirlýsing Steingríms þýðir að hann útilokar ekki að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum þrátt fyrir nýjar ákvarðanir í stóriðju fram til vors , ef svo kyrfilega verður búið um hnútana að þá yrði ekki hægt að stöðva áformin.
Segja má að Steingrímur veiti afslátt á skilyrðum sínum varðandi stóriðju þegar Sjálfstæðisflokkurinn á í hlut.Ég skal ekki segja hvort þetta þetta er meðvitað, að verðlauna Sjálfstæðisflokkinn fyrir meiri stóriðju á næstu árum með því að segja að stjórnarsamstarf við hann komi eftir sem áður til greina.
Ég held frekar að Steingrímur hafi ekki áttað sig á því að með þessu er stóriðjuskilyrði hans mun mildara gagnvart Sjálfstæðisflokknum en stjórnarandstöðuflokkunum. Þetta misræmi þarf formaður Vinstri grænna að skýra. Er flokkurinn tilbúinn að fara í ríkisstjórn með flokki sem tæki á næstu 3 mánuðum ákvarðanir um nýja stórfelldar stóriðjuframkvæmdir á næsta kjörtímabili?
Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.
Athugasemdir