Of lítið fjármagn til samgöngumála

Pistlar
Share

Fram eru komnar samgönguáætlanir ríkisstjórnarinnar, önnur fyrir næstu 4 ár , 2007 – 2010 og hin er til 12 ára, 2007 – 2018.

Áætlunargerð er skynsamleg til þess að taka saman lista yfir nauðsynlegar úrbætur og raða þeim niður. Hins vegar er reynsla fyrir því, sérstaklega undanfarin ár, að áætlanir sem gerðar eru skömmu fyrir kosningar reynast illa þegar þær eru afstaðnar. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur þó keyrt um þverbak hvað þetta varðar. Framkvæmdum hefur verið seinkað og skákað til fyrirvaralaust eins og gerðist á síðastliðnu sumri. Þess vegna eru áætlanirnar nú teknar með nokkurri tortryggni, sporin hræða.

Með þessu fororði þá vil ég nefna helstu atriði sem mér finnst standa upp úr. Það fyrsta er að samgönguáætlunin nær ekki fjarskipta. Síma- og netsamgöngur eru að mínu viti hluta af samgöngunum og hið opinbera á að beita sér fyrir uppbyggingu þess, annaðhvort með því að eiga og reka fjarskiptanetið eitt og sér eða í samvinnu við fyrirtæki á þessu sviði.

Skynsamlegast væri, að minni hyggju að grunnnetið margfræga yrði dregið út úr rekstri fjarskiptafyrirtækjanna og má vísa til orkuflutninganetisins sem er i sérstöku fyrirtæki að lang,estu leyti í eigu ríkisins. Þessi leið myndi auðvelda uppbyggingu netsins á landsbyggðinni og tryggja þar með að þau landssvæði yrðu samkeppnishæf við fjölmennu svæðin.

Það fyrirkomulag, sem nú er í gildi, að einkafyrirtækin byggi upp hvert og eitt sitt fjarskiptakerfi og ríkið styrki þau við sérstakar aðstæður hefur reynst bæði dýrt og seinvirkt. Það má heita fullkominn fáránleiki að það skuli taka samgönguráðherra 3 ár að koma upp einum sendi fyrir GSM í Flatey, sem svo aðeins er hálfkláruð lausn í Barðastrandarsýslunni. Hvað á það að þýða að svo litla fjárfestingu þurfi að bjóða út á öllu Evrópska efnahagssvæðinu?

Annað atriði, sem ég vil nefna, er hve litlu fé er í raun varið til samgöngumála. Samtals til flug-, hafna- og vegamála er varið að jafnaði liðlega 30 milljörðum króna árlega. Það er allt of lítið sem og berlega sést á því hversu seint miðar með löngutímabærar úrbætur, sérstaklega í vegamálum. Þessi fjárhæð til reksturs, viðhalds og framkvæmda er aðeins tæplega 3% af vergri landsframleiðslu hvers árs. Það eru eiginlega smámunir borið saman við umfang hins opinbera eða fjárfestingu einkaaðila og heimilanna. Á þessu ári eru aðeins 10 milljarðar til vegaframkvæmda á landinu öllu og það segir sig sjálft að hægt miðar með því sleifarlagi.

Það eru ekki margar framkvæmdir í áætlununum tveimur sem valda deilum, fyrst og frest er tekist á um röðun framkvæmdanna en ekki hvort eigi að ráðast í þær. Þó vil ég undirstrika að hófs verður að gæta í kostnaði. Kröfur um svokallaða 2+2 vegi út frá höfuðborginni eru langt umfram þörf miðað við umferðarþunga og ef þeim er haldið til streitu er mörgum milljörðum króna varið umfram nauðsyn sem bitnar á öðrum framkvæmdum. Þá hef ég gert ráð fyrir að þessir vegir verði eftir sem áður breikkaðir og gagnstæðar akreinar aðskildar og þannig náð fram góðu umferðaröryggi.

Aðeins 15 milljarðar króna af söluverði Landssímans er varið til samgöngumála, hitt fer í ríkissjóð. Ég tel að öllu söluverðinu eigi að ráðstafa til málaflokksins, það bætir tæplega 52 milljörðum króna við. Ég sé enga sérstaka þörf á því að geyma þetta fé á reikningi í Seðlabankanum. Það yrði að ráðast af almennu efnahagsástandi hversu hratt yrði unnið fyrir viðbótarféð af sölu Landssímans, en ef hófs er gætt í stóriðjuframkvæmdum á næstu árum sé ég ekki annað en að hægt sé að vinna fyrir peningana á næstu 4 – 6 árum.

Að auki legg ég til að úr ríkissjóði verði árlega varið sem svarar 1% af landsframleiðslu til framkvæmda , einkum í vegnamálum. Þrátt fyrir þá hækkun yrðu árlegar fjárveitingar ríkisins til samgöngumála mjög hóflegar samanborið við ýmis nágrannalönd okkar.

Þessar tillögur þýða að á næstu árum yrði varið um 100 milljörðum króna til samgöngumála umfram það sem áætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir. Ef þessar tillögur næðu fram að ganga yrði alger bylting í samgöngumálum okkar á næstu 4 – 6 árum, bylting sem sárlega er beðið eftir og kallað á úr öllum áttum, ekki síður frá höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.

Vilji er það sem til þarf. Annað ekki.

Athugasemdir