Í stjórnarskrá lýðveldisins er kveðið á um það í 1. grein að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn. Við fyrstu sýn ætti ekki að leika neinn vafi á því hvað felst í þessum fyrirmælum. Ríkisstjórnin er bundin af Alþingi, hún verður að styðjast við þingið í störfum sínum.
En ekki er allt sem sýnist. Ólafur heitinn Þórðarsom sagði stundum á Alþingi að þessu hefði verið snúið við, á Íslandi sæti stjórnbundið þing. Hann átti auðvitað við að hlutverkið hefði snúist við, ríkisstjórnin eða einstakir ráðherrar færu sínu fram og hlutskipti þingmanna væri oft ekki annað en að standa frammi fyrir gerðum hlut ráðherranna og hlýða þeim eins og húskarlar forðum.
Sannast sagna er þetta oft reyndin, og oftar en kjósendur grunar. Örfáir forystumenn stjórnarflokkanna ráða málum til lykta í einhverjum bakherbergjum og ætla svo þingmönnum að hrinda ákvörðunum í framkvæmd möglunarlaust og aðeins með þeim breytingum sem forystumennirnir samþykkja.
Segja má að ráðherrarnir starfi meira og minna án afskipta þingmannanna sem þeir styðjast við, þá er skýr aðskilnaður framkvæmdavalds og löggjafarvalds. En þegar málin eru komin til þingsins breytist þetta og samstarf framkvæmdavalds og löggjafarvalds verður svo náið að löggjafarvaldið má helst ekki snúa sér við án samþykkis framkvæmdavaldsins. Þetta ástand kallaði Ólafur Þórðarson stjórnbundið þing.
Eitt lýsandi dæmi er nýlegur samningur landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um starfsskilyrði sauðfjárræktar næstu 6 árin. Samningurinn var undirritaður og gerður opinber þann 25. janúar. Útgjöld ríkissjóðs á samningstímanum nálgast 20 milljarða króna svo augljóslega er um meiriháttar mál að ræða. Sú breyting er frá gildandi samningi að útflutningsskylda er að kröfu ríkisstjórnarinnar felld niður.
Vissulega má deila um landbúnaðarkerfið og hvernig það eigi að vera, en útflutningsskyldan hefur gert það að verkum að bærilega hefur gengið að hafa jafnvægi í framboði og eftirspurn á kjötmarkaðnum. Afnám útflutningsskyldunnar eykur framboð innanlands og þar með líkurnar á því að verð á lambakjöti til bænda muni lækka. Breytingin er í andstöðu við bændur, en ráðherrarnir ráða. Þetta er stóra málið í samningnum.
Í þessu máli var ekki haft samráð við þingmeirihlutann svo mér sé kunnungt um. Ekki var sótt þangað umboð til þessarar stefnubreytingar, ekki var rætt við þá þingmenn stjórnarliðsins sem sátu í landbúnaðarnefnd og þegar ég fór úr þingflokki framsóknarmanna var hvorki búið að sýna þar samninginn, kynna hann eða bera undir þingmenn og voru þó liðnar tvær vikur frá því að samningurinn var undirritaður með pompi og prakt. Má ég minna á að ég var varaformaður landbúnaðarnefndar Alþingis meðan samningar stóðu yfir.
Það þarf enginn að ímynda sér að ráðherrarnir láti það afskiptalaust að alþingismenn breyti samningnum í meðförum þingsins. Þvert á móti. Það verður að öllum líkindum ekki liðið. Þau eru fleiri málin með þessu lagi. Þessu þarf að breyta til þess horfs sem gert er ráð fyrir í stjórnarskránni. Írak, fjölmiðlamálið og Baugsmálaferlin, svo dæmi séu nefnd, hefðu sennilega aldrei skekið þjóðfélagið ef raunverulega væri þingbundin stjórn.
Athugasemdir