Enn dregur í sundur með fólki á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og á landsbyggðinni hins vegar. Byggðastofnun og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gáfu út nýlega skýrslu um hagvöxt landshluta 1998 – 2004. Hún sýnir sömu þróun og aðrar skýrslur hafa meira og minna varpað ljósi á. Lífskjör á höfuðborgarsvæðinu batna mun meira en annars staðar á landinu og misskiptingin fer áfram vaxandi.
Hagvöxturinn á þessu 6 ára tímabili varð 39% á höfuðborgarsvæðinu. Meðaltalið yfir landið allt var 29% og það er sláandi að hvergi var svæði á landsbyggðinni sem náði landsmeðaltalinu. Þau voru öll undir því. Stóriðjuframkvæmdirnar á Austurlandi gera það að verkum að hagvöxturinn varð 22% á þessu tímabili, sem er það skársta á landsbyggðinni, en er samt vel undir landsmeðaltalinu og aðeins um helmingur af hagvextinum á höfuðborgarsvæðinu.
Á Suðurnesjum, Suðurlandi og Norðurlandi eystra varð hagvöxturinn frá 11 – 19% á þessum 6 árum. En á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra varð enginn hagvöxtur heldur 6% samdráttur. Þessar tölur segja skýrt hvar vöxturinn hefur verið og hvar hann hefur ekki verið. Um þrír fjórðu hlutar hagvaxtarins á höfuðborgarsvæðinu eru í þjónustu. Á Vestfjörðum hefur afli dregist saman, t.d. um fjórðung bara á árinu 1999 og á Norðurlandi vestra hefur fiskvinnsla minnkað.
Fólki fjölgar þar sem hagvöxtur er en fækkar þar sem störfum fækkar. Íbúum fækkar um 10% á Vestfjörðum á árunum 1998 – 2004 og um 6% á Norðurlandi vestra á sama tíma. Þeim fjölgar hins vegar um 10% á höfuðborgarsvæðinu. Ef litið er til lengra tímabils þá hefur íbúum fækkað á Vestfjörðum um 21% frá árinu 1994. Það er gríðarleg fækkun á ekki lengri tíma og líklega einsdæmi í allri Evrópu.
Þarna fer saman á stórum hluta landsbyggðarinnar að störfum fækkar eða fjölgar mun minna en á höfuðborgarsvæðinu og að tekjurnar sem menn bera úr býtum á landsbyggðinni lækka í samanburði við tekjurnar af störfunum á höfuðborgarsvæðinu.
Eignaverð dregur svo dám af þessari þróun og er nærtækast að benda á íbúðaverð. Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Fasteignamats ríkisins var meðalfasteignaverð á fermetra í sérbýli á Ísafirði aðeins um fjórðungur af verðinu í Reykjavík og verðið á Akranesi,Borgarbyggð og Skagafirði um helmingurinn af Reykjavíkurverðinu. Frá 1995 hefur íbúðaverðið hækkað um 177% á höfuðborgarsvæðinu en aðeins um 26% á Vestjörðum.
Það blasir við að hrun er framundan á veikustu svæðum landsbyggðarinnar ef þessi þróun heldur áfram. Reyndar má segja að 21% íbúafækkun á 12 árum sé ekkert annað en hrun og því má segja að hrun hafi þegar orðið sums staðar á landsbyggðinni. Það kemur líka fram í skýrslu Byggðastofnunar og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands að ef tekjur á mann aukist ekki meira á þeim landssvæðum en annars staðar sé freistandi fyrir fólk að flytja þangað sem tekjurnar hafa aukist meira að undanförnu.
Þetta er það sem hefur gerst og skýrslan dregur fram og það mun halda áfram að gerast og með vaxandi hraða ef stjórnvöld grípa ekki inn í atburðarrásina. Það var gert á Austurlandi með stóriðjuframkvæmdunum. Ábyrgðarleysi undanfarinna ára getur ekki haldið áfram gagnvart landsbyggðinni utan áhrifasvæðis Höfuðborgarinnar og stóriðjuframkvæmdanna.
Það þarf að bæta lífskjörin á hinum svæðunum og stjórnvöldum ber að beita sér þar með aðgerðum í atvinnu- og skattamálum samhliða jöfnun á aðstöðu í samgöngum og fjarskiptum. Vandinn hefur verið greindur, úrræðin er þekkt. Það er aðeins spurning um viljann. Hann hefur verið af skornum skammti og það er pólitísk aðgerð að breyta því.
Athugasemdir