Einkavætt fréttahlutverk

Greinar
Share

Páll Magnússon, útvarpsstjóri segir nýlega í Morgunblaðinu að Fréttablaðið lemjist enn um á hæl og hnakka í hagsmunagæslu fyrir eigendur sína. Þar er hann að vísa til umfjöllunar blaðsins um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Páll er flestum mönnum kunnugri starfsaðstöðu fréttamanna á einkamarkaði eftir margra ára störf sín á þeim vettvangi, meðal annars sem útvarpsstjóri Stöðvar 2. Hann er í engum vafa um að blaðamenn Fréttablaðsins dragi ekki af sér í hagsmunagæslu fyrir eigendur blaðsins og sakar þá um það.

Páll Magnússon berst um á hæl og hnakka fyrir því að breyta lögum um Ríkisútvarpið þannig að fréttamenn og aðrir starfsmenn þess búi við sömu löggjöf og gerist á einkamarkaðnum. Það er sannkölluð einkavæðing á starfsemi stofnunarinnar. Gildir engu þótt ríkið verði eigandi hlutabréfanna fyrst um sinn, einkavæðingin hefur farið fram með lagabreytingunni. Salan verður síðar.

Frétta- og öryggishlutverk Ríkisútvarpsins er það mikilvægasta í starfsemi þess. Gildandi löggjöf hefur gert það að verkum að stofnunin rekur tvær vandaðar fréttastofur sem löngum hafa borið af. Sama löggjöf hefur skapað öryggi og trausta umgjörð fyrir fréttamennina í faglegum störfum sínum sem ver þá fyrir afskiptum yfirmanns stofnunarinnar eða pólitísks ráðherra. Þess vegna hefur traust þjóðarinnar til fréttastofa Ríkisútvarpsins verið svo mikið sem raun ber vitni.

Nú stendur til að afnema þessi lagaákvæði og gera starfsmenn stofnunarinnar jafnberskjaldaða fyrir fulltrúum eigenda, sem er hið pólitíska vald, og er á einkamarkaði og Páll Magnússon lýsir í Morgunblaðinu. Mér finnst Páll ganga ansi langt í fullyrðingum sínum og get ekki tekið undir þær. En því er ekki að neita að staða fréttamanna í einkarekstri er miklu lakari en hjá hinu opinbera.

Ég get alveg hugsað mér að breytingar verði, en ég tel að í lögum verða áfram að vera ákvæði sem tryggi starfsöryggi fréttamanna við störf sín með svipuðum hætti og verið hefur. Þörfin fyrir breytingar er að mínu mati frekar til þess, í ljósi mats Páls Magnússonar, að styrkja stöðu fréttamanna á einkamarkaði til sjálfstæðs fréttaflutnings óháð hagsmunum eigendanna en að rífa niður verndina sem er til staðar nú í Ríkisútvarpinu.

Stjórnsýslulögin, sem gilda um opinberar stofnanir, tryggja starfsmönnum ákveðna réttarvernd. Þau gera það að verkum að ákvarðanataka í einstökum málum varðandi réttindi og skyldur starfsmanna verða að byggjast á jafnræðisreglu og málefnalegum forsendum. Þær verður að rökstyðja og þeim er hægt að skjóta til æðra stjórnvalds. Þetta stendur til að afnema og útvarpsstjóri fær því fullt vald í málefnum starfsmanna en losnar undan skyldunum.

Lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna setja ákveðnar og nokkuð strangar reglur um tilfærslu starfsmanna í starfi eða uppsögn. Þetta á að afnema og færa útvarpsstjóra fullt vald til þess að gera svo gott sem það sem hann vill án þess að þurfa að færa fyrir rök. Hann þarf ekki að auglýsa störf og getur ráðið og rekið nokkurn veginn að vild og ákvarðað laun umfram lágmark með mismunandi hætti eftir einstaklingum.
Þetta er einkavæðingin.

Áhrif hennar eru þau, að mínu mati, að draga úr sjálfstæði stofnunarinnar og gerir hana háða "eigandanum" í gegnum alræðisvald útvarpsstjóra. Ég er ósammála því að einkavæða eigi Ríkisútvarpið. Þvert á móti vil ég gera Ríkisútvarpið sjálfstætt og óháð. Leiðin til þess að gera það að sjálfseignarstofnun með tryggum tekjum úr ríkissjóði.

pistillinn birtist í Morgunblaðinu 22. janúar 2007

Athugasemdir