Samþykktir Framsóknarflokksins

Pistlar
Share

Síðastliðinn föstudag skrifar formaður Framsóknarflokksins og lýsir stefnu flokksins varðandi Ríkisútvarpið. Vitnar hann í samþykkt síðasta flokksþings, sem var 2005, og telur umbreytingu stofnunarinnar í hlutafélag samræmast henni.

Þessi lýsing formanns er ónákvæm og snýr við raunverulega samþykktri stefnu Framsóknarflokksins. Á flokksþingi 2001 var samþykkt beinlínis að Ríkisútvarpinu yrði ekki breytt í hlutafélag. Síðar sama ár samþykkti miðstjórn flokksins skv. tillögu sérstaks málefnahóps að Ríkisútvarpið yrði sjálfseignarstofnun, óháð og sjálfstæð, sem yrði fjármögnuð með þjónustusamningi við ríkið.

Þessi stefna var borin fram fyrir kjósendur fyrir alþingiskosningarnar 2003. Í kosningastefnuskránni stóð: "Framsóknarflokkurinn stendur á traustum grunni, hann feykist ekki til og frá í sviptivindum dagsins. Kjósendur okkar vita fyrir hvað við stöndum og geta treyst orðum okkar".

Flokkssamþykktin frá 2005 er í fullu samræmi við fyrri samþykktir, áréttað er að Ríkisútvarpið verði áfram í eigu þjóðarinnar og sjálfstæði þess eflt. Nýjasta samþykktin ryður ekki burt fyrri samþykktum, þar sem ekkert í henni er í andstöðu við þær eldri. Ekki er að finan stafkrók um það að eldri samþykktir hafi verið felldar úr gildi eða efni þeirra breytt um 180° hvorki í samþykktinni né í neinum öðrum framlögðum skjölum á flokksþinginu.

Ég heyrði fyrst af þessari nýju túlkun á samþykkt flokksþingsins 2005 löngu síðar.
Ef þessum rökum formanns Framsóknarflokksins, að stefnuna sé aðeins að finna í nýjustu samþykkt flokksins, er beitt á aðrar samþykktir, er hætt við að margt einkennilegt komi í ljós. Til dæmis hefur ekki verið ályktað um stuðning flokksins við aflamarkskerfið í fiskveiðum síðan 2001.

Staðreyndin er því miður sú að meirihluti þingflokksins ákvað á þessu kjörtímabili að hrinda í framkvæmd breytingum á Ríkisútvarpinu, sem eru í andstöðu við samþykkta stefnu Framsóknarflokksins. Það er ekki hægt að fela. Sjálfstæðisflokkurinn hafði sitt fram að lokum.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 31. jan. 2007.

Athugasemdir