Enn eru ærin viðfangsefni í íslenskum sjávarútvegi. Þau brýnustu um þessar mundir varða eignarhald og nýtingu á fiskistofnunum, og skipulag greinarinnar. Um þessi atriði öll hefur lengi verið deilt án þess að leiða þau til varanlegrar niðurstöðu. Sérstaklega er áberandi síðustu árin að verðlagning á fiski og veiðiheimildum hefur fjarlægst eðlileg markaðslögmál.
Til þessa hefur verið yfirgnæfandi stuðningur við það sjónarmið að þjóðin eigi fiskistofnana eins og endurspeglast í löggjöf um stjórn fiskveiða. Að auki eru stjórnarflokkarnir sammála um að " auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar" og að ákvæði þar um "verði bundið í stjórnarskrá" eins og fram kemur í stjórnarsáttmálanum. Það má ekki verða neitt hik á efndum hvað þetta varðar og ég veit ekki til þess að neinn ágreiningur sé meðal stjórnmálaflokkanna um þetta. Leiðin ætti því að vera greið fyrir nauðsynlegum breytingum á stjórnarskránni í vetur.
Ástæða er til þess að hafa áhyggjur af eignarhaldinu meðan ekki hefur verið tekið af skarið í stjórnarskránni. Samtök útvegsmanna rekur harðan áróður fyrir einkaeignahaldi og hefur látið gera lögfræðileg álit til stuðnings einkavæðingu auðlinda sjávar. Nýleg ráðstefna á vegum sömu aðila, undir nafninu Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, skýrði áform þeirra enn frekar. Ætlunin er að færa eignarhaldið til einkaaðila og að auki allt eftirlit fiskistofnunum og nýtingu þeirra. Þar með verður allt forræði komið úr höndum ríkisins og þar með þjóðarinnar.
Sérstaka athygli vekur skipan hópsins sem stóð að ráðstefnunni. Þar voru forstjórar stórfyrirtækja, fjármálafyrirtækja og erlendir samstarfsmenn þeirra. Það þýðir greinilega að hópurinn telur eðlilegt að útlendingar komi í framtíðinni að eignarhaldi og nýtingu fiskistofnanna við landið. Minna má á að forræði Íslendinga á eigin auðlindum hefur hingað til verið talið nauðsynlegt til þess að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar.
Það er mjög aðkallandi að skilgreina betur í lögum réttinn til þess að nýta fiskstofnana. Þar þarf að koma fram hver geti nýtt auðlindina, hve lengi, hvernig, hvenær og ákvæði um greiðslu fyrir nýtinguna. Nú er lagaákvæðið óljóst og ótímabundið og það veldur verulegum vandkvæðum. Eðlilegt er að einkaaðilar annist nýtingu auðlindarinnar og greiði fyrir. Óeðlilegt er hins vegar að þeir geti selt nýtingarréttinn fyrir háar fjárhæðir án þess að greiða nokkuð að ráði til eigandans. Óeðlilegt er líka að núverandi handhafar veiðiréttar geti með sölu réttarins skaðað hagsmuni fjölmargra án þess að þeir hinir sömu hafi nokkuð um það að segja eða fái neitt af andvirði hins selda til þess að mæta sínu tjóni.
Eitt af því sem þarf að breyta varðandi nýtingarréttinn er að taka ákvörðun til lengri tíma en árs í senn um það magn sem veiða má úr hverjum stofni. Jafnstöðuafli er skynsamleg leið, 3 – 5 ár í botnfisktegundum á að vera raunhæft.
Mér sýnist að þróunin í greininni hafi verið í ranga átt síðustu ár. Verðlagning á fiskinum og reyndar veiðiheimildunum líka lýtur ekki venjulegum markaðslögmálum, heldur virðist svo að fáir stórir handhafar veiðiheimilda hafi svo marga þræði í hendi sér að þeir ráði verðlagningunni. Það er einkennilegt í markaðsþjóðfélagi að verð á fiski er í æ ríkari mæli, ef ég veit rétt, ákvarðað af opinberri stofnun. Samþjöppun og fákeppni er mikil í greininni og fer vaxandi. Aðkallandi er að brjóta upp þetta lokaða kerfi þar sem þeir sem fyrir eru í kerfinu velja þá sem fá að koma inn og ráða verðinu. Svona kerfi fær ekki staðist.
pistillinn birtist í Sjómanninum í vikunni.
Athugasemdir