Úrslit sveitarstjórnarkosninganna voru mikið tap á landsvísu fyrir Framsóknarflokkinn, fylgi flokksins minnkaði úr 23% í tæp 12% í þeim sveitarfélögum sem B listi var boðinn fram. Sjálfstæðisflokkur bætti stöðu sína lítilsháttar og Samfylkingin missti rúmleg 1% og er með 30%. Þessir flokkar eru með samtals rúmlega 70% atkvæða. Vinstri grænir fengu 12,6% og Frjálslyndir 9,3% og bættu þessir flokkar við sig samtals um 10% fylgi.
Þessi útkoma er algerlega óásættanleg fyrir Framsóknarflokkinn, hann hefur til þessa haft sterka stöðu á sveitarstjórnarstiginu og verið í hópi stórra flokka á þeim vettvangi, en er nú orðinn næst minnsti flokkurinn af fimm flokkum og í hópi þriggja lítilla flokka hvað fylgið varðar. Við mat á fylgistapinu verður þó að hafa í huga að Framsóknarflokkurinn bauð ekki fram í Reykjavík í kosningunum 2002 og því mælist landsfylgið, 23%, mun hærra fyrir vikið.
En ef gert væri ráð fyrir að flokkurinn hefði boðið þar fram og hefði fengið svipað fylgi og hann fékk svo í Alþingiskosningunum ári síðar, væri landsfylgið um 18%, sem er svipað fylgi og Framsóknarflokkurinn fékk í Alþingiskosningunum 2003. Það virðist vera nokkuð gott samband milli landsfylgis stjórnmálaflokkanna í sveitarstjórnarkosningunum og í Alþingiskosningum ári síðar, þetta kemur fram þegar tölur eru skoðaðar. Tæp 12% í kosningunum nú er því miður sterk vísbending um það sem koma skal í Alþingiskosningunum.
Þess vegna er einmitt óhjákvæmilegt að bregðast við úrslitunum strax til þess að koma í veg fyrir sambærileg úrslit í kosningunum að ári. Eðlilegt er að byrja með miðstjórnarfundi sem fyrst og jafnvel kalla til stærri hóp á þann fund, þar sem staðan yrði metin,málin rædd og ákveðin næstu skref.
Athyglisvert er að niðursveifan er mest á höfuðborgarsvæðinu og í Norðausturkjördæmi, en bæði Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi koma bærilega út. Í Reykjavík er fylgið það minnsta síðan 1942 og hefur aðeins einu sinni verið lakara. Fylgi B-listanna í Suðvesturkjördæmi fellur úr 20% í 9% og sameiginlegu listarnir sem framsóknarmenn eiga aðild að fengu slæma útkomu. Í Norðausturkjördæmi fellur fylgið úr rúmum 26% í tæp 19% og munar mest um mikið tap á Akureyri og í Dalvík. Í Suðurkjördæmi voru víða ágæt úrslit eins og í Rangárvallasýslu og í Árborg varð tapið mun minna en stefndi í. Í heildina varð fylgi B-listanna 28,4%, en var fyrir fjórum árum tæp 30%. Tap varð þó greinilega í Reykjanesbæ og flokkurinn bauð ekki fram í Vestmannaeyjum , þannig að teknu tilliti til þess má ætla að tapið hafi verið eitthvað meira en 1,5%, en engu að síður er staðan í Suðurkjördæmi þokkaleg.
Í Norðvesturkjördæmi fengu B-listarnir tæp 22% nú, en höfðu tæplega 28% fyrir fjórum árum. Þar munar mest um verulegt fylgistap í Borgarfirði og á Akranesi. Á Vestfjörðum má segja að framsóknarmenn í Ísafjarðarbæ hafi haldið sínum hlut eins og í Húnaþingi vestra. Í Skagafirði náðu framsóknarmenn góðum árangri og bættu við sig 5% fylgi og einum bæjarfulltrúa.
Á Vestfjörðum áttu sameiginleg framboð með aðild framsóknarmanna góðu gengi að fagna. Á Hólmavík fékk J listi 65% fylgi og Samstaða í Vesturbyggð lagði Sjálfstæðisflokkinn að velli og fékk hreinan meirihluta. Í Bolungavík fékk K-listi flest atkvæði og rúm 42% atkvæða. Það er í fyrsta skipti sem Sjálfstæðisflokkurinn er ekki stærstur og því eru úrslitin í Bolungavík tímamót. Framsóknarmenn hafa á öllum þessum þremur stöðum verið sterkir í samstarfinu og átt forystumenn. Nýr listi á Blönduósi náði góðum árangri og fékk hreinan meirihluta.
Framsóknarmenn á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra geta borið höfuðið hátt, en fylgið dalaði á Vesturlandi en í heildina er flokkurinn áfram sterkur í Norðvesturkjördæmi. Ég vil þakka öllum framsóknarmönnum í kjördæminu fyrir góða kosningabaráttu og frammistöðu bæði á B-listum og ekki síður í sameiginlegum listum og færa þeim öllum árnaðaróskir.
Athugasemdir