Í Landnámu segir frá því að Þuríður sundafyllir hafi numið land í Bolungavík, sett Kvíarmið í mynni Ísafjarðardjúps og tekið eina á kollótta í leigugjald af hverjum sem nýtti miðin. Þetta eru líklega elstu heimildir um auðlindagjald á Íslandi. Þær bera með sér að landeigandi gat innheimt gjald fyrir afnot af nærliggjandi miðum.
Nú má heita að almenn samstaða sé um það sjónarmið að auðlindir lands og sjávar séu þjóðareign. Gildir það um fiskistofnana, jarðhitann og fallvötnin. En vaxandi fylgi er við að hagnýting auðlindarinnar eigi að styrkja atvinnulíf og byggð í þeim landsfjórðungi sem hún er. Fyrir 15-20 árum var það helsta verkefni þáverandi iðnaðarráðherra að fá erlend fyrirtæki til þess að reisa og reka álver á Keilisnesi. Orkuna átti að sækja til Austurlands með Kárahnjúkavirkjun og flytja hana síðan þvert yfir landið til Suðurnesja.
Það var hins vegar pólitísk ákvörðun að falla frá þeim áformum og ákveða að orkan í fallvötnunum Austfirsku yrði nýtt á Austurlandi með staðsetningu álvers þar. Þjóðin nýtur góðs af afrakstrinum af sölu orkunnar en Austfirðingar hafa mesta ávinninginn af álverinu, þar sem það eykur fjölbreytni atvinnulífs svæðisins og fjölgar störfum svo um munar. Fyrir vikið mun íbúunum fjölga. Það mætti segja að Austfirðingar taki eina á kollótta í afgjald fyrir afnotin af auðlindinni þeirra.
Nú setja Þingeyingar fram þá kröfu að hagnýting jarðhitans í sýslunni fari fram þar, en ekki í öðrum héruðum landsins. Þarna gildir í raun það sama og á Austurlandi. Þjóðin mun hagnast á sölu jarðhitans til atvinnustarfsemi og atvinna og búseta í Þingeyjarsýslum mun styrkjast vegna álversins. Það er sanngjörn krafa Þingeyinga að fá sína kollóttu á í afgjald fyrir auðlindanýtinguna.
Eðlilegt er að láta þessi pólitísku viðhorf ná til upphafsins, nýtingu fiskimiða landsins. Það verður helst gert með því að ætla útgerðarstöðum hlut af atvinnustarfseminni í sjávarútvegi. Einfaldasta leiðin er sú elsta, að þeir sem nýta auðlindina greiði afgjald í nærliggjandi sveitarsjóð. Þannig fái íbúarnir sitt afgjald rétt eins og þegar vatnsorkan og jarðhitinn eru hagnýtt. Á hverju ári eru greiddir milljarðatugir króna fyrir aðganginn að fiskimiðunum og fer fjárhæðin vaxandi. Sanngjarnt er að "á kollótt" renni til nærliggjandi byggðarlaga og peningarnir nýtist til þess að styrkja atvinnustarfsemi og búsetu þar.
Það er svo útfærsluatriði hvaða leið er farin til þess að ná þessu fram.
Þrjár leiðir koma til greina í fljótu bragði. Sú fyrsta að ríkið leigi og selji veiðiheimildirnar og andvirðið skiptist milli ríkis og sveitarfélaga. Önnur leið er að greiddur verði skattur af viðskiptum með heimildirnar í núverandi kerfi. Sú þriðja er að afhenda sveitarfélögum veiðiheimildir til umráða sem þá væri líklega skynsamlegast að leigja út á markaði og tekjurnar rynnu í sveitarsjóð.
Meginatriðið er að festa í sessi þá stefnu að arðurinn af nýtingu auðlinda til lands og sjávar renni bæði til þjóðar og viðkomandi landssvæðis. Festa í sessi gömlu stefnu Þuríðar sundafyllis.
Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 25. febrúar 2006.
Athugasemdir