Til hvers eru notendagjöld í sjúkratryggingum?

Pistlar
Share

Nýlega var gerð skýrsla á sjúkratryggingasviði Tryggingarstofnunar ríkisins sem heitir: réttlátari notendagjöld í sjúkratryggingum á Íslandi. Þetta er þriðja skýrslan um sjúkratryggingarnar á rúmum fjórum árum sem sjúkratryggingasviðið tekur saman. Fyrst kom út í júní 2001 skýrsla sem nefndist: hver er stefnan í sjúkratryggingum á Íslandi? Í júní 2003 birtist svo skýrslan betri nýting fjármagns til sjúkratrygginga á Íslandi og núna var svo komin röðin að notendagjöldunum. Sérfræðingar stofnunarinnar hafa þannig verið kerfisbundið að skoða sjúkratryggingarnar.

Margt gagnlegt kemur fram í skýrslunni svo sem heildaryfirlit yfir notendagjöldin. Um 40 tegundir sjúkrakostnaðar eru tilgreind og rúmlega 20 greiðsluflokkar. Kerfið er greinilega bæði flókið og margbrotið. Sérfræðingarnir segja m.a. í niðurstöðum sínum að lítil yfirsýn hafi verið yfir þann kostnað sem sjúklingar og hópar sjúklinga með mismunandi sjúkdóma þurfa að bera vegna veikinda sinna og telja fulla þörf á að kanna áhrif núverandi kerfis á þann þátt. Leggja þeir eindregið til að könnunin verði gerð og segja hana æskilegan grunn að breytingum á kerfinu.

Annað sem vekur sérstaka athygli mína eru upplýsingar um nauðsynlega og ónauðsynlega þjónustu í heilbrigðiskerfinu og áhrif notendagjalda á hana. Vísað er til rannsóknar á heilbrigðisstefnu sem rannsóknarhópur í University of British Columbia vann ( HPRU 93:12D). Þær rannsóknir sýna að notendagjöld eru ámóta líkleg til að draga úr nauðsynlegri og ónauðsynlegri.

Samkvæmt sömu rannsóknum er talið að ákvarðanir sjúklinga sjálfra, svo sem að leita sér "óþarfrar" meðferðar eða taka ónauðsynleg lyf, geti numið um 1% af heildarútgjöldum til heilbrigðismála, en að sóun vegna ákvarðana lækna um t.d. óþarfar rannsóknir, meðferð eða lyf geti numið 30% af heilbrigðisútgjöldum.

Á síðasta ári voru þessi útgjöld um 74.4 milljarðar króna. Miðað við niðurstöður umræddra rannsókna er talið að sjúklingar valdi óþarfum kostnaði um 1% eða um 740 milljónum króna en heilbrigðisstarfsmenn 30% eða 22.3 milljörðum króna. Þetta sýnir betur hvað talið er að ákvörðun sjúklings skiptir litlu máli varðandi sóunina,sem talin er vera í kerfinu. Það er því eðlilegt að velt sé upp spurningunni: til hvers eru notendagjöld.

Eðlileg ályktun er að hafa notendagjöld sem lægst, enda þá minnstar líkur á því að gjöldin valdi mismunun eftir efnahag og vitað er að beint samband er milli efnahags og veikinda.

Mér finnst ágætt að ljúka þessum pistli með þessari "marxískri" tilvitnun um heilbrigðiskerfið:

Heilbrigðisþjónustu á að veita samkvæmt þörf, en ekki getu til þess að greiða fyrir hana.
Kostnaði við heilbrigðisþjónustu á að skipta niður á þegnana eftir getu til þess að greiða, en ekki þörf fyrir þjónustu.

Athugasemdir