Væntingarnar villa af leið.

Greinar
Share

Efnahagsmálin eru mál málanna. Ójafnvægið er slíkt að það er að fara illa með sumar atvinnugreinar. verkefni þeirra, sem fara með yfirstjórn efnahagsmál, er að komast til lands úr yfirstandandi róðri án þess að brotlenda skipinu í fjörunni. Gert var út á væntingar um bætt kjör. Eins og önnur útgerð er hún ekki vandalaus og ef ekki er sýnd aðgát geta menn villst af leið.

Stýrivextir Seðlabanka Íslands eru sýna ágætlega hitastigið í efnahagskerfinu og eftir því sem þeir hækka er ástandið eldfimara. Vextirnir eru núna 10,75% og spáð er frekari hækkun fljótlega. Stýrivextir í Evrulöndunum eru 2,25%.Stýrivextir Seðlabanka Bretlands og Bandaríkjanna eru 4,5%. Það er gríðarlegur munur á stýrivöxtum hérlendis og þessum löndum, 8,5% í öðru tilvikinu og 6,25% í hinu.

Það er því miður gallinn við vextina að einhver þarf að lokum að borga þá. Íslensk heimili skulda um 1000 milljarða króna og atvinnufyrirtæki skulda miklu hærri fjárhæðir. Ef stýrivextirnir leiða til þess t.d. að vaxtaprósenta á skuldum heimilanna hækki um helming af stýrivöxtunum, segjum 5%, þá kostar það heimilin 50 milljarða króna á hverju ári. Það lætur nærri að vera um 9% af samanlögðum launatekjum síðasta árs. Þetta er kostnaður vegna umframvaxtastigs en alls ekki heildarvaxtakostnaðurinn, hann er miklu hærri.

Einkaneysla er annar ágætur mælikvarði. Hún mun verða um 21% meiri pr. mann á þessu ári skv. spám fjármálaráðuneytisins en hún var árið 2003. Það er ekki lítil aukning á svo stuttum tíma. Hver maður mun að jafnaði eyða um fimmtungi meira nú en fyrir þremur árum. Umreiknað í krónur þýðir þetta að einkaneyslan verður um 200 milljörðum króna meiri á þessu ári en árið 2003. Það jafngildir um 2 milljónum króna hjá hverri þriggja manna fjölskyldu.

Ef skoðuð eru saman árin 2004 – 2006 þá má áætla að umrædd þriggja manna fjölskylda hafi haft á tímabilinu um 4 milljónir til ráðstöfunar umfram þær 4,6 milljónir króna sem hún hafði árið 2003. Næstum því eyðslu eins árs í bónus, fjögurra ára eyðslu á þremur árum. Það gefur auga leið að þessari viðbótaeyðslu er mætt með skuldasöfnun að einhverju leyti, en ég hef ekki handbærar tölur til þess að áætla hversu stór hluti það er.

Það eru nokkur atriði sem settu væntingarnar hjá almenningi á flug. Skömmu fyrir síðustu alþingiskosningar, í febrúar 2003, voru stýrivextir lækkaðir um 0,5% í 5,3%. Það gaf til kynna að efnahagslífið þyldi nokkra innspýtingu. Boðaðar voru miklar skattalækkanir á grundvelli þessi að stóriðjuframkvæmdir væru hafnar og þær myndu skila efnahagslegum ábata til þjóðarbúsins. Laun hafa haldið áfram að hækka umfram verðlag sem eykur kaupmátt og ný og hærri húsnæðislán með lægri vöxtum gerði fólki kleyft að auka skuldir sínar án vaxandi greiðslubyrði. Öll þessi atriði auka handbært fé og skapa væntingar um aukin fjárráð í náinni framtíð og út á þær er eyðslan aukin.

Þess vegna er óskynsamlegt að boða áframhaldandi miklar stóriðjuframkvæmdir á næstu árum. Það vekur væntingar um áframhaldandi eyðslugóðæri. Verkefnið er hins vegar að draga úr eyðslunni og fá almenning til þess að greiða niður skuldir og það sem er þýðingarmest að ná vaxtastiginu niður. Þá næst jafnvægið eftirsótta og á því hagnast almenningur mest.

Athugasemdir