Notendagjöld: skattur fátæka fólksins.

Greinar
Share

Skýrsla sérfræðinga sjúkratryggingasviðs Tryggingarstofnunar ríkisins um réttlátari notendagjöld í sjúkratryggingunum sýnir að notendagjöldin er ámóta líkleg til þess að draga úr nauðsynlegri og ónauðsynlegri þjónustu. Aukin notendagjöld leiða til aukins ójafnaðar þar sem tekjulágir einstaklingar geta neyðst til þess að neita sér um nauðsynlega þjónustu, en draga ekki úr heildarkostnaði við heilbrigðiskerfið. Skv. athugun Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá 2003, sem nefnist fjármögnun og rekstur heilbrigðisþjónustu, er ekkert sem bendir til þess að lönd sem hafa hlutfallslega há notendagjöld hafi jafnframt lægri heilbrigðisútgjöld eða að slík útgjöld aukist þar hægar en í þeim löndum þar sem notendagjöld eru lægri

Í gær birtist athyglisverð frétt í Blaðinu um nýleg rannsókn sem fram fór í Bandaríkjunum. Niðurstaða hennar er að fátækir eru í verra líkamlegu ástandi og en aðrir og eru líklegri til þess að fá sjúkdóma og deyja. Þarna er tengd saman fátækt og sjúkdómar og því fylgir annað samband, milli fátæktar og kostnaðar notanda við heilbrigðisþjónustuna.

Gerð var grein fyrir bandarísku rannsókninni í The Journal of the American Medical Association. Rúmlega 30.000 sjúklingar voru rannsakaðir,en þeim hafði verið vísað á læknastöð vegna streitu. Þeir tekjulægri mældust bæði með minni súrefnisinntöku og lægri hjartslátt óháð aldri, kyni, reykingum og massastuðli. Eftir að rannsóknum á líkamalegu ástandi lauk var fylgst með þeim í tæplega 7 ár. Á þeim tíma létust mun fleiri úr fátæka hópnum og þeir voru tvisvar sinnum líklegri til þess að deyja en hinir í ríkari hópnum.

Matthías Halldórsson, aðstoðarlandlæknir,upplýsir í Blaðinu að þessi niðurstaða sé svipuð og varð í norrænni rannsókn sem hann tók þátt í. Athugað var hvort börn sem eiga foreldra sem eru fátækari eða minna menntaðir búi við verra heilbrigði en aðrir. Matthías upplýsir að flestar rannsóknir sem gerðar eru í heiminum bendi til þess að svo sé, að heilsa barna fari eftir félagslegri stöðu foreldranna. Aðstoðarlandlæknir segir líka vaxandi bil milli ríkra og fátækra sé ekki valda auknum þrýstingi á heilbrigðiskerfið. Kostnaðaraukningin sé af öðrum ástæðum.

Árið 2003 var hlutur notenda í heilbrigðiskerfinu íslenska um 12.2 milljarðar króna. Stærsti kostnaðarliðurinn var hlutur sjúklinga í lyfjum um 5.4 milljarðar króna. Tannlæknakostnaður var um 4 milljarðar króna og 2.3 milljarðar kr. voru greiddir fyrir heilsugæslu og sérfræðiþjónustu.

Ég spyr mig að því hver ávinningurinn fyrir þjóðfélagið hafi verið að innheimta þessi notendagjöld og hlífa skattgreiðendum við að borga brúsann. Kostnaðurinn við heilbrigðiskerfið varð ekki minni eftir því sem best er vitað. Þess vegna hefði alveg eins verið hægt að greiða allan kostnaðinn af skattfé. Fyrir þá sem höfðu á annað borð efni á því að greiða sinn hlut skipta notendagjöldin væntanlega ekki máli.

En það eru hinir tekjulágu sem verða fyrir barðinu á notendagjöldunum. Þeir þurfa að nota heilbrigðiskerfið meira, kostnaðurinn verður þeim þyngri fjárhagsleg byrði og hann tekur hærra hlutfall af tekjum þeirra. Þeir eru líklegri til þess að hafa ekki efni á þjónustunni og sleppa henni.

Svo dæmi sé tekið er mér ekki grunlaust um að tannheilsa tekjulágra hafi farið mjög versnandi eftir að ríkið hætti að taka þátt í tannlæknakostnaði þeirra sem eru á aldrinum 18-66 ára, nema í algerum undantekningartilvikum. Hvers vegna eru tannbeinin einu beinin í líkamanum sem eru ekki sjúkratryggð?

Niðurstaða mín verður þá sú að notendagjöld leggjast þyngra á tekjulága og fátæka en aðra þjóðfélagshópa, verka eins og sérstakur skattur á þann hóp. Eðlilegt er að lækka hlut notendagjalda og færa hann yfir í almenna skattheimtu ríkisins.

Aðhaldið á kostnaðinn í heilbrigðiskerfinu á að beinast að þeim 30% heildarútgjaldanna sem rannsóknir sýna að séu vegna óþarfra rannsókna, meðferða eða lyfja og eiga sér rætur í ákvörðunum heilbrigðisstarfsmannanna. En hlífum fátækum og börnum þeirra.

Athugasemdir