Hægri og vinstri sameinast á Alþingi.

Pistlar
Share

Fjárlög fyrir næsta ár voru samþykkt á Alþingi fyrr í dag. Tvennt stendur upp, sem pólitísk tíðindi, úr 3. umræðunni um fjárlagafrumvarpið og atkvæðagreiðslu um það. Annars vegar víðtæk samstaða um meginatriðin í skattastefnu stjórnarflokkanna og hins vegar náið samstarf tveggja ólíkra flokka.

Það kom fram tillaga frá Samfylkingunni, sem lýsti stefnu stærsta stjórnarandstöðuflokksins í skattamálum og dró fram muninn á stefnu hans og stjórnarflokkanna. Samfylkingin leggur til að tekjuskattsprósentan á einstaklinga verði sem nemur 0,7% hærri en skattprósentan verður á næsta ári og að virðisaukaskattsprósentan lækki um sem svarar hálfu prósentustigi. Að baki liggur að áfram verði hátekjuskattur og að svonefndur matarskattur verði lækkaður. Út af fyrir sig er ég sammála Samfylkingunni um hátekjuskattinn en hef efasemdir um hitt.

En aðalatriðið er að munurinn á skattastefnunni er harla lítill. Í heildina gerir tillaga Samfylkingarinnar ráð fyrir að afla tveggja milljarða kr. aukinna tekna. Það er ekki mikið í ljósi þess að þessir skattstofnar skila um 200 milljörðum króna í tekjur. Tekjuskattur einstaklinga myndi hækka um tæpa 4 milljarða króna en virðisaukaskattur lækka um 2 milljarða króna á móti.

Það má færa rök fyrir því að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn sé 99,5% sammála stjórnarflokkunum varðandi skattastefnu á næsta ári. Um þá stefnu ríkir greinilega víðtæk samstaða á Alþingi. Það þykir mér veruleg pólitísk tíðindi.

Hitt málið sem mér þótti athyglisvert er hversu náið samstarf er milli Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins, einkum vegna þess að annar flokkurinn skilgreinir sig sem vinstri flokk og hinn sem hægri flokk. Engu að síður fluttu þingmenn flokkanna oft saman breytingartillögur og greiddu atkvæði á sama veg í öllum breytingartillögum að því er ég best tók eftir. Ég held að aldrei hafi leiðir þeirra skilið í atkvæðagreiðslunni, og oft stóðu þeir saman þegar Samfylkingin greindi sig frá þeim.

Þegar svo ólíkir flokkar geta sameinast um breytingartillögur við fjárlagafrumvarp, stærsta pólitíska frumvarp hverrar ríkisstjórnar, þá hljóta þeir að eiga samleið almennt í stjórnmálunum. Munurinn á stefnu flokkanna er þá minni en ætla mætti, sé tekið mið af stefnuskrá flokkanna.

Það verður fróðlegt að fylgjast með samstarfi flokkanna í vetur og það kæmi mér ekki á óvart að flokkarnir tækju upp formlegt samstarf innan tíðar. En verður stefnan hægri stefna eða vinstri stefna eða enda þeir kannski á miðjunni?

Athugasemdir