Samfylkingin veikir sig.

Pistlar
Share

Í síðasta mánuði náðist þríhliða samkomulag milli stjórnvalda, verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda um aðgerðir til þess að halda friði á vinnumarkaði. Kjarasamningum var því ekki sagt upp og friður mun ríkja mæstu 3 árin. Þetta er ákaflega þýðingarmikið fyrir allan almenning og grundvallaratriði í glímunni við verðbólguna. Aðgerðirnar kosta ríkissjóð verulegt fjármagn á hverju ári, en er vel varið.

Eitt af samningsatriðunum var að sett yrði löggjöf um starfsmannaleigur og náðist samkomulag milli aðila um efni þess. Það er algengt að stjórnvöld komi að kjarasamningum með fyrirheitum um aðgerðir sem krefjast lagasetningar. Aðilar vinnumarkaðarins verða að geta treyst því að samkomulag sem gert er nái fram að ganga á Alþingi.

Í því felst ekki að þingmenn afsali sér löggjafarvaldi sínu, en þeir verða hins vegar að undirgangast það að slíkum málum verður að ljúka með samkomulagi við alla aðila málsins, annars er hætt við að samkomulagið á vinnumarkaðnum haldi ekki.

Það hefur vakið athygli mína að framganga tveggja þingmanna Samfylkingarinnar, sem báðir hafa verið ráðherrar, hefur verið þannig að engu er líkara en að þeir leggi sig fram um að spilla samkomulaginu. Þarna á ég við Jóhönnu Sigurðardóttur og Össur Skarphéðinsson. Ég er ekki að gera lítið úr athugasemdum þeirra við málið, en þeim báðum á að vera það ljóst að verði orðið við helstu athugasemdum þeirra má telja líklegt að samkomulagið standi ekki.

Þau hafa bæði staðið áður fyrr í þeim sporum að bera fram lagafrumvörp til þess að efna samkomulag ríkisstjórnar sem þau hafa verið í við aðila vinnumarkaðarins og hafa þá ekki tekið undir málflutning af því tagi sem þau hafa nú lagt mest upp úr.

Þau eru með þessu að gera lítið úr áhrifum forystumanna verkalýðshreyfingarinnar innan Samfylkingarinnar. Manna sem eru flestir í Samfylkingunni, eftir því sem ég best veit. Þau veikja trú manna á áhrifum forystumanna verkalýðshreyfingarinnar innan Samfylkingarinnar, draga úr trú manna á því að Samfylkingin sé ábyrgur flokkur, flokkur sem menn geta treyst til þess að stjórna landinu. Mun flokkurinn standa við gert samkomulag þegar þeir tímar koma að flokkurinn verður í ríkisstjórn eða ekki?

Formaður flokksins á við þessar aðstæður að taka af skarið og lýsa því yfir að flokkurinn muni standa að því með ríkisstjórninni að hrinda samkomulaginu í framkvæmd. Flokkurinn vilji að vísu hafa þetta eða hitt öðruvísi, en lykilatriði sé að standa við bakið á verkalýðshreyfingunni og sína ábyrgð á Alþingi. En formaðurinn hefur ekki tekið af skarið.

Afleiðingin hlýtur að vera dvínandi tiltrú á flokknum, þess vegna kemur mér ekki á óvart að fylgið við hann lætur undan síga um þessar mundir. En þetta mál sýnir kannski hvað best styrkleika Framsóknarflokksins, menn geta leyst það erfiða verkefni að ná samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins og koma því í höfn.

Ég velti því fyrir mér hvorum verkalýðshreyfingin treysti betur um þessar mundir til þess að vera við stjórnvölinn, Framsóknarflokknum eða Samfylkingunni? Ég er nokkuð viss um það að Framsóknarflokkurinn hefur vinninginn.

Athugasemdir