Förum til fólksins.

Pistlar
Share

Staða Framsóknarflokksins var meðal þess sem rætt var á miðstjórnarfundi flokksins um síðustu helgi. Formaður flokksins gaf upp boltann í ágætri ræðu sinni. Sagði hann stöðuna ekki ásættanlega og velti fyrir sér hver skýringin gæti verið. Benti hann á að margt hefði flokkurinn gert vel í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi og því væri líklegt að mistekist hefði að koma þeim verkum á framfæri.

Ég er sammála þessu, staðan er langt frá því að vera ásættanleg. Fylgið hefur jafnt og þétt sigið í könnunum Gallups frá síðustu Alþingiskosningum. Fyrstu mánuði eftir kosningarnar 2003 mældist fylgið 18% en er nú komið niður í 10%. Síðustu sex mánuði hefur fylgið verið um 9% fjórum sinnum og meðaltalið þessa mánuði líklega um 9,4%. Það er aðeins um helmingurinn af kjörfylginu fyrir rúmum tveimur árum. Þetta er engan veginn ásættanlegt.

Það þarf svo ekki að horfa á þessar tölur til þess að gera sér grein fyrir því að erfiðleikar eru uppi. Morgunblaðið hefur bent á þá, til dæmis í leiðara blaðsins 27. maí síðastliðinn. Bendir leiðarahöfundur á að ákveðinnar þreytu gæti meðal almennings vegna langvarandi stjórnarsamstarfs og stjórnarsetu sömu flokka.

Telur hann að staða Framsóknarflokksins sé sýnu erfiðari en Sjálfstæðisflokksins. Í leiðaranum stendur svo: "Raunar er ljóst að Framsóknarflokkurinn er í kreppu, sem ekki blasir beinlínis við hvernig hann á að ráða við. Að óbreyttu eru hins vegar meiri líkur en minni á því, að bæði sveitarstjórnarkosningar og þingkosningar verði erfiðar fyrir Framsóknarflokkinn."

Hvað er til ráða? Svar mitt er förum til fólksins. Forysta flokksins fari til fundar við flokksmenn og stuðningsmenn hans, útskýri verk flokksins í ríkisstjórnarsamstarfinu og hlusti á grasrótina. Staða flokksins í könnunum eru skilaboð frá kjósendum flokksins, sem ekki er hægt að horfa framhjá. Skilaboð um að þeim líki ekki allt það sem flokkurinn stendur að í ríkisstjórnarsamstarfinu. Nú ber forystumönnum flokksins að steypa yfir sig ferðakuflinum og skunda af stað til fundar við fólkið sitt. Spyrja, hlusta og taka mark á því sem grasrótin segir.

Ég held að skilaboðin feli ekki í sér að stuðningsmenn flokksins telji allt vont, heldur þvert á móti held ég að margt séu þeir ánægðir með. Líklegt er að sumt af því sem veldur óánægju sé vegna ónógra upplýsinga og það megi lagfæra með góðri kynningu. En augljóst er að ýmislegt eru kjósendurnir ósáttir við og við því verða forystumenn flokksins að bregðast þannig að kjósendurnir verði sáttir við. Í lýðræðinu felst að kjósendurnir ráða að lokum, undan því verður ekki vikist. Þess vegna eigum við að fara út til fólksins og hlusta.

Annað eigum að við að gera líka. Það sama og Framsóknarmenn í Kópavogi gerðu, að leita til fólksins með mikilvæga ákvörðun, það er val á frambjóðendum. Þegar þeir eru valdir af fjölmennum hópi kjósenda er líklegt að framboðslistinn höfði til þeirra í kosningunum sjálfum. Metþátttaka varð í opnu prófkjöri framsóknarmanna í Kópavogi.

Þeir brugðust greinilegt rétt við erfiðri almennri stöðu flokksins og vanda sem skapaðist við fráfall Sigurðar Geirdals. Við eigum að snúa okkur til allra flokksmanna og jafnvel til stærri hóps við val á frambjóðendum til sveitarstjórna og Alþingis. Það verður þjóðráð fyrir flokkinn sem er í erfiðri stöðu. Gefum grasrótinni tækifæri, hún mun svara með hag flokksins í fyrirrúmi.

Athugasemdir