Fráleitir Frjálslyndir

Pistlar
Share

Það er alltaf forvitnilegt að fylgjast með stjórnarandstöðunni í upphafi þings á haustin. Þá spila þingflokkarnir út sínum helstu áherslum og kynna helstu þingmálin sem flutt verða. Samfylkingin og Vinstri grænir hafa átt hefðbundið start þetta haustið, en Frjálslyndi flokkurinn hefur komið mér verulega á óvart með málatilbúnaði sínum.

Ekki það að þeir hyggist leggja áherslu á sjávarútvegsmál eða málefni aldraðra, við því mátti búast. Heldur sérkennilegum málflutningi í tveimur málum, sem ber helst vott um alvarlegan skort á skilningi á stjórnarskránni og lýðræðinu. Það er mikið áhyggjuefni og veldur mér heilabrotum, hvernig má það vera, að heill stjórnmálaflokkur skuli hér á landi vera algerlega út á túni, eins traustum fótum og lýræðishefðin stendur í íslensku þjóðlífi?

Fyrra málið eru athugasemdir þeirra varðandi kosningu forseta Alþingis. Formaður þingflokks Frjálslyndra hélt því fram í fúlustu alvöru að nei valkosturinn hefði verið tekinn frá þeim og þess vegna hefðu þingmenn flokksins ekki getað greitt atkvæði gegn Sólveigu Pétursdóttur í embættið.

Þarna birtist alvarlegur skortur á eðli lýðræðisins af hálfu frjálslyndra. Við kosningu á forseta Alþingis er valið milli þeirra sem gefa kost á sér. Tilgangurinn er að velja í embætti eða starf. Kjósandinn velur þann sem hann vill. Segja má að í valinu felist óbeint afstaða til þeirra sem ekki voru valdir, en þó er það óvíst hver hún er.

Það sem er skýrt er afstaðan til þess sem kjósandinn velur. Í svona kosningu er ekki hægt að hafna einstökum frambjóðendum með beinum hætti. Ef Frjálslyndir höfðu ekki valkost í Sólveigu áttu þeir að bjóða fram, það var þeim í lófa lagið, annars var þeir kostur að skila auðu. En að bjóða engan fram og krefjast þess svo að geta greitt atkvæði gegn þeim sem var í framboði er eiginlega fyrir neðan allar hellur. Þeir sem svona tala skilja ekki gang lýðræðislegra kosninga.

Hitt málið, sem ég hnaut um er bréf þeirra til Umboðsmanns Alþingis þar sem óskað er álits Umboðsmanns á því hvort Gunnari Örlygssyni hafi verið heimilt að skipta um flokk. Það má að vísu skilja gremju þeirra yfir þeirri ákvörðun, en hitt er öllum ljóst sem lesa stjórnarskrána, að þingmaðurinn fer með umboð kjósendanna en ekki flokkurinn. Það þarf ekki að spyrja Umboðsmann Alþingis, leikreglurnar eru ljósar og voru það þegar boðið var fram.

Ég sé ekki hvernig það eigi að vera öðru vísi. Ef þingmaður er bundinn öðrum þýðir það að hann lýtur boði annars en kjósendanna í almennum kosningum og hvert er þá vald kjósandans?. Hins vegar geta Frjálslyndir að sjálfsögðu haft á þessu aðra skoðun, en þá eiga þeir að leggja fram tillögu til breytinga á stjórnarskránni og upplýsa okkur um það hvernig þeir vilja hafa fyrirkomulagið.

Eiga þingmenn að lúta vilja stjórnar flokksins eða stjórnar kjördæmasambandsins? Og ef þeir láta ekki að stjórn, hvað þá? Er þá einhver sem hefur umboð til þess að víkja manni af þingi og velja annan í hans stað? Það hlýtur að vera meining Frjálslyndra að svo eigi að vera.. Hver er þá staða kjósandans í almennu þingkosningunum? Harla léttvæg sýnist mér, niðurstaðan mun óhjákvæmilega líkjast fyrirkomulaginu í ráðstjórnarríkjunum. Almenna kosningin yrði sýndarmennska en valdið lægi hjá fámennri klíku.

Þetta tvennt er svo fráleitt að engu tali tekur. En það sorglega er að Frjálslyndir setja mál sitt fram af fullri alvöru, það væri betra að um spaug væri að ræða. Meðan þetta stuð er á þeim eru flokkurinn engan veginn stjórntækur. Það er ekki hægt að fela þeim vald til þess að stjórna. Ekki einu sinni til þess að koma á banni við lausagöngu á kanínum.

Athugasemdir