Davíð og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

Greinar
Share

Undanfarið ár hefur borið mikið á andstöðu við áform Íslendinga um aðild að Öryggisráðinu. Þar hafa bæði Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar og Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins og þá utanríkisráðherra látið til sín taka og ekki leynt andstöðu sinni. Ódeigur liðsmaður þeirra hefur að auki verið ritstjóri Morgunblaðsins, þess sem ákveður að eftir atvikum skuli segja fréttir, þegja um fréttir eða hóta að birta fréttir.

Þegar athuguð er forsaga málsins verður þessi afstaða sérkennileg og raunar undarleg. Byrjum á að vitna til greinar, sem Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra skrifaði í Morgunblaðið 19.október 2002. Þar telur hann að Geir Hallgrímsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hafi sem utanríkisráðherra fyrstur hreyft því um miðjan níunda áratuginn, að Íslendingar gerðust aðilar að öryggisráðinu. Greinin heitir Ísland vill sæti í öryggisráðinu.

Næst er að nefna að 20. nóvember 1995 ber Svavar Gestsson, upp þá fyrirspurn á Alþingi til Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, hvort til greina komi að Íslendingar undirbúi framboð til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Er Svavar fylgjandi því að það verði gert og færir fyrir því rök, meðal annars þau að kostnaður verði lítill vegna tæknibreytinga.Taldi hann að hægt væri að sinna skyldunum sem fylgja sætinu með tveimur mönnum.

Forsætisráðherrann þáverandi tók málinu afar vel, en segir að málið hafi ekki verið rætt í ríkisstjórn, en hann telji að Íslendingar eigi að taka virkan þátt að öllu leyti í starfsemi Sameinuðu þjóðanna, þar með talið að sitja í öryggisráðinu. Full ástæða er til þess að birta orðrétt svar Davíðs:

“Ég lýsi því sem skoðun minni að ég tel ástæðulaust fyrir okkur að færast undan því lengur að axla þá ábyrgð sem fylgir þátttöku í öryggisráðinu. Ég tel að bæði hafi tæknihlutinn breyst svo mikið að þar sem áður var rætt um að þyrfti að hafa fjölmennar sendinefndir á staðnum til þess að geta uppfyllt slík skilyrði hafi tæknin breytt slíkum hlutum. Ég tel að við eigum að axla þarna ábyrgð á þessum þætti eins og annars staðar. Eins og hv. þm. nefndi hafa þjóðir sem við höfum verið að styðja fjárhagslega vegna þess hversu fátækar þær eru og illa í stakk búnar tekið þátt í slíku samstarfi eins og Grænhöfðaeyjar og reyndar aðrar þjóðir sem hafa ekki haft mjög mikla fjárhagslega burði. En ég er þeirrar skoðunar að þetta gæti verið og sé eðlilegur þáttur í störfum okkar hjá hinum Sameinuðu þjóðum.”

Í október 1998 ákvað ríkisstjórn Davíðs Oddssonar að stefna að því að fá sæti í öryggisráðinu. Vorið 2000 kemur fram á Alþingi að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sé búin sé að tilkynna um framboð Íslands fyrir tímabilið 2009-2010. Utanríksráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tilkynnti framboðið aftur í ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í september 2003.

Tólfta nóvember 2003 er forsætisráðherrann fyrrverandi á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum með Theo-Ben Gurirab forsætisráðherra Namibíu. Þar kom fram að Namibía styður framboð Íslands til öryggisráðsins og skv. frétt Morgunblaðsins sagðist Davíð Oddsson vera þakklátur fyrir þennan stuðning. Þar talaði ekki maður sem hafði efasemdir um málið.

Eftir að Davíð hætti að vera forsætisráðherra fór hann að efast.

Athugasemdir