Það verður æ algengara að sjáist merki um spuna í íslenskri pólitík, það er að segja hannaða atburðarás sem leiðir til fyrirframgefinnar niðurstöðu, en því samt haldið fram að atburðirnir séu innbyrðis ótengdir og að niðurstaðan sé alger tilviljun. Til þessa ráðs er gripið af þeim augljóslegu ástæðum að menn vilja ekki segja berum orðum hvað til stendur og telja nauðsynlegt að villa um fyrir almenningi.
Ráðning útvarpsstjóra fyrr í sumar fellur að mínu mati undir spuna. Birt var auglýsing um starfið, sem var satt að segja furðuleg, einkum vegna skorts á kröfum um menntun í starfið. Það vakti grunsemdir um að lýsingin væri sniðin utan um fyrirframákveðinn umsækjanda.
Næst gerist að sá, sem síðar var ráðinn, lét af störfum óvænt hjá Stöð 2 og bar við ágreiningi við eigendur fyrirtækisins. Ekki fékkst hann til þess að skýra í hverju ágreiningurinn lá. Skömmu síðar vitnaðist að sá hinn sami hafði gengið á fund Menntamálaráðherra áður en hann sótti um. í framhaldinu var hann svo ráðinn.
Meðal umsækjanda voru vel menntaðir og reyndir menn. Þar má nefna Sigrúnu Stefánsdóttur, Tryggva Gíslason, Birgi Guðmundsson og Elín Hirst. Gengið var framhjá þeim og skýringar eru afar fátæklegar. Það er óútskýrt hvers vegna Páll Magnússon var valinn umfram aðra.
Ekki hef ég neitt á móti honum, en menntun skiptir máli, það á Menntamálaráðherra öðrum fremur að hafa í heiðri. Páll færðist til og frá í starfi innan Stöðvar 2 , en hélt starfi þegar aðrir voru látnir fara og virðist því hafa átt í góðu samstarfi við eigendur fyrirtækisins.
Þetta er svo sem ekkert einsdæmi hjá ríkinu, en það er afleit þróun þegar auglýsingar um eftirsóknarverð störf missa raunverulegt gildi sitt og hafa fremur þann tilgang að tryggja ráðningu einhvers tiltekins sem fyrirfram á að fá starfið.
Annað dæmi um spuna er yfirlýsing Árna Þór Sigurðssonar, borgarfulltrúa þess efnis að hann sæktist ekki eftir 1. sæti á lista Vinstri grænna fyrir næstu borgarstjórnarkosningar heldur öðru sæti. Fljótlega kom í ljós til hvers refarnir voru skornir. Svandís Svavarsdóttir, sem áður hafði lýst því yfir að hún ætlaði ekki að fara í framboð, sneri við blaðinu og ákvað að sækjast eftir efsta sætinu.
Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi ákvað í framhaldinu að gefa ekki kost á sér. Leikfléttan gekk upp. Spurningin er aðeins hvað fær Árni Þór í staðinn. Ég spái því að hann stefni á framboð til Alþingis að ári og hafi tryggt sér stuðning við það með því að gefa eftir 1. sætið í borgarstjórninni. Kannski kemur annar spuni eftir ár eða svo þar sem Kolbrún Halldórsdóttir tilkynnir að hún muni draga sig í hlé og í þá verður leiðin greið fyrir Árna Þór. Hver veit.
Síðasta dæmið um spuna er brottför Davíðs Oddssonar úr landsmálunum. Birgir Ísleifur, Seðlabankastjóri, sem um nokkurn tíma hefur getað hætt og farið á eftirlaun, kemst að þeirri niðurstöðu af algerri tilviljun að nú sé heppilegur tími til þess að hætta og kaupið er hækkað af annarri tilviljun og af algerri tilviljun er það allra mál að Geir Haarde verði næsti formaður Sjálfstæðisflokksins og Þorgerður Katrín næsti varaformaður.
Og örugglega var það einskær tilviljun að Davíð tilkynnti ákvörðun sína daginn eftir að forsætisráðherra hafði kynnt tillögur ríkisstjórnarinnar um ráðstöfun Símapeninganna.
Athugasemdir