Er Reykjavík bara höfuðborg Reykjavíkur?

Pistlar
Share

Það er engu líkara en að flestir borgarfulltrúar í Reykjavík álíti að borgin sé höfuðborg án skuldbindinga, hafi engar skyldur við landsbyggðina. Það eru aðeins borgarfulltrúar Framsóknarmanna sem halda haus í málinu endalausa, staðsetningu Reykjavíkurflugvallar.

Nú er landið í Vatnsmýrinni orðið svo verðmætt að braskarnir vilja komast í það og græða. Ætla má að verðmætið nemi tugum milljarða króna. Það mátti sjá í Kópavogi við síðustu lóðaúthlutun að miklir peningar eru í lóðunum einum og sér. Þar nemur gróði þeirra sem fengu úthlutað lóð líklega eitthvað á annan milljarð króna, sem hægt er að innleysa síðar.

Þetta er hin raunverulega ástæða fyrir því að menn vilja flugvöllinn burt. En enginn hefur ennþá haft orð á því hve mikið af gróðanum á að verja til þess að byggja upp nýjan flugvöll og nauðsynlegar samgönguframkvæmdir til þess að landsbyggðarmenn, þeir sem fyrst og fremst nota þjónustu flugvallarins, verði jafnsettir. Líklega á ríkið að borga kostnaðinn af dæminu en aðrir ætla að hirða gróðann. Það er lóðið.

Reykjavíkurflugvöllur er ákjósanlega staðsettur að mörgu leyti. Hann er við aðalsjúkrahús landsins og þess vegna er ferðatími þangað í lágmarki. Það er mikið öryggisatriði fyrir fólk utan höfuðborgarsvæðisins. Nú hefur verið ákveðið að ríkið borgi og byggi nýjan spítala á Landsspítalalóðinni við Hringbraut. Það mun kosta um 40 milljarða króna. Ef flugvöllurinnverður fluttur verður að taka nýja ákvörðun um staðsetningu sjúkrahússins. Ekki verður unað við að gera suma landsmenn að annars flokks borgurum að þessu leyti.

Ríkið hefur ákveðið að reisa nýja samgöngumiðstöð við flugvöllinn. Það er skynsamlegt og tengir saman ólíkan ferðamáta. Ætla menn að skilja samgöngumiðstöðina eftir en færa flugvöllinn? Hvers konar vitleysa er þetta? Og er ekki nóg komið af skólastarfsemi á þröngu svæði með Háskóla Íslands á Melunum?

Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni hefur einnig þann kost að þaðan er stutt í stofnanir og verslunarmiðstöðvar og öll íbúðahverfi á höfuðborgarsvæðinu eru innan 15 mínútna ferðatíma.
Það verður ekki á betra kosið og staðsetning flugvallarins er einmitt ein helsti kostur höfuðborgarsvæðisins í augum þeirra sem utan þess búa.

Þessir hagsmunir eiga að vera ráðandi við ákvörðun um breytingar. Þjónustuhlutverkið er aðalatriðið og annað verður að víkja, vilji menn yfirhöfuð að Reykajvík sé höfuðborg. Nýr flugvöllur verður að hafa sömu kosti a.m.k. til þess að réttlætanlegt sé að huga að flutningi vallarins.

Fyrst þarf að finna nýjan stað fyrir flugvöllinn sem uppfyllir þessi skilyrði áður en menn fara að efna til hugmyndasamkeppni um Vatnsmýrina. Það er alger forsenda þess sem síðar á að koma. Vonbrigðin eru hins vegar þau að ákafamönnunum um flutning flugvallarins er greinilega alveg sama um hagsmuni þeirra sem flugvöllurinn þjónar fyrst og fremst. Í þeirra augum eru tvær þjóðir í landinu, aðalþjóðin og liðið út á landi.

Athugasemdir