Fylgi kvenna við Framsóknarflokkinn hefur minnkað um 61%

Pistlar
Share

Ég sat um helgina þing Landssambands framsóknarkvenna, en það var haldið á Ísafirði að þessu sinni. Það er ekki lítið mál að halda slíkt þing. Undirbúningur lendir oftast á fárra herðum og þannig var það núna. Nokkrar konur á Ísafirði undirbjuggu þinghaldið og móttöku gesta, allt í sjálfboðavinnu og gerðu það með miklum glæsibrag. Ég tel fulla ástæðu til þess að vekja athygli á því og færar þeim þakkir fyrir vinnu sína.

Í síðustu viku birti Verslunarmannafélag Reykjavíkur niðurstöður könnunar sem gerð var meðal félagsmanna. Hún leiddi í ljós að laun karla voru um fjórðungi hærri en laun kvenna og þegar tekið hefur verið tillit til atriða eins og menntunar, aldurs, vinnutíma og fleira þess háttar þá var samt eftir 14% munur á launum kynjanna. Þetta á ekki að líðast og enn er full þörf á baráttu fyrir jafnrétti kynjanna.

Gengi Framsóknarflokksins hefur ekki verið gott á þessu ári. Þegar kannanir mæla fylgi flokksins mánuð eftir mánuð vel innan við 10% og allt niður í 8% á landsvísu er eitthvað að sem flokksmenn þurfa að taka á og bæta úr. Síðustu fréttir af þessu tagi voru að Framsóknarflokkurinn væri með um 2,3% fylgi í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningar.

Sérstaklega er athyglisvert að skoða þessa fylgisbreytingu út frá afstöðu kynjanna. Fyrsta könnun Gallup eftir síðustu alþingiskosningar mældi fylgið í tvær vikur seinni hluta maí mánuð 2003. Þá reyndist fylgi Framsóknarflokksins vera 16%. Könnun Gallup í ágúst 2005, rúmum tveimur árum síðar, sýnir flokkinn með 9% fylgi. Fylgið hefur minnkað um 7 prósentustig með öðrum orðum hefur það minnkað um 44%.

Í maí 2003 var fylgi Framsóknarflokksins meðal kvenna 18%. Flokkurinn hafði þá 4% meira fylgi meðal kvenna en karla. Ekki er vitað hvort það var svo í sjálfum alþingiskosningunum 2003, en ég tel það mjög líklegt. Könnunin er gerð strax í kjölfar kosninganna og breytingar á afstöðu kjósanda í könnuninni hljóta að vera óverulegar frá kosningunum sjálfum.

Í ágústkönnun Gallup nú í sumar er annað upp á teningnum, þá er fylgi Framsóknarflokksins meðal kvenna aðeins 7%, en meðal karla 11%. Fylgið hefur dregist saman um 21% meðal karla en heil 61% meðal kvenna. Af þessu sést að stærstur hluti vanda flokksins er vegna þess að konur eru hættar að styðja flokkinn. Það er hroðaleg útkoma að hafa misst 61% fylgis kvenna á aðeins tveimur árum. Það þýðir ekki að loka augunum fyrir því.

Ég tel að nokkur mál skýri þessar ófarir, en auk þeirra má benda á önnur almennari atriði. Ráðherravalið síðastliðið haust, þar sem ritari flokksins, kona, var látin víkja fyrir nýjum þingmanni, Freyjumálið í Kópavogi og mál jafnréttisstýrunnar á Akureyri voru mál sem rýrðu traust kvenna á flokknum. Trúverðugleiki er stjórnmálaflokkum nauðsynlegur og trúverðugleiki í jafnréttismálum er óhjákvæmilegur til þess að afla fylgis meðal kvenna.

En rétt eins og hægt er að missa fylgi þá er hægt að vinna það aftur. Það verður aðeins gert með því að viðurkenna vandann, greina hann og síðan ráða bót á. Ræða málin og taka fullt mark á öllum sjónarmiðum. Þá fæst skynsamleg niðurstaða. Umræðustjórnmál eru betri en þagnarstjórnmál.

Í könnunum Gallup eru upplýsingar sem benda til þess að fylgið ekki sé endilega að öllu leyti farið yfir á aðra flokka. Þeir sem ekki taka afstöðu, neita að svara eða ekki myndu kjósa eru í síðari könnuninni 27% svarenda en voru áður 18%. Kannski eru okkar kjósendur þarna og bíða eftir því að flokkurinn þeirra taki sig á og sýni sitt rétta andlit. Landssamband framsóknarkvenna getur hjálpað flokknum til þess að finna fjölina sína sem frjálslyndur og umbótasinnaður stjórnmálaflokkur með sterkar félagslegar áherslur.

Athugasemdir