Heyr himna smiður
Fyrir viku féll frá Jóhannes Páll II páfi og hann var jarðsunginn á föstudaginn, þann 8. apríl. Pólverjinn Karol Woytila tók við páfadóm í október 1978. Hann var fyrsti páfinn sem ekki var ítalskur í heil 455 ár. Líklega hefur Jón Arason ekki verið orðinn biskup á Hólum þegar það var. Of snemmt er að fella dóma yfir verkum Jóhannesar Páls II, það bíður betri tíma, en víst er að heimsmyndin breyttist gríðarlega í valdatíð hans. Kommúnistaríkin í Evrópu féllu saman, innan frá, hvert af öðru og Pólverjinn Woytila átti sinn þátt í því. Ef til vill var honum ætlað það hlutverk, hver veit.
Af þessu tilefni er helst við hæfi að rifja upp óviðjafnanlegt og magnþrungið íslenskt trúarljóð, ort á 13. öld, í katólskum sið. Höfundur var einn af höfðingjum Sturlungaaldarinnar, Kolbeinn Tumason, og hann ákallar drottinn sinn þegar hann finnur jarðnesku endalokin nálgast.
Heyr himna smiður,
hvers skáldið biður,
komi mjúk til mín
miskunnin þín.
Því heiti eg á þig,
þú hefur skaptan mig,
eg er þrællinn þinn,
þú ert Drottinn minn.
Guð, heit eg á þig,
að græðir mig,
minnst, mildingur, mín,
mest þurfum þín.
Ryð þú, röðla gramur,
ríklyndur og framur,
hölds hverri sorg
úr hjartaborg.
Gæt, mildingur, mín,
mest þurfum þín
helst hverja stund
á hölda grund.
Set, meyjar mögur,
máls efni fögur,
öll er hjálp af þér,
í hjarta mér.
Athugasemdir