Siglufjörður : minna má nú gagn gera.

Pistlar
Share

Þá er umræða um Héðinsfjarðargöng komin aftur upp á yfirborðið. Það er mál sem ekki tekst að þegja í hel. Ástæðan er einföld, málið er yfirgengilega óskynsamlegt og fá mál njóta eins almennrar andstöðu. Ég hugsa að það láti nærri að vera þjóðarsamstaða gegn þessari framkvæmd en samt líka allgóð samstaða um að bæta þurfi samgöngur á utanverðum Tröllaskaga.

Svo merkilegt sem það nú er þá hefur það aldrei verið almennilega rætt á Alþingi. Það hefur einhvern veginn flotið í gegn lítið rætt , ríkisstjórnin lagt til að gera göngin og síðan hefur verið lagst á efasemdarmennina til að koma í veg fyrir að þeir færu að tala opinberlega gegn málinu. Það er óhjákvæmilegt að fara nákvæmlega í gegnum þetta mál núna lið fyrir lið, þegar samgönguáætlunin er til endurskoðunar á Alþingi. Fara yfir rökin með og á móti Héðinsfjarðargöngum og öðrum kostum sem eru til að bæta samgöngur á utanverðum Tröllaskaga.

Kostnaðurinn við Héðinsfjarðargöngin er á bilinu 7 – 9 milljarðar króna. Það er mikið fé þegar horft er til þess að til framkvæmda á landinu öllu á þessu ári er um 6 milljarðar króna . Síðan mun bætast við að tvöfalda þarf Múlagöngin í kjölfarið vegna aukinnar umferðar. Kostnaður við það er óviss, en ég áætla að það geti verið um 1 milljarður króna. Svo Héðinsfjarðarlausnin er í raun 8 – 10 milljarðar króna.

Síðan má bæta við göng frá Siglufirði í Fljót, þar sem núverandi vegur til Siglufjarðar er að mínu mati það ótryggur að gera verður ráð fyrir göngum. Þau gætu kostað um 2,5 – 3 milljarða króna. Samtals er á kostnaður við lausn á samgöngum Siglfirðinga og að nokkru leyti Ólafsfirðinga, þá 10,5 – 13 milljarðar króna.

Ég tel að annar kostur sé mun vænlegri, hann er miklu ódýrari og gefur góða lausn fyrir svæðið. Það er göng frá Siglufirði í Fljót og svo að endurbyggja veginn um Lágheiði. Það gæti kostað samanlagt 3,5 – 4 milljarða króna. Munurinn er 7 – 9 milljarðar króna eða nákvæmlega kostnaðurinn við Héðinsfjarðargöng. Minna má nú gagn gera.

Vegagerðin telur að endurbyggður vegur um Lágheiði geti verið opinn nánast allt árið og það er athyglisvert, að arðsemisútreikningar leiddu í ljós að meiri arðsemi var af endurbyggingu Lágheiði en Héðinsfjarðargöngum, þannig að ef styðjast á við arðsemismat þá verður Lágheiði fyrir valinu. Vegagerðin gerir hins vegar fyrirvara við nákvæmni í útreikningunum svo því sé til skila haldið, en þeir fyrirvarar eiga við mat á Héðinsfjarðargöngin eins og aðra valkosti.

Héðinsfjarðargöngin gagnast Skagfirðingum ekkert, Siglfirðingum mikið,Ólafsfirðingum talsvert en öðrum minna. Endurbygging Lágheiði gagnast Skagfirðingum, Fljótamönnum og Ólafsfirðingum umtalsvert, Siglfirðingum allnokkuð og öðrum væntanleg minna, en þó eru áhrif Lágheiðarinnar sem vegtengingar milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar augljóslega meiri en áhrif Héðinsfjarðarganga. Þetta er líklega skýringin á því að arðsemin er meiri af því að endurbyggja Lágheiðina en að gera Héðinsfjarðargöng. Við þetta bætast svo áhrifin af göngum frá Siglufirði í Fljót. Svo það er ekki spurning í mínum huga hvaða kost á að velja, þann ódýrari og betri.

Það hefur nefninlega þau áhrif, þegar eytt er miklum peningum í eitt verkefni, að önnur þörf verða að bíða. Aðrir landsmenn verða að líða fyrir það. Fyrir mismuninn á þessum tveimur kostum er hægt á næstu 3 árum leysa önnur stór vandamál. T.d. bæði göng undir Oddsskarð og milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar með endurbyggingu vegar um Dynjandisheiði og eiga afgang samt. Eða önnur af þessum göngum og setja mikla peninga í Sundabraut og breikkun Hellisheiðar svo tvö dæmi séu nefnd.

Það verður að horfa á heildarmyndina og hagsmuni allra landsmanna. Ef of langt er gengið í sérlausnum fyrir fáa, verður ekki við það unað, jafnvel þótt að menn hafi ákveðið þau fyrir mörgum árum . Vondar hugmyndir batna ekki með aldrinum.

Afstaða mín til Héðinsfjarðarleiðarinnar hefur legið fyrir í mörg ár, hún hefur komið fram í þingflokknum og á kjördæmisþingum Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Síðast á kjördæmisþinginu í Borgarnesi í nóvember síðastliðnum í ræðu sem ég flutti að viðstöddum fjölmörgum fjölmiðlum. Ég tel að það verði ekki lengur undan því vikist að ræða málið í þaula, út frá öllum hliðum og stefna að því að ná skynsamlegri niðurstöðu. Það er nú einu sinni hlutverk okkar alþingismanna.

Athugasemdir