Sameining þingflokkanna – hvað svo?

Greinar
Share

Sameining þinglokka Alþýðuflokksins og Þjóðvaka var að mörgu leyti fyrirsjáanleg. Fylgi Þjóðvaka nánast hvarf skömmu eftir alþingiskosningar og ekki hefur tekist að vinna það aftur. Það er einfaldlega yfirlýsing frá kjósendum um að flokkurinn hafi ekki hlutverki að gegna í flokkakerfinu. Fyrir forystumenn Þjóðvaka var því ekkert annað að gera en að finna sér annan stað í stjórnmálum og það lá beinast við að þiggja skjól frá Alþýðuflokknum. Fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur eru það efalaust þung spor, eftir það sem á undan hefur gengið og vandalaust er að skemmta sér yfir óförum hennar. En hún beygir sig fyrir staðreyndum og tekur ákvörðun út frá því. Á það má benda að stjórnmálamaður sem viðurkennir staðreyndir og tekur ákvörðun í samræmi við þær er líklegri til að ná árangri í starfi sínu en sá sem stöðugt hleypur á vegginn. Spurningar sem vakna eru hver verða áhrifin af sameiningu þinglokkanna á samstarf flokkanna í stjórnarandstöðu, hver verða áhrifin á flokkaskipanina eða verða yfirhöfuð einhver áhrif. Þar sýnist sitt hverjum, en ég reifa hér mín sjónarmið.

Áhrifin á samstarf stjórnarandstöðunnar.
Fram hefur komið sú skoðun að sameining þingflokkanna gæti spillt samstarfinu milli stjórnarandstöðunnar af tveimur ástæðum, annars vegar með því að hinn nýi þingflokkur neytti afls í kjöri þingnefnda og gengi á hlut hinna stjórnarandstöðuflokkanna og hins vegar með því að nýi þingflokkurinn ætlaði sér að veiða menn til liðs við sig frá hinum flokkunum og hefði ráðið Einar Karl Haraldsson til þeirra verka. Forystumenn hins nýja þingflokks hafa allir lagt áherslu á gott samstarf við hina flokkana í stjórnarandstöðu og að hlutverk Einars Karls sé að skipuleggja fundaherferð og koma á umræðum milli manna og flokka hafi ég skilið skýringarnar rétt. Það er engin ástæða til þess að ætla mönnum annað en þeir segja sjálfir, að minnsta kosti þangað til annað kemur í ljós. Forystumenn nýja þingflokksins munu með verkum sínum á næstu vikum sanna eða afsanna orð sín. Við skulum ekki nú móta viðbrögð okkar af því sem GÆTI verið heldur því sem ER.

Varðandi skipan í þingnefndir er rétt að benda á að um það tókst ágætt samkomulag milli þingflokkana fjögurra og ef það er skoðað út frá þingflokki jafnaðarmanna annars vegar og þingflokkum Kvennalista og Alþýðubandalags samanlagt hins vegar þá hefur þingflokkur jafnaðarmanna alls 19 nefndarsæti en hinir tveir samtals 18 nefndarsæti, þrátt fyrir að þeir síðarnefndu hafi fleiri þingmenn eða 12 á móti 11. Ennfremur hefur þingflokkur jafnaðarmanna fleiri fulltrúa en hinir tveir þingflokkarnir til samans í 7 þingnefndum af 12 en í þeim þingnefndum hefur þingflokkur jafnaðarmanna 2 fulltrúa af 3 fulltrúum stjórnarandstöðunnar. Þessar staðreyndir segja einfaldlega að þingflokkur jafnaðarmanna hefur ríflega styrk sinn í þingnefndum og getur því ekki gengið á hlut hinna stjórnarandstöðuflokkanna með því að beita afli. Mér sýnist því með öllu ástæðulaust fyrir Alþýðubandalag og Kvennalista að óttast yfirgang á því sviði. Vissulega getur hinn nýi þingflokkur óskað eftir breytingum en breyting í einni þingnefnd þeim í haga þýðir breytingu á annarri þingnefnd hinum til hagsbóta og breytingar verða ekki gerðar nema með samkomulagi allra aðila. Skýringin á þessari stöðu er sú að Alþýðubandalagið sótti ekki nefndarsæti til samræmis við styrk sinn þegar stjórnarandstöðuflokkarnir sömu á sínum tíma. Það var gert til þess að mæta eindregnum óskum Þjóðvaka sem fékk í raun meira en styrkur hans stóð til.

Landslagið í stjórnmálum.

Forvitnilegra er að velta fyrir sér hvaða áhrif myndun þingflokks jafnaðarmanna hefur á landslagið í stjórnmálunum. Hin augljósu áhrif eru að flokkunum fækkar því í raun er Þjóðvaki lagður niður. Þá verður Kvennalistinn að treysta meir en áður á samstarf við Alþýðubandalagið jafnframt því að innan Kvennalistans vakna efasemdir um að rétt sé að halda úti þingflokki sem er aðeins þriðjungur af næstminnsta þingflokknum og hefur þar að auki um þessar mundir fylgi fyrir einungis helmingnum af þessum þriðjung. Að öllu samanlögðu mun flokkakerfið líkjast æ meir gamla fjórflokkakerfinu. Ef ekkert annað gerist verður niðurstaðan að gamli fjórflokkurinn styrkir sig í sessi. Það marka ég af því að samanlagt fylgi annarra flokka en fjórflokksins er um þessar mundir hverfandi og myndi hugsanlega skila 2 þingmönnum. Í síðustu fernu alþingiskosningum hafa aðrir flokkar en gamli fjárflokkurinn fengi 5 þingmenn (1991), 7 þingmenn (1983 og 1995) og 13 þingmenn (1987) og verður að fara aftur til alþingiskosninganna 1978 og 1979 til að finna slakari útkomu annarra flokka.

Það þarf ekki að vera slæm þróun fyrir A-flokkana að fjórflokkakerfið styrkist. Í kosningunum 1979 fengu þeir samtals 21 þingmann en í fyrra ekki nema 16 og hafð þó þingmönnum verið fjölgað um 3. Stjórnarandstaðan öll hefur nú ekki nema 23 þingmenn sem er nánast sami hlutur og A-flokkarnir tveir höfðu árið 1979. Af þessu má draga þá ályktun að fleiri flokkar á vinstri væng stjórnmálanna eykur ekki hlut þeirra heldur dreifir kröftunum. Einnig sýnist mér að orða megi ályktunina þannig: færri flokkar skila að minnsta kosti jafngóðum árangri og fleiri flokkar. Þetta þýðir að fjórflokkakerfi er líklega betra en sexflokka kerfi. Þá kemur spurningin: getum við náð betri árangri ef A-flokkarnir koma fram sem ein heild eða sem samherjar? Sagan bendir til þess að þess megi vænta og að minnsta kosti í orði kveðnu stendur vilji forystumanna beggja flokka til þess. Á næstu mánuðum ræðst hvort af því verður. Þrennt mun skipta miklu máli um það: í fyrsta lagi hvernig forystumenn þingflokks jafnaðarmanna nálgast Alþýðubandalagið, í öðru lagi viðbrögð Alþýðubandalagsins og loks það sem mestu máli skipti og ræður að verulegu leyti um hin tvö atriðin hver er vilji kjósenda?

Það er gömul saga og ný að flokkar verða ekki sameinaðir gegn vilja flokksmanna og hitt að flokkum verður ekki haldið aðskildum gegn vilja kjósenda.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Alþýðubandalagsins.

Alþýðublaðið 10. september 1996.

Athugasemdir