Til varnar Vikublaðinu og samþykktum Alþýðubandalagsins.

Greinar
Share

Er Mörður Árnason í allt öðru Alþýðubandalagi?

Í Vikublaði því sem kom út 25. júlí er mikil grein eftir Mörð Árnason. Hún er rituð af því tilefni að honum líkar hvorki við umfjöllun Vikublaðsins um síðasta miðstjórnarfund né málflutning þeirra þingmanna sem töluðu fyrir rétti byggðarlaga til fiskveiða og vildu auk þess bann við framsali kvóta. Er ekki nema gott eitt um það að segja að menn tali fyrir sjónarmiðum sínum og bara eðlilegt að skoðanir séu skiptar í svo stóru máli sem stjórn fiskveiða.

Við hátíðlega tækifæri er stundum sagt að það sé til marks um lifandi flokk ef þar fer fram lýðræðisleg umræða um mál með snörpum skoðanaskiptum og þykir bara gott. En gallinn við greina Marðar er sá að hann fjallar minnst um eigin sjónarmið heldur tekur að sé að endurskrifa frásögn Vikublaðsins af fundinum svo og að túlka sjónarmið annarra. Útgáfan verður svo einhvers konar draumsýn hans sem lýkur með því að senda Vikublaðinu þau skilaboð að það eigi að mæla þarft eða þegja, þ.e. blaðið á að skrifa söguna eins og Mörður Árnason vill hafa hana eða þega ella.

Það er ekki laust við að ég hafi hrokkið við, þegar ég las þennan boðskap. Hélt satt að segja að fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans hefði annað fram að færa, og líka í ljósi þess að hann er félagi í Birtingu sem er eins og menn vita félaga þeirra sem eru alveg sérstaklega lýðræðissinnaðir nútímajafnaðarmenn og slíkir sómamenn hafa ekki verið mikið gefnir fyrir flokksræði eða Prövdublaðamennsku. Ég segi nú eins og Jón Sigurðsson fyrrverandi ráðherra, aðspurður um það hvort rétt væri að Alþýðuflokkurinn „ætti“ tiltekna stöðu í ónefndri opinberri stofnun: „Ég vísa því á bug sem fráleitum sjónarmiðum.“

Hver er stefna Alþýðubandalagsins?

Að loknum lestri Marðarmála er mér ljóst að líklega er ég færari um að skýra afstöðu mína en höfundur þeirra. Allmikið vantar þar upp á að komið sé til skila samþykktum Alþýðubandalagsins og reynar látið eins og þær séu ekki til.

Fyrsta athugasemdin er greinilega á þeim meginsjónarmiðum sem uppi hafa verið í Alþýðubandalaginu um stjórn fiskveiða. Samkvæmt frásögn Marðar er hún svona:

1. Þeir sem styðja núverandi kerfi sætta sig í raun við eignamyndunina í kerfinu, en vilja nokkrar minniháttar breytingar.
2. Þeir sem vilja veiðileyfagjald.
3. Þeir sem vilja sóknarstýringu.

Síðan telur Mörður að eftir Sauðárkróksfundinn þurfi að bæta við fjórða hópnum, þá sem vilja að rétturinn sé tengdur byggðarlögum. Það sé nýtt sjónarmið innan flokksins. Hér verður að gera alvarlega athugasemd við söguskýringu ritstjórans fyrrverandi. Ef það er virkilega svo að Mörður hefur ekki heyrt þessi sjónarmið áður innan Alþýðubandalagsins er kominn tími til þess að kippa honum inn í veruleikann úr draumaveröld sinni.

Byggðakvóti – Landsfundur 1989.

Byrjum fyrst á því að upplýsa að Alþýðubandalagið hefur markað skýra stefnu um stjórn fiskveiða. Það var gert á fundi miðstjórnar 5. desember 1987 og sú stefna var síðan staðfest á Landsfundi 1989 með breytingum. Meginatriði þeirrar stefnu er svonefndur byggðakvóti, sem er útfærður þannig að 2/3 hlutum veiðiheimilda er útrhlutað til byggðarlaga n 1/3 til skipa. Við sölu á skipi úr byggðarlagi fylgir einungis útgerðarhlutinn skipinu, en ekki sá hluti sem fór til byggðarlagsins. Í umræddri samþykkt segir: „Með því að binda veiðiheimildir að verulegu leyti við byggðarlög er verið að tryggja hag starfsfólks í fiskiðnaði, fiskvinnslustöðva og allra íbúa þeirra byggðarlaga sem byggja afkomu sína á öruggri og skipulagðri nýtingu sjávarafla. Óeðlilegt verð á fiskiskipum og brask í tengslum við skipa- og kvótasölu ætti að mestur að hverfa úr sögunni.“ Í lokaorðum samþykktarinnar segir: „Til að tryggja búsetu um allt land og eðlilega byggðaþróun verði þess gætt við stjórn fiskveiða:
– að hvert svæði njóti aðstöðu vegna nálægðar við fiskimið
– að núverandi útgerð og fiskvinnslu verði tryggður réttur á heimaslóð.“
Að öðru leyti vísa ég til þessarar landsfundarsamþykktar frá 1989 mönnum til fróðleiks og glöggvunar.

Landsfundur 1991.

Aðra fiskveiðistefnu hefur Alþýðubandalagið ekki samþykkt né breytt þessari, svo hún er í fullu gildi sem stefna flokksins. Á síðasta landsfundi 1991 var ekki gerð sérstök ályktun eða samþykkt um fiskveiðistefnu, sem segir okkur að ekki hefur verið talin ástæða til þess að breyta um stefnu. Í samþykkt landsfundarins 1991 um sjávarútvegsmál segir; „tryggja verður að arðurinn af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar renni til íbúa byggðanna og landsmanna allra en ekki fáeinna útgerðarmanna. Stöðva verður þá eignarmyndun á óveiddum fiski sem þegar á sér stað í núverandi kerfi, þrátt fyrir sameignarákvæði laga um stjórn fiskveiða.“

Þetta er í fullkomnu samræmi við fiskveiðistefnu Alþýðubandalagsins frá 1989 og eðlilega komst landsfundurinn að því að núverandi fiskveiðistefna hefur brugðist í mikilvægum atriðum og þurfi endurskoðunar við. Reyndar hafa fleiri þeirra, sem búa við kvótakerfi, komist að svipaðri niðurstöðu. Nefnd á vegum Nordisk Fiskarlag hefur lagt til að kvótakerfið verð afnumið í Noregi. Þá hafa Portúgalir, sem eru rótgróin fiskveiðiþjóð, valið byggðakvóta sem stjórnkerfi.

Stalinísk söguskoðun?

Þá er það skýrt að fiskveiðistefna Alþýðubandalagsins er til og hvílir á þeim sjónarmiðum að hafna núverandi kerfi, hafna braski með óveiddan fisk og ennfremur því að tryggja skilyrðislaust rétt byggðarlaganna. Byggðatenging á fiskveiðiréttindum er því ekki nýtt sjónarmið sem kom fram á fundi miðstjórnar á Sauðárkróki heldur grundvallaratriði í stefnu Alþýðubandalagsins. Það er líka rangt sem Mörður heldur fram að eitt af þremur meginsjónarmiðum innan flokksins hafi verið núverandi kerfi með minni háttar breytingum. Það má vel vera rétt að einhverjir flokksmenn hafi verið þeirrar skoðunar og séu það jafnvel enn að núverandi kerfi sé það sem eigi að vera, en fráleitt r að þau sjónarmið hafi verið öflug. Um það bera vitni samþykktir landsfundanna 1989 og 1991 sem hafna grundvallaratriðum kvótakerfisins. Til viðbótar má nefna tillöguflutning þingmanna Alþýðubandalagsins þegar árið 1983 um að aflakvótar verið ekki framseljanlegir og yfirlýsingu þingflokksformanns Alþýðubandalagsins um að hann hafi aldrei greitt kvótakerfinu atkvæði sitt, ekki einu sinni 1990 þegar flokkurinn var í stjórn og stóð að lagasetningunni.

Söguskýring Marðar er þar af leiðandi röng í meginatriðum um afstöðu manna í flokknum, bæði varðandi stuðning við núverandi kerfi og um meintan skort á stuðningi við byggðatengingu fiskveiðiréttindanna. Skrif af þessu tagi minna einna helst á tilraunir löggiltra söguskíbenta kommúnistaforingja austantjaldsríkjanna til þess að umskrifa söguna, laga fortíðina að því sem best hentar hrokagikkum valdsins í pólitískri glímu í núinu. Þótt ég viðurkenni að fullu rétt Marðar Árnasonar til þess að hafa sína skoðun á stjórn fiskveiða, halda henni fram innan flokksins og afla stuðnings, en svo lýsti Mörður skoðun sinni að byggðakvóti hentaði ekki og gengi ekki upp og að framsal veiðiheimilda væri undirstaða þess að atvinnugreinin gæti þróast, þá er það ekki við hæfi í sögulegri úttekt að fela stefnu flokksins og þau sjónarmið sem hún hvílir á.

Greinargerð flokksformanns í maí 1988.

En það er rétt að draga fram fleiri gögn til staðfestingar á áherslum Alþýðubandalagsins fram til þessa. Í maímánuði 1988 lagði formaður Alþýðubandalagsins fram greinargerð um efnahagsmál á fundi miðstjórnar. Þar segir um stjórn fiskveiða: „Stjórnun fiskveiða verði breytt á þann veg að í stað veiðikvóta sem bundinn er við einstök skip verði komið á nýju kerfi byggðakvóta þar sem atvinnuhagsmunum landshlutanna og sameign fólksins á auðævum hafsins eru lögð til grundvallar.“ Þessi nýju kerfi byggðakvóta er lýst svo í greinargerðinni: „Til að stuðla að hagkvæmri nýtingu fjárfestinga og fiskimiða og tryggja að arðurinn fari til uppbyggingar í heimahéruðum verði í áföngum komið á útboðskerfi á hluta af þeim veiðileyfum sem eru til ráðstöfunar innan hvers byggðasvæðis.“ Ennfremur: „Ráðstöfun teknanna sem útboðskerfið skapaði yri í höndum sveitarstjórna og samtaka heimamanna. Á þann hátt yrði til nýr tekjugrundvöllur sem heimamenn gætu sjálfir ráðstafað til byggðaþróunar.“ Hér er nú aldeilis kveðið skýrt á um byggðakvóta og að byggðirnar séu raunverulegur eigandi kvótans. Greinargerðin var birt í heild sinni í Þjóðviljanum 10. maí 1988. Einn af þremur ritstjórum þá samkvæmt upplýsingum í blaðhaus var Mörður Árnason.

1990 – fyrstu skref til byggðakvóta.

Eins og áður er fram komið stóð Alþýðubandalagið að því að samþykkja síðustu lög um stjórn fiskveiða árið 1990, lög sem hlutu þann dóm á landfundinum 1991 að „stöðva verður þá eignarmyndun á óveiddum fiski, sem þegar á sér stað í núverandi kerfi, þrátt fyrir sameignarákvæði laga um stjórn fiskveiða.“

Í heilsíðuviðtali við formann flokksins sem birtist í Þjóðviljanum 1. maí 1990, rekur hann samkomulag sem tekist hafði um stjórn fiskveiða og var lögfest fjórum dögum síðar. Þar kemur fram að komið hafi verið verulega til móts við sjónarmið Alþýðubandalagsins, einkum í tveimur atriðum. Það fyrra var að úthlutun veiðiheimilda myndaði ekki stofn að eignarrétti og það síðara byggðakvótinn. Í viðtalinu segir formaður Alþýðubandalagsins: „Annað höfuðatriði sem við höfum lagt mikla áherslu á á undanförnum árum, er að réttur byggðarlaganna væri viðurkenndur í stjórn fiskveiða. Þetta hefur stundum verið nefnt byggðakvóti sem er í reynd merkimiði en ekki sjálft inntakið. Inntakið hefur fyrst og fremst verið það, að skipulag veiðanna sé ekki á þann veg, að útgerðaraðilar geti kippt grundvellinum undan atvinnunni í byggðinni með því að selja skipin brott. Það verður að tryggja að fólkið í byggðarlögunum, sem hefur byggt líf sitt á því að þar er stundaður sjávarútvegur, geti haldið áfram að stunda þann atvinnuveg þótt útgerðaraðili ákveði að selja skip. Til þess að ná þessu markmiði þróuðum við fyrir nokkrum árum hugmynd um það að ákveðið hlutfall kvótans yrði eftir í byggðarlögunum ef að skipið yrði selt. “

Síðar rekur formaður Alþýðubandalagsins að samstarfsaðilar í ríkisstjórn hafi ekki verið tilbúnir að samþykkja þá útfærslu á byggðakvótanum, sem við mótuðum og segir svo: „En það merkilega var að við náðum fram ýmsum breytingum, sem fela í sér grundvallarviðurkenningu á rétti byggðarlaganna við stjórn fiskveiða og stigin eru nokkur fyrstu skref til þess að festa þennan byggðakvóta í sessi.“

Tillaga Marðar Árnasonar.

Loks vil ég vitna til ályktunartillögu um sjávarútvegsmál sem lögð var fram á síðasta landsfundi Ab. haustið 1991. Þar var lagt til ályktað yrði að „kvótakerfið verði að endurbæta þannig að eigendurnir, fólkið í landinu, leigi út réttinn til fiskveiða. Alþýðubandalagið stefnir að því að koma á slíkri kvótaleigu í áföngum á um það bil áratug.“ Í tillögunni stendur einnig: „Landsfundurinn telur að við útfærslu á kvótaleigukerfi þurfi að ganga svo frá að virtur verði réttur einstakra byggða og landshluta til hlutdeildar í fiskveiðum. “

Hér er heldur betur tekið undir byggðaréttinn og raunar líka landshlutarétt. Hvort tveggja sjónarmið sem ég hélt fram á miðstjórnarfundinum á Sauðárkróki við litla hrifningu Marðar Árnasonar og fleiri framsækinna jafnaðarmanna. Það merkilega við þessa ályktunartillögu er að fyrsti flutningsmaður hennar heitir Mörður Árnason.

Stefnan í stuttu máli.

Samandregin er niðurstaðan þessi: Alþýðubandalagið vill að fiskistofnarnir séu í reynd sameign allra landsmanna og telur að núverandi löggjöf tryggi það ekki vegna eignamyndunar á óveiddum fiski sem á sér stað í skjóli frjálsa framsalsins. Alþýðubandalagið vill einnig tryggja hagsmuni byggðarlaganna og þá þannig að tengja saman búsetuna og nýtingarréttinn. Bæði stefnuatriðin, sameignarskilyrðið og byggðasjónarmiðið, leiða til þess að Alþýðubandalagið hefur hafnað frjálsu framsali kvóta. Það er alveg skýrt í fiskveiðistefnu flokksins. Byggðakvóti og frjálst framsal eru andstæður, þótt hvort tveggja sé innan kerfis kvótaúthlutunar. Flokkur sem tekur upp byggðakvótastefnu hafnar um leið frjálsu framsali. Það sem að framan hefur verið rakið staðfestir kyrfilega þessa úttekt á samþykktum flokksins.

Banntillagan rökstudd – enga sleikipinnapólitík.

Þróun síðustu tveggja ára er þannig er eignamyndun á sér stað hröðum skrefum á óveiddum fiski og hitt líka að í hverju byggðarlaginu á fætur öðru situr fólk uppi með þá nöpru staðreynd, eða á hana yfir höfði sér, að sjálfur tilverugrundvöllur byggðarlagsins er horfinn. Það gerist ekki vegna þess að fiskimiðin hafi færst úr stað eða þornað upp heldur vegna þess að rétturinn til sjósóknar er burtseldur.

Þessu þarf að bregðast skjótt við og tillagan sem lögð var fyrir miðstjórnarfundinn um bann við framsali á kvóta næstu árin var rökrétt, telur á vandamálinu og er í fullu samræmi við stefnu flokksins. Auðvitað er það frysting á tilteknu ástandi í meginatriðum með öllu sínu réttlæti og ranglæti, en það afstýrir stórauknu ranglæti sem annars myndi verða. Það eru ekki rök gegn frystingu að í núverandi ástandi sé að finna ýmislegt ranglætið. Það ranglæti verður ekki bætt í núverandi kerfi og þeir sem fyrir ranglætinu hafa orðið verða engu bættari þótt fleiri bætist í þann hóp sem ranglætið brennur á.

Banntillagan er af þessu augljóslega engin fixídea heldur viðbrögð við tilteknu ástandi og fyrirsjáanlegri þróun. Og vel að merkja; engin önnur tillaga kom fram á fundinum sem nær markmiðum frystingar. Ég heyrði ekki betur en að sjálfur Mörður viðurkenndi vandamálið en hver voru úrræði hans? Jú, grípa til sértækra aðgerða. Ég spyr hvaða andskotans sértækra ráðstafna? Eiga einhverjir Davíðar Oddssynir eða Ólafar Ragnarar að gauka að fólki í byggðarlagi af náð sinni og mildi einhverjum milljónum króna, rétt eins og barni er gefinn sleikipinni svo það hætti að gráta, til þess að kaupa kvóta í stað þess sem tapaðist af því að einhver Bör Börson fór á hausinn og annar Börson í öðrum landsfjórðungi keypti lífsviðurværi fólksins?

Svona sleikipinnapólitík þýðir ekki að bera á borð fyrir nokkrun ærlegan mann, nema þá helst blýantsnagara í Seðlabankanum. Ef eitthvað er fix þá er það svona málflutningu, að lýsa yfir stuðningi við kerfi sem sviptir fólki lífsbjörginni og þá er bjargráðið fólgið í náð og miskunn ráðherravaldsins á hverjum tíma. Í gamla dag voru þeir kallaðir kommúnistar sem hugsuðu á þennan veg og eru í þúsund ljósára fjarlægð frá framsæknum nútímajafnaðarmönnum.

Af hverju tillaga Kristins H. Gunnarssonar.

Þá kemur að því að útskýra hvers vegna ég taldi nauðsynlegt að flytja sérstaka tillögu. Ástæðan er einföld. Þegar búið var að bræða saman nýja tillögu sem andstæðingar framsalsbanns og talsmenn frjáls framsals gátu sætt sig við var hún þannig í fáum orðum: Núverandi kerfi á stjórn fiskveiða er ómögulegt, frjálst framsal skapar einhver vandamál, þess vegna þarf að endurskoða stjórn fiskveiða. Punktur. Ekkert um það hvernig fiskveiðistefnu flokkurinn vildi hafa og eftir að hafa lesið textann er ég engu nær um það atriði það eru sem skapa vandamál í frjálsu framsali.

Nú hefði mátt segja sem svo að það sé óþarft að tilgreina hvaða fiskveiðistefnu flokkurinn vill hafa, hún liggi fyrir og þar með hver séu áhersluatriði flokksins. En eftir málflutning andmælenda upphaflegu tillögunnar um bann við framsali er það heiðskýrt að þeir hinir sömu, Mörður, Ólafur Ragnar og fleiri, voru að hafna stefnu flokksins og þeim sjónarmiðum sem hún hvílir á. Mörður hafnaði byggðakvóta og taldi frjálst framsal undirstöðu þróunar í greininni.

Ólafur Ragnar lýsti því yfir að það væri ekki trúverðug stefna sem sægreifarnir skrifuðu ekki upp á og að hann skildi ekki hvað menn ættu við með banni við framsali veiðiheimilda. Nú skilja flestir fyrr en skellur í tönnum. Það er búið að opna ágreining um grundvallaratriði í fiskveiðistefnu Alþýðubandalagsins. Því þótt mér óhjákvæmilegt að bæta við bræðingstillöguna ákvæðum sem tækju af allan vafa um það hvert menn vildu stefna með endurskoðun fiskveiðistefnunnar sem við búum við.

Í fyrsta lagi að fiskistofnarnir verði í raun sameign þjóðarinnar og að viðurkenndur sé réttur byggðarlaganna til að nýta þá. Í öðru lagi að réttur til fiskveiða, hvort sem hann er í formi aflakvóta eða veiðileyfa, sé aðeins til afnota fyrir viðkomandi útgerð til eigin nota, þ.e. að ekki verði hægt að framselja réttinn. Það er ólíkt betra að endurskoða stefnu ef menn vita á hvaða grundvelli hin endurskoðaða stefna á að hvíla. Tillaga mín segir það og er reyndar byggð á þeim atriðum sem sjálfur formaður flokksins hefur margsagt að væru hornsteinar í stefnu flokksins. Samt fellir Mörður þann dóm yfir henni að hún sé enn vitlausari en banntillagan.

Ég held ekki að tillagan sé vitlaus, ekki heldur að stefna flokksins sé vitlaus, en hitt getur vel verið að Mörður sé i vitlausum flokki. Og ég hefði haft gaman af því að sjá miðstjórnina vísa tillögu minni frá eins og formaður flokksins lagði til og svara svo þeirri spurningu hvaða stefnu flokkurinn hafi. Enda fór það svo eins og mig grunaði að það var ekki hægt og ekki stuðningur við það. Það er nefnilega engin þörf á öðrum Framsóknarflokki í þessu máli. Þeir eru nægir fyrir. Það er offramboð af framsóknarstefnu í stjórn fiskveiða en átakanlega mikil eftirspurn eftir stefnu með hagsmuni almennings að leiðarljósi.

Hvað þýðir veiðileyfagjald eða kvótaleiga?

Á miðstjórnarfundinum lýsti Mörður sig í raun andsnúinn niðurstöðu flokksins fram til þessa. Sagði að byggðakvóti hentaði ekki og gengi ekki upp. Frjálst framsal væri undirstaða þess að greinin gæti þróast. Nú þarf Mörður að skýra sín sjónarmið betur, því hvernig á að virða rétt einstakra byggða og landshluta í frjálsu framsali, samanber ályktunartillögu hans sjálfs? Og ef frjálst framsal er undirstaða þróunar í sjávarútvegi – hvernig ætlar Mörður þá að útfæra veiðileyfagjaldið eða kvótaleiguna sem hann vill taka upp? Ég sé ekki annað en veiðileyfið í kerfi Marðar eigi að vera framseljanlegt og til langs tíma og þá er byggðasjónarmiðunum hent fyrir borð.

Hvernig á þá að koma í veg fyrir samþjöppun veiðiheimilda og í raun eignamyndun á óveiddum fiski? Það er nefnilega þannig að þegar farið er að velta fyrir sér hugmyndum um veiðileyfagjald þá hrannast spurningarnar upp. Því ef eitthvað er óskýrt af hugmyndum um stjórn fiskveiða þá er það þessi.

Kratarnir, sem eru útímajafnaðarmenn eins og Mörður, hafa verið að velkjast með þessar hugmyndir í kjöltu sinni undanfarin ár og geta ekki talað skýrt. Á síðasta flokksþingi þeirra tala þeir um aflagjald fyrir veiðiréttinn sem renni til almannaþarfa, en þeir séu reiðubúnir til þess að ræða ýmis konar fyrirkomulag slíks gjalds og valkosti um ráðstöfun þess. Í kosningastefnuskrá þeirra fyrir síðustu Alþingiskosningar er svo vandræðalegur kafli um það að fella þurfi gengið á móti gjaldinu og því sé rétt að taka gjaldið upp á svo sem tíu árum.

Fyrsta spurningin er : Hvernig á þetta gjald að stjórna sókninni í fiskistofnana eða á það yfir höfuð eitthvað skylt við stjórn fiskveiða? Næsta spurning: Hverjum á að úthluta veiðileyfi og hvernig, á að vera uppboð eða eru einhverjir sem ekki fá að bjóða í? Þriðja spurning: Hverju ætla menn að úthluta, kvóta eða sókn? Fjórða spurning: Á veiðileyfið að vera framseljanlegt og til hversu langs tíma þá? Fimmta spurning: Eiga einhver byggðasjónarmið að ráða og þá hver? Sjötta spurning: Á að fella gengið og ef ekki; hver á að borga leigugjaldið, sjómenn með lægra fiskverði, landverkafólk með lægri launum? Sjöunda spurning: Hver á að fá leigugjaldið, ríkið, sveitarfélögin? Áttunda spurning: Hvernig á veiðileyfagjald að stuðla að minnkun fiskiskipaflotans? Nú er rétt að Mörður og aðrir veiðileyfagjaldsmenn útskýri hugmyndir sínar, því eins og er hljóma þær eins og hver önnur fixídea.

Að lokum. Ræðumenn nokkrir þar á meðal Smári Haraldsson bæjarstjóri á Ísafirði, bentu á að með frjálsu framsali væri ekki hægt að halda útlendingum og erlendu fjármagni utan við sjávarútveginn. Eftir nokkra mánuði er ráðgert að EES taki gildi og verður eftir það fremur fátt um varnir fyrir yfirskuldsettan íslenskan sjávarútveg. Getur það verið tilviljun að þeir sem töluðu nú fyrir frjálsu framsali vildu á sínum tíma að Alþýðubandalagið samþykkti EES.

Höfundur er þingmaður Alþýðubandalagsins fyrir Vestfjarðakjördæmi.

Vikublaðið 9. júlí 1993

Athugasemdir