Á síðastliðnu sumri gerði nýkjörið Alþingi breytingar á stjórnarskránni sem færa þingsæti frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Sett voru ákvæði um að misvægi atkvæði skyldi ekki verða meira en 1:2 og landskjörstjórn veitt vald til að færa til þingsæti milli kjördæma í framtíðinni ef misvægið fer yfir þessi mörk, samkvæmt nánari fyrirmælum sem sett verða í lög. Líklega færast strax til 6 þingsæti, þar af eru 5 af norðvestur hluta landsins. Eftir á hins vegar að setja í lög ákvæði um skiptingu landsins í kjördæmi og skiptingu þingsæta milli þeirra, stjórnarskrárákvæðin nýju setja þó skorður, kjördæmin skulu vera 6 eða 7 og eigi færri en 6 þingsæti í hverju. Fyrir liggur tillaga sem kynnt var á síðastliðnu vori um 6 kjördæmi, þar sem Vesturland, Vestfirðir og Norðurland vestra renna í eitt kjördæmi með 10 þingsæti, Norðurland eystra og Austurland með 10 þingsæti, Suðurland og Suðurnes einnig með 10 þingsæti. Síðan Reykjavík tvö kjördæmi með 11 þingsæti hvort og Reykjaneskjördæmið að frádregnum Suðunesjum með 11 þingsæti.
Nýlega tók til starfa nefnd skipuð fulltrúum þingflokka sem gera á tillögu um kjördæmaskiptingu og leggja fram frumvarp að nýjum kosningalögum. Þar liggur auðvitað vortillagan fyrir og áhugi fyrir að hún nái fram að ganga. Gert er ráð fyrir að nefndin skili tillögum sínum í janúar næstkomandi.
Ég hef lýst öðrum tillögum sem ég tel betri og hef fengið við þær góðar undirtektir bæði á Norðurlandi og Vestfjörðum að því leyti sem þær snúa að þessum landssvæðum. Vilji menn styðja við þær er nauðsynlegt að sá stuðningur komi sem fyrst fram og berist til nefndarmanna.
Landsbyggðin veikist óhjákvæmilega við það að þingsætum þar fækkar að minnsta kosti í þeim skilningi að áhrifin minnka á löggjafarsamkomunni og ekki síður innan framkvæmdavaldsins þar sem ráðherra munu í auknum mæli koma af höfuðborgarsvæðinu. Við þessi tímamót er rétt að huga að leiðum sem styrkja kunna landsbyggðina til mótvægis við hinar breytingarnar. Þar sýnist mér helst að mynda landsbyggðarkjördæmi sem verður það fjölmennasta utan Reykjavíkur og slíkt kjördæmi hlýtur að nýta Akureyri og Norðurland. Þannig verður til hugmyndin um sameiningu Norðurlands vestra og eystra svo og Vestfjarða og hluta af Vesturlandi. Ef miðað er við að Snæfellsnes fylgi Norðurlandi þá verður þetta kjördæmi með um 34.500 kjósendur og aðeins Reykjavíkurkjördæmin tvö með 39.500 kjósendur verða fjölmennari. Þetta verður landsbyggðarkjördæmi sem er jafnoki Reykjavíkurkjördæmanna. Styrkur Akureyrar er nýttur til þess að vera í fyrirsvari fyrir kjördæmið allt en ekki bara fyrir sjálft sig.
Að öðru leyti hugsa ég að Austurland og Suðurland yrðu saman í einu kjördæmi með um 23.000 kjósendur. Reykjavík skiptist í tvö kjördæmi eins og áður er komið fram. Síðustu tvö kjördæmin er hægt að búa til með eilítið mismunandi hætti. Tveir möguleikar skulu nefndir: annars vegar Suðurnes, Hafnarfjörður, Garðabær og Bessastaðahreppur með 28.000 kjósendur og þá Kópavogur, Seltjarnarnes, Mosfellsbær, Kjós og Vesturland án Snæfellsness með um 30.000 kjósendur og hinn sem færir Kópavog suður fyrir og Suðurnes norður fyrir með Mosfellsbænum og Vesturlandi án Snæfellsness. Með þessu verða til tvö hrein landsbyggðarkjördæmi, tvö blönduð og tvö Reykjavíkurkjördæmi. Ég hef trú á því að styrkur landsbyggðarinnar verði meiri þannig og jafnframt meiri sátt um þessa útfærslu. Almenningur hefur til þessa verið afskiptur í málinu, en nú er tækifærið til þess að hafa áhrif.
Athugasemdir