Húshitunarkostnaður lækkar – 17 mkr. til Skjólskóga

Greinar
Share

Fjárlög ársins 2000:

Húshitunarkostnaður lækkar – 17 mkr. til Skjólskóga

Fjárlög ríkisins fyrir næsta ár voru afgreidd á Alþingi fyrir skömmu. Gert er ráð fyrir tæplega 17 milljarða króna afgangi og hefur ekki í áratugi verið meiri. Með þessu er undirstrikuð stefna ríkisstjórnar um stöðugleika í efnahagslífinu, lága verðbólgu og vaxandi kaupmátt almennings. Meginbreytingarnar frá fyrra ári eru auknar fjárveitingar til fíkniefnamála og byggðamála. Eins og mönnum er eflaust í fersku minni lagði Framsóknarflokkurinn mikla áherslu á baráttu gegn fíkniefnum í síðustu kosningum og auknum fjárveitingum til þeirrar baráttu. Var miðað við að fjárveitingar myndu aukast um 250 mkr. árlega á kjörtímabilinu og yrðu orðnar um 1 milljarði króna hærri í lok kjörtímabilsins en í fárlögum yfirstandandi árs. Í nýsamþykktum fjárlögum er staðið að fullu við þau fyrirheit og reyndar gott betur, en fjárveitingarnar hafa aukist um liðlega 400 milljónir króna til forvarnarstarfa, nýrra meðferðarúrræða, löggæslu og tolleftirlit svo eitthvað sé nefnt.
Í öðru lagi er mikil áhersla á að styrkja landsbyggðina. Aukið er við fé til jöfnunar húshitunarkostnaðar um 160 mkr, úr 600 mkr. í 760 mkr. og framlög til jöfnunar námskostnaði aukast um þriðjung eða um 77 mkr. Eru þessar ákvarðanir í samræmi við tillögur nefndar allra þingflokka sem skilaði áliti fyrir síðustu kosningar, en þar var lagt til að taka í þremur áföngum veigamikla jöfnun á þessu sviði. Stuðst var við mat Byggðastofnunar á því hvað hækka þyrfti framlög til húshitunar. Er þá fyrsti áfanginn kominn til framkvæmda og hinir tveir koma væntanlega á næstu tveimur árum.
Þá var verulega aukið við framlög ríkisins til menntunar, einkum til þess að efla háskólamenntun á landsbyggðinni. En athuganir benda til þess að bætt menntun og þar með aukin hæfni vinnuafls sé besta tækið til þess að styrkja landsbyggðina.
Bruðist var við vanda sveitarfélaga á landsbyggðinni með því að verja 700 mkr. til þeirra. Þá er starfandi nefnd sem mun skila af sér tillögum síðar í vetur um tekjustofna sveitarfélaga og þar verður m.a. að finna tillögur um lækkun fasteignaskatta á landsbyggðinni og tekjur til sveitarfélaga til þess að mæta þeirri lækkun.
Varið verður 300 mkr. til eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni eins og á þessu ári. Sama er ráðgert á árinu 2001, þannig verða samtals 900 mkr. til eignarhaldsfélaganna sem þau munu verja til atvinnuuppbyggingar.
Af vestfirskum málefnum vil ég nefna að Skjólskógar fá 17 mkr. á næsta ári sem er vel það sem um var beðið og segja má að með þessu sé verkefnið, sem standa mun í mörg ár, komið á beinu brautina. Unnið verður samkvæmt áætlun í vegamálum og þar munu verða unnir góðir áfangar í vegalagningu. Lokið verður við framkvæmdir við heilsugæslustöðina og íbúðir aldraða á Þingeyri og hafnar framkvæmdir við viðbyggingu hjúkrunarheimilisins á Hólmavík. Gamli bærinn í Litlabæ við Skötufjörð verður varðveittur og lagfærður, en hann er liðlega aldar gamall og bæði íbúðarhús og steinhleðslur eru merkilegar heimildir hvor á sína vísu. Fleira væri vissulega ástæða til þess að nefna en hér verður látið staðar numið.
Ég vil að endingu færa lesendum Ísfirðings árnaðaróskir og óskir um gleðileg jól og komandi nýtt ár.

Athugasemdir