Loksins hillir undir framhald jarðgangaframkvæmda. Lögð hefur verið fram á Alþingi jarðgangaáætlun til næstu 4 ára þar sem kveðið er á um gerð 5 jarðganga og að framkvæmdir við tvenn göng hefjist innan skamms. Gerist þetta í kjölfar þess að þingmenn Framsóknarflokksins, undir forystu Magnúsar Stefánssonar, tóku málið upp undir lok síðasta kjörtímabils og fengu þá samþykkt að gerð skyldi langtímaáætlun. Vegagerð ríkisins hefur síðan skilað af sér skýrslu þar sem tíundaðir eru valkostir í jarðgöngum og mælt sérstaklega með þremur þeirra.
Jarðgangaáætlunin sem stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um kveður á um göng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar og að framkvæmdir við þau göng hefjist fljótlega að loknum nauðsynlegum viðbótarrannsóknum. Áætlað er að framkvæmdum verði lokið eigi seinna en árið 2007. Þá er kveðið á um þrenn önnur göng: Dýrafjörður/Arnarfjörður, ný göng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og milli Héraðs og Vopnafjarðar. Sett er fé til rannsókna á gangastæðum enda rannsóknir skemmra á veg komnar en í fyrstu tveimur kostunum. Ekki liggur fyrir hvenær framkvæmdir geta hafist en væntanlega verður það ákveðið við endurskoðun áætlunarinnar eftir tvö ár.
Í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, 1988 – 1991, var rofin kyrrstaðan sem lengi hafði ríkt í jarðgangagerð á Íslandi og þá hófust framkvæmdir við göng í gegnum Ólafsfjarðarmúla , tekin ákvörðun um jarðgöngin miklu á Vestfjörðum og lagður grunnur að Hvalfjarðargöngunum. Því er ekki að neita að síðan þá hefur verið kyrrstaða í þessum efnum og nokkurt metnaðarleysi ríkjandi. Þar til nú að loksins hefur tekist að koma jarðgöngum á dagskrá á nýjan leik.
Það er óvenjulegt við þessa áætlun, sem er eðli málsins verulega dýr, að fé hefur verið í raun aflað til hennar með sölu á FBA og sölu á hlut í Landsbanka og Búnaðarbanka og er andvirði eignasölunnar geymt á sérstökum reikningi í Seðlabanka Íslands. Fjárskortur hamlar ekki framkvæmdum, það er óvenjuleg staða miðað við það sem áður var.
Kjördæmamálið : nær óbreyttar tillögur
Niðurstaða hefur fengist í kjördæmamálið á Alþingi. Nefnd sú sem starfað hefur í vetur lauk störfum nýlega og skilaði tillögum sínum til forsætisráðherra. Telja má víst að málið verði afgreitt á vorþingi með nýjum lögum um kosningar og kjördæmaskipan. Nær engar breytingar verða á tillögum þeim sem flokkarnir höfðu komið sér saman um fyrir síðustu Alþingiskosningar. Aðeins er því breytt að Hornafjörður verður með Suðurkjördæmi í stað Norðausturkjördæmis. Þetta þýðir að ekkert kjördæmanna 8 sem nú eru stendur eftir og 4 þeirra skiptast milli nýrra kjördæma. Austurland skiptist eins og áður greinir , Norðurland vestra fer í Norðvesturkjördæmi að undanskildum Siglufirði sem flyst í Norðausturkjördæmi, Reykjaneskjördæmi skiptist í tvennt þar sem Suðurnesin verða með Suðurlandi og Hornafirði og loks skiptist Reykjavíkurkjördæmi í tvennt norður og suðurhluta. Fjögur kjördæmi renna í heilu lagi inn í ný kjördæmi, Vesturland og Vestfirðir í Norðvesturkjördæmi, Suðurland í Suðurkjördæmi og Norðurland eystra í Norðausturkjördæmi.
Meginmarkmiðið með breytingunum er að færa þingsæti af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins þannig að svonefnt misvægi atkvæða verði innan við 1:2. Nú þegar fjölgar þingsætunum á höfuðborgarsvæðinu um 6 og líklega um 2 önnur í öðrum kosningum skv.nýja kerfinu eða um 8 þingsæti á fáum árum.
Mismikil hrifning er með þessa niðurstöðu. Á Norðausturlandi, Suðurlandi og Suðurnesjum una menn sæmilega sínum hlut enda þingsætafjöldi nánast sá sami og í núverandi kerfi, en á Norðvesturlandi er mikil óánægja enda mun þingmönnum þar fækka úr 15 í 10 og síðan fækka áfram niður í 8 innan skamms verði ekki kúvending í íbúaþróun á þessu svæði landsins. Þingsætum fjölgar að sama skapi á höfuðborgarsvæðinu sem eðlilegt er í ljósi hinnar miklu fjölgunar íbúa þar.
Engum blöðum er um það að fletta að þessi breyting mun hafa mikil áhrif á stöðu Framsóknarflokksins. Flokknum er enn meiri nauðsyn en áður á því að styrkja stöðu sína á höfuðborgarsvæðinu nú þegar sterk staða á landsbyggðinni gefur minni heildarstyrk á Alþingi en verið hefur. Þannig má ætla að Framsóknarflokkurinn hafi 2-3 þingmenn í Norðvesturkjördæminu nýja af 8 þingmönnum kjördæmisins en flokkurinn hefur að jafnaði haft 5 – 6 þingmenn í kjördæmunum 3 sem mynda það. Það er mitt mat að pólitískt vægi höfuðborgarsvæðisins muni aukast verulega við þessa breytingu og að sama skapi draga úr áhrifum landsbyggðarinnar.
Ég tel helstan galla við tillögurnar að ekkert landsbyggðarkjördæmanna hefur styrk á við höfuðborgarkjördæmin þrjú og er miður að tillaga mín um stóra landsbyggðarkjördæmið með Norðurland sem þungamiðju náði ekki fram að ganga. Þá er skipting höfuðborgarsvæðisins ákaflega ólöguleg og ber keim af því að menn lögðu ekki í stokka upp svæðið. Af því leiðir að Suðvesturkjördæmið verður í 4 aðskildum hlutum.
Þetta er á hinn bóginn sú staða sem flokkurinn verður að vinna úr og er í sjálfu sér ekki kvíðaefni. Það er að mörgu leyti spennandi verkefni að takst á við þessa nýju stöðu, en enginn skyldi ganga að því gruflandi að framundan eru breytingar fyrir Framsóknarflokkinn og breytingar á Framsóknarflokknum.
Kristinn H. Gunnarsson
Athugasemdir