Hátíðarfundur Alþingis á Þingvöllum árið 2000

Greinar
Share

Herra forseti.

Það er eitt helsta verkefni Alþingis að setja þjóðinni lög sem marka leikreglur í mannlegum samskiptum og um athafnir manna. Nú eru mjög uppi þau viðhorf að hagræðing, hagnaður , persónulegur ávinningur og önnnur efnahagsleg sjónarmið eigi að móta löggjöfina; ekki bara í viðskiptum og atvinnurekstri heldur einnig á öðrum sviðum eins og menntun og heilbrigðisþjónustu.

Og víst er það svo að áherslur á þennan veg hafa verið þjóðinni til framdráttar, en álitaefni er í hve miklum mæli þau sjónarmið eigi að ráða. Það er nefninlega svo að löggjöf verður ekki bara reist á efnahagslegum grunni heldur eru margar af mikilvægustu ákvörðunum sem taka þarf í samfélaginu að meira eða minna leyti siðferðilegar í eðli sínu. Siðferðisvitund borgaranna er miklu meiri áhrifavaldur um löggjöf en menn hafa ef til vill áttað sig.

Farsæl störf Alþingis eru undir því komin að löggjöf taki nægjanlegt mið af þeim þætti, efnahagslegar áherslur eru einar og sér ekki nægjanlegur grundvöllur fyrir farsælli stjórn samfélagsins og ef hallar á hinn siðferðilega grunn þá rísa af því illleysanleg vandamál.

Dæmi þar um eru þær deilur sem verið hafa um stjórn fiskveiða og hafa heldur farið harðnandi ef eitthvað er eftir því sem árin líða. Að mínu viti snúast deilurnar einkum um ákveðin atriði sem brjóta í bága við siðferðisvitund almennings. Annars vegar vil ég nefna þá möguleika sem handhafar veiðiheimilda hafa til þess að selja þær og hagnast um fjárhæðir sem eru það háar að engin leið er að halda því fram að seljandinn hafi unnið fyrir andvirðinu.

Hins vegar að oft á tíðum skaðar salan á veiðiheimildunum fólk sem vinnur í atvinnugreininni eða býr í sjávarplássinu án þess að það hafi nokkuð um söluna að segja eða eigi nokkurn rétt til hlutdeildar í hagnaðinum. Hegðun þeirra sem selja segir sína sögu; þeir kjósa yfirleitt að flytja úr byggðarlaginu sem skaðast á sölunni. Það gefur til kynna að seljandanum sjálfum finnst skorta nokkuð á að ákvörðunin sé í samræmi við sína siðferðisvitund og samborgara sinna.

Þetta vandamál glímir Alþingi nú við og það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir siðferðilegri hlið málsins. Lausn sem sátt getur tekist um verður að mæta viðhorfum almennings að þessu leyti. Hagnaðar- og hagræðingarsjónarmiðið eitt er ekki nægjanlegur grundvöllur fyrir farsælli stjórn samfélagsins.

Í tillögu þeirri sem hér er rædd er einmitt lagt til að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og stuðla að umræðum um lífsgildi hennar, siðferði og framtíðarsýn. Hinn kristni arfur hefur mótað siðferðiskennd, gildismat og lífsafstöðu þjóðarinnar.

Það er því vel við hæfi að hyggja að þessum þáttum í ríkara mæli en verið hefur þegar við fögnum þúsund ára kristni í landinu og þeim getum við beitt til að finna lausnir á viðkvæmum úrlausnarefnum. Á þessu sviði er nauðsynlegt að Þjóðkirkjan og önnur trúfélög leggi óhikað stjórnmálamönnunum lið , við þurfum svo sannarlega á því að halda.

Ég óska landsmönnum öllum allra heilla við þessi tímamót og megi kristindómurinn áfram auðga og móta líf landsmanna og auðvelda einstaklingum að leggja rækt við gildismat sitt og lífssýn.

Athugasemdir