Áfram ólga í sjávarútvegi

Pistlar
Share

Ekkert lát er á umræðunni um sjávarútveginn sem verið hefur í mörg ár. Hún hefur verið misjafnlega kraftmikil en jafnan gosið upp á nýjan leik þegar menn hafa talið að málinu væri lokið í kjölfar einhverrar pólitískrar niðurstöðu á Alþingi. Þannig var fyrir síðustu Alþingiskosningar. Pólitískir greiningarmenn, sjálfskipaðir snjallhugar og skjálfandi hagsmunaaðilar luku upp einum munni í aðdraganda kosninganna og tilkynntu að málinu væri lokið. Endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar á kjörtímabilinu hefði farið fram og ákveðið hefði verið að breyta engu, en handhafar veiðiheimildanna höfðu fallist á að greiða ríkinu árlega smápening í staðinn. Með því hefðu þeir keypt sér frið. Friður fyrir veiðigjald, og þar með búið að gefa út aflátsbréf til þjóðarinnar. Málinu lokið og kosningarnar myndu snúast um annað.

Ósanngjarnt kerfi
Ég var á annarri skoðun og varaði félaga mína við. Að mínu mati hefði ekki verið breytt neinu því sem veldur ólgunni. Áfram gætu menn selt það sem þeir höfðu aldrei keypt, áfram gæti framsalið sett atvinnulíf í einstökum byggðarlögum í uppnám, áfram væri verð á veiðiheimildum í engu samræmi við þær tekjur sem má afla með nýtingu þeirra og áfram væri hröð samþjöppun veiðiheimilda með sameiningu og stækkun fyrirtækja. Með öðrum orðum að áfram loguðu eldarnir undir kerfinu. Og hvað kom í ljós ? Auðvitað varð málið í brennidepli í kosningabaráttunni. Ástæðan er einföld. Það er ósanngjarnt að einstakir menn geti gengið út úr greininni með risafjárhæðir. Það er ósanngjarnt að fólk sem starfar í greininni búi við það þá óvissu sem framsalið leiðir af sér um vinnu sína. Það er ósanngjarnt að fólk verði fyrir miklu fjárhagslegu tjóni vegna ákvörðunar sem það hefur engin áhrif á um sölu eða flutning veiðiheimilda úr plássinu. Í hnotskurn er málið þetta: Of mörgum finnst kerfið of ósanngjarnt og meðan því er ekki breytt þá verður ólgan áfram og viðvarandi.

Kjósendur vildu en þorðu ekki
Stjórnarflokkarnir áttu í vök að verjast í kosningabaráttunni, það verður að viðurkennast. En segja má að þeir hafi bjargað sér fyrir horn. Annars vegar með því að boða tilteknar breytingar á kerfinu, svo sem línuívilnun og aukinn byggðakvóta og svo hins vegar komu valdir útgerðarmenn til hjálpar. Eru þar minnisstæðastir forystumenn stórra fyrirtækja eins og Brims, Vinnslustöðvarinnar og Þorbjarnarins og sem lögðu sig fram um að hræða líftóruna úr starfsfólki sínu með útleggingum sínum á því sem gerast myndi ef hugmyndir stjórnarandstöðuflokkanna um breytingar næðu fram að ganga. Hvort tveggja bar árangur og stjórnarflokkarnir héldu þingmeirihluta sínum. Ég met viðhorf kjósenda þannig að meirihluti þeirra hafi viljað gera umtalsverðar breytingar á fiskveiðikerfinu, en þegar á reyndi hafi ekki nógu margir þorað að skipta um ríkisstjórn vegna óvissu um styrka stjórn á efnahagsmálum og efasemdir voru um tillögurnar í sjávarútvegsmálum, sem voru auk þess verulega ólíkar milli stjórnarandstöðuflokkanna.

Fyrningarleið …
Kjarninn í breytingartillögunum var að ljúka núverandi úthlutun veiðiheimilda og taka upp einhvers konar markaðskerfi til að endurúthluta veiðiheimildunum. Þessi tillaga var kölluð fyrningarleið og vísaði til þess að ætlunin var að fyrna árlega hluta af veiðiheimildunum þar til allar heimildirnar væru fyrndar til ríkisins úr höndum þeirra sem hafa veiðiheimildirnar undir höndum. Það var svo breytilegt hversu hratt þessi kerfisbreyting ætti að ganga fyrir sig, allt frá 5 árum upp í 33 ár. Endurúthlutunarreglurnar voru óskýrar og því óljóst hvort íbúar einstakra sjávarbyggða yrðu betur settir. Þá var vandi fyrningarmanna sá að veiðiheimildir útgerðarmanna hlutu að minnka hvert ár og þar með tekjumöguleikar útgerðarinnar og ef útgerðarmaður vildi hafa sama magn heimilda undir höndum varð hann að leigja til sín heimildir sem svaraði fyrningunni og þá jókst kostnaður hans. Ekki tókst að sýna fram á að hagur útgerðarmanna batnaði á annan hátt við breytinguna og því snerust þeir yfirleitt hart gegn fyrningarleiðinni. Sumir þeirra lögðu fram útreikninga til stuðnings eigin fullyrðingum um að fyrningarleiðin leiddi fyrirtæki þeirra í gjaldþrot á fáum árum. Niðurstaðan er að það verður að endurbæta fyrningarleiðina ef hún á að fá brautargengi.

…og nauðungarleið
En það að fyrningarleiðin kemst ekki upp á pallborðið þýðir ekki að kerfið eigi að vera óbreytt. Frá kosningum hafa mikil tíðindi orðið í sjávarútvegi sem opna augu allra þeirra, sem á annað borð vilja sjá, að óbreytt fyrirkomulag er lítið annað en nauðungarleið. Raunar má alveg kalla það lögbundið arðrán eða eitthvað þaðan af verra. Fyrst skal nefna Raufarhöfn. ÚA ákvað að draga saman seglin í starfsemi Jökuls, en kvóta fyrirtækisins var áður búið að flytja til Akureyrar og hann unninn þar. Það setti atvinnulíf staðarins í uppnám og endirinn varð samdráttur á staðnum, færri störf. Eina leiðin til að afstýra samdrætti var að kaupa kvóta og það var ekki afl til þess. Það var hins vegar úrræði íbúanna á Vopnafirði. Þeir skuldsettu sig nauðugir um nærri 1 milljarð króna til þess að eignast ráðandi hlut í Tanga, sjávarútvegsfyrirtæki staðarins.
Næstir til að fara nauðungarleiðina voru Seyðfirðingar og enn áttu ÚA menn í hlut. Til þess að afstýra verulegum samdrætti í atvinnu á Seyðisfirði urðu heimamenn að kaupa veiðiheimildir af ÚA fyrir um það bil 500 milljónir króna. Sömu veiðiheimildir og norðanmenn höfðu 6 árum áður keypt á fjórðungs verðsins nú. Síðasta dæmið sem ég nefni er Brimssalan. Fyrirtækin, Haraldur Böðvarsson hf. á Akranesi, Skagstrendingur hf. á Skagaströnd og sjálft ÚA á Akureyri voru seld í heilu lagi og seljandinn hagnaðist mikið á viðskiptunum, um eina 3 milljarða króna. Það þýðir að rekstur fyrirtækjanna þriggja verður að skila peningum umfram það sem áður var. Í öllum þessum 5 fyrirtækjum verður reksturinn að bera kostnaðinn, tekjurnar aukast ekki við viðskiptin svo það dæmist á útgjaldahliðina. Eigendaskiptin kalla á aukin útgjöld og hver er stóri munurinn á þessari nauðungarleið íbúa einstakra byggðarlaga og fyrningarleiðinni ? Í dæmi Brims fara peningarnir út úr greininni og virðast nú vera notaðir til þess að kaupa hlutabréf í Íslandsbanka á yfirverði til þess að þjóna óljósum markmiðum eigenda Landsbankans.

Illgresið burt
Niðurstaðan er þá að óbreytt kerfi er ekki skömminni skárra og enginn friður verður til frambúðar með því. Ólgan í sjávarútvegi mun halda áfram þar til að breytingar verða gerðar sem taka á orsökum ólgunnar. Það er verkefni stjórnarflokkanna að hafa forgöngu um það. Þeir hafa fengið annað tækifæri til þess að takast á við það verkefni og verða að leysa það á þessu kjörtímabili. Óvarlegt er að gera ráð fyrir því að kjósendur sýni frekari biðlund. Þetta er stærra mál en svo að lausnin felist í línuívilnun og byggðakvótum. Þær aðgerðir eru til hjálpar, en eru ekki meira en verkjalyf við vondum hausverk. Það þarf almennar breytingar á leikreglum kerfisins. Þegar sjálfir höfuðpáfar kvótakerfisins á Akureyri eru farnir að reiðast vegna afleiðinga kerfisins og predika nú samfélagslega ábyrgð bankanna er orðið tímabært að safna liði til þess að uppræta illgresið sem þrífst í skjóli kvótakerfisins. Það verður ekki falið með aflátsbréfi veiðigjaldsins.

Pólitískt verkefni
Samfélagslega ábyrgðin einskorðast ekki við bankana, og raunar má segja eða vandasamt sé að gera kröfur af þessu tagi á fjármálastofnanir. Kröfurnar um að gætt sé samfélagslegrar ábyrgðar standa fyrst og fremst á stjórnmálamönnunum. Þeir setja leikreglurnar og hafa valdið. Það stendur þeim næst að gæta hagsmuna starfsfólks í sjávarútvegi og hugsa um hag einstaklinga sem fjárfest hafa í eignum í sjávarplássum landsins. Þetta er pólitískt verkefni sem stjórnmálaflokkarnir fá ekki flúið undan og verkefnið nær til allra staða landsins en ekki sérvalinna byggðarlaga.

Hagkvæmnin umdeilanleg
Margt má segja um kvótakerfið bæði gott og vont. Eitt er það sem oftast hefur verið talið því til tekna er að það leiði til aukinnar hagkvæmni. Það er umdeilanlegt svo ekki sé meira sagt. Ekki það að hagkvæmni hafi ekki aukist í greininni undanfarna tvo áratugi. Það hefur greinilega gerst. Heldur hitt að fleiri þættir koma til sem hver og einn stuðlar að aukinni hagkvæmni og án þess að kvótakerfið hafi endilega áhrif þar á. Færa má rök fyrir því að hagkvæmnin hefði þróast með svipuðum hætti þótt ekkert kvótakerfi hefði verið við lýði eða eitthvert allt annað kerfi til að stjórn veiðunum. Tæknivæðing í veiðum og vinnslu sem hefur átt sér stað hefði orðið hvort sem er, nefna má líka tilkomu vinnsluskipa, fiskmarkaði, framfarir í flutningatækni og umbætur á fjármálamörkuðum. Markaðsvæðingin og aukin samkeppni hefur haft áhrif á fjárfestingu í húsnæði og skipum. Samdráttur í heildarveiði hefur haft mikil áhrif til hagræðingar og hefði gert það hvort sem er, þótt ekki væri stuðst við núverandi kvótakerfi. Kvótakerfið er ekki forsenda markaðsvæðingar, hún hefði orðið hvort sem er.
Hins vegar er hægt að benda á verulegan ókost kvótakerfsins. Aukin skuldsetning hefur orðið í kjölfar veðsetjanlegra veiðiheimilda og nýjasta dæmið, salan á Brimsfyrirtækjunum flutti milljarða króna út úr sjávarútveginum sem situr eftir með skuldirnar. Ég veit ekki hversu marga milljarða króna, ef til vill allt að 10 milljarða. Spyrja má hvaða hagkvæmni felst í því að auka skuldir í sjávarútvegi til þess að nokkrir einstaklingar utan greinarinnar auðgist mikið? Og noti peningana svo til þess að sölsa undir sig fjármálamarkaðinn ? Hvað er þjóðarbúin betur statt ? Hver er ávinningur ríkisins ? Menn ættu að fara varlega í að færa kvótakerfinu til tekna meira en hægt er að standa við. Það á líka eftir að færa kerfinu til gjalda kostnaðinn sem fellur á einstaklingana vegna afleiðinga kerfisins. Hann er ekki svo lítill og er ekki rétt að þeir borgi sem græða á kerfinu ?

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir