Framsókn í Forsætisráðuneytið

Greinar
Share

Síðasta ár var viðburðarríkt í stjórnmálunum. þar sem hæst ber Alþingiskosningar í maí og stjórnarmyndun í kjölfarið. Kosningarnar voru tvísýnar bæði fyrir Framsóknarflokkinn og ríkisstjórnina. Lengi vel átti flokkurinn undir högg að sækja og mældist með mun minna fylgi en hann fékk í síðustu kosningum. Síðustu daga kosningabaráttunnar snerist þetta við, fylgið jókst og í kosningunum fékk flokkurinn 12 þingmenn og hélt því óbreyttum styrk á Alþingi. Stjórnarandstaðan missti greinilega vopn sín í lokin og mistókst að fella ríkisstjórnina. Fyrir okkur framsóknarmenn voru úrslitin ánægjuleg í ljósi stöðunnar í könnunum lengst af á kjörtímabilinu. Þar sannaðist það fornkveðna að varlega skulu menn afskrifa Framsókn. Í mörgum Alþingiskosningum, allt frá 4.áratug síðustu aldar, hafa verið uppi hrakspár um gengi Framsóknarflokksins en nær undantekningalaust hafa þær brugðist og gott gengi flokksins komið á óvart. Ástæðan er einföld að mínu mati, flokkurinn er ekki hægri flokkur heldur skilgreindur sem félagshyggjuflokkur, en hefur ætíð lagt mikla áherslu á að skapa skilyrði fyrir öflugt atvinnulíf og stöðugleika í efnahagsmálum. Menn vita að bættur hagur almennings kemur fyrst og fremst í gegnum atvinnufyrirtækin og starfsemi þeirra. Þar verða til verðmætin sem hið opinbera sækir síðan sínar tekjur í og notar til að veita þjónustu og jafna lífskjör. Hægri menn leggja að jafnaði minna upp úr jöfnunarhlutverki ríkisins og flokkar til vinstri við Framsóknarflokkinn hafa ekki nægilega skilið þýðingu atvinnulífsins og iðulega uppskorið erfiðleika í atvinnulífi sem leiða af sér fallandi kaupmátt almennings.
Söguleg kosningaúrslit
Úrslit kosninganna voru söguleg í þeim skilningi að mögulegt var að mynda 3 tveggja flokka ríkisstjórnir og í fyrsta sinn hafði Framsóknarflokkurinn tvo möguleika á að mynda tveggja flokka ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa 34 þingmenn og Framsóknarflokkur og Samfylking 32 þingmenn og hvort tveggja eru meirihlutastjórnir. Þessi staða hefur ekki komið upp áður. Strax daginn eftir kosningar bauð formaður Samfylkingar Framsóknarflokki upp á samstarf um ríkisstjórn og formanni Framsóknarflokksins forsætisráðherrastólinn. Það varð niðurstaðan í þingflokki Framsóknar að fyrst skyldi rætt við Sjálfstæðisflokkinn og það leiddi til samkomulags um áframhaldandi stjórnarsamstarf eins og kunnugt er. Þar er um samið að Framsóknarflokkurinn tekur við forsætisráðneytinu í september næstkomandi. Ég get ekki neitað því að ummæli formanns Samfylkingarinnar í Morgunblaðinu um áramótin í garð Framsóknarflokksins eru mér mikið undrunarefni. Össur Skarphéðinsson, formaður flokksins segir það vera sögulegt að Sjálfstæðisflokkurinn "skuli vera í þann mund að afhenta litlum sérhagsmunaflokki, Framsóknarflokknum, forystu í landsmálum" og annar þingmaður Samfylkingarinnar bætir um betur og segir að Davíð Oddsson hafi samið af sér og afhent 17% smáflokki lykilinn að forsætisráðuneytinu. Getur það verið að Össur Skarphéðinson sé búinn að gleyma því að hann bauð Framsóknarflokknum forsætisráðuneytið daginn eftir síðustu kosningar ? Var þá ekki nein meining á bak við það boð Össurar að "afhenda litlum sérhagsmunaflokki, Framsóknarflokknum, forystu í landsmálum"?. Mér finnst að svona geti menn ekki látið og Samfylkingin eykur ekki trúverðugleika sinn með þessu háttalagi. Auk þess getur Framsóknarflokkurinn með tæp 18% atkvæða varla talist smáflokkur. Allan þann tíma sem Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra hafði Framsóknarflokkurinn tæplega 19% fylgi og hvorki Alþýðuflokkurinn né Alþýðubandalagið settu það fyrir sig og báðir flokkarnir studdu ríkisstjórn undir forystu Steingríms. Ég hygg að Össur muni eftir því eins og ég.
Framsókn tekur við forsætisráðuneytinu
Forsætisráðherraskipti verða 15. september í haust. Þá verða rúm þrettán ár síðan Steingrímur Hermannsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, afhenti Davíð Oddssyni lyklana að ráðuneytinu. Það er einstakt afrek hjá Davíð að sitja samfleytt allan þennan tíma í forsætisráðuneytinu og ég tel litlar sem engar líkur á því að það met verði slegið. Ástæðan fyrir breytingunum er hins vegar einföld, Sjálfstæðisflokkurinn tapaði verulegu fylgi í kosningunum eða um 7% en Framsóknarflokkurinn hélt sínum þingstyrk. Þess vegna hlutu að verða breytingar á samningum milli flokkanna Framsókn í vil og svo stóð flokknum til boða að mynda meirihlutastjórn með Samfylkingunni og hafa forsætisráðuneytið. Úrslit kosninganna leiddu það af sér að forystan í ríkisstjórnarsamstarfinu færðist til Framsóknarflokksins.
Ég tel rétt að ryfja þetta upp þar sem verið er að halda öðru fram. Í viðtali í Fréttablaðinu við Halldór Blöndal, forseta Alþingis, lætur hann uppi mikinn söknuð yfir því að breytingar verði í forsætisráðuneytinu og heldur hann því fram að samkomulagið sé bundið við persónu Halldórs Ásgrímssonar en ekki Framsóknarflokkinn. Ég get tekið undir það hjá forseta Alþingis að Halldór Ásgrímsson er vel að því kominn að verða forsætisráðherra, en hinu get ég ekki verið sammála. Forsætisráðherrastóllinn verður á forræði Framsóknarflokksins. Mér finnst gæta hjá forseta Alþingis þess misskilnings að forsætisráðherraembættið sé nánast eins og þinglýst eign Sjálfstæðisflokksins. Auðvitað er ekki svo og Halldór Blöndal verður að átta sig á því að úrslit kosninga marka framhaldið og Sjálfstæðisflokkurinn tapaði miklu fylgi.
Það mun miklu máli skipta fyrir Framsóknarflokkinn hvernig til tekst eftir að forsætisráðherraskiptin verða. Þegar kemur nýr skipstjóri í brúna hljóta að verða breytingar á stefnunni, þótt auðvitað marki stjórnarsáttmálinn meginlínur og rétt er að láta breytingar eiga sinn aðdraganda. Eitt er þó rétt að benda á. Slakur árangur Sjálfstæðisflokksins í Alþingiskosningunum bendir til þess að kjósendur vilja draga úr hægri stefnunni og styrkja félagslegar áherslur. Þar ber hæst kröfnna um aukinn jöfnuð sem er andsvar við vaxandi misrétti og auðsöfnun. Íslendingar eru að mínu mati í eðli sínu jafnaðarmenn og vilja ekki sjá auðjöfra festa rótum í íslensku samfélagi sem hafa ráð fjöldans í hendi sinni.
löggjöf gegn hringamyndun og ráðandi stöðu
Í efnahagsmálum er fyrst og fremst stuðst við markaðsöflin til þess að tryggja neytendum góða þjónustu á hagstæðu verði. Markaðsvæðing með samkeppni að leiðarljósi hefur á mörgum sviðum tekist vel. En fyrir nokkru var orðið ljóst að fákeppni og jafnvel einokun einkenna sum svið atvinnulífsins. Þar má nefna sem dæmi matvöruverslun, vöruflutninga, farþegaflutninga, lyfjaverslun, svína- og kjúklingarækt, bensín – og olíuverslun og skýr einkenni eru komin fram á sviðum eins og vátryggingar- og fjármálastarfsemi og nú síðast á fjölmiðlamarkaði. Þá hafa bankarnir verið umsvifamiklir með beinum afskiptum af einstökum fyrirtækjum og knúið fram á stundum umdeildar breytingar. Mikilli samþjöppun fylgir sú hætta að ekki sé lengur fyrir hendi virk samkeppni milli fyrirtækja og neytendur borga brúsann með hærra verði fyrir vörur og þjónustu. Undanfarin ár hef ég varað við þessari þróun og hvatt til þess að sett verði löggjöf sem tryggi samkeppni og þar með hagsmuni almennings. Á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins í febrúar í fyrra bar ég fram svohljóðandi tillögu sem samþykkt var " Undirbúin verði löggjöf gegn hringamyndun og ráðandi markaðsstöðu í einstökum atvinnugreinum. Það verði m.a. athugað hvort ekki sé rétt að kveða á um skiptingu markaðsráðandi fyrirtækja." Í stjórnarsáttmálanum var þessu ekki fylgt eftir en þar segir þó : Að tryggja að öflug samkeppni ríki á sem flestum sviðum atvinnulífsins til hagsbóta fyrir neytendur. Að undanförnu hafa þessi mál þó verið í brennidepli vegna samþjöppunar á fjölmiðlamarkaði og fyrirhugaðrar sameiningar SPRON og KB banka og skipuð hefur verið nefnd til að skoða hvort setja eigi reglur um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Ég minni á að í lögum eru takmarkanir á samþjöppun í sjávarútvegi svo fyrir þessu eru fordæmi. Mér virðist að borin von sé til þess að aðilar á markaði setji sér skynsamleg takmörk í eigin útþenslu og vísa þar til Kaupþings og þeirra fyrirtækja. Þess vegna verður að setja löggjöf og marka markaðnum leikreglur. Þar verður að setja mörk við hlutdeild einstakra fyrirtækja og fyrirtækjasamsteypa í markaði á tilteknu sviði, en líka þarf að setja takmarkanir á þau ítök sem einstakar fyrirtækjasamsteypur sem ná yfir mörg svið atvinnulífsins (hringamyndun) geta haft. Þar eru auðvitað viðkvæmust áhrif fjármálafyrirtækja, einkum banka, á starfssviðum viðskiptavina sinna. Dæmi um þetta er beint eignarhald banka á fyrirtækjum í kjötframleiðslu, í sjávarútvegsfyrirtækjum eða í útgáfufyrirtæki og jafnvel öllu samtímis. Í mörgum öðrum löndum hefur verið talið nauðsynlegt að setja löggjöf af þessu tagi og Bandaríkjamenn riðu á vaðið fyrir nærri 115 árum með löggjöf gegn hringamyndun sem gilti bæði á landsvísu og í einstökum ríkjum.
Ég legg áherslu á að tilefnið er samþjöppun á markaði og við því verður að bregðast. Það er ekki réttur grundvöllur til aðgerða að einblína á það hvaða einstaklingar eiga í hlut og menn geta ekki leyft sér að hafa mismunandi og persónubundna viðmiðun á því hvað er eðlilegt í þessum efnum. Ásakanir forsætisráðherra í garð einstakra fyrirtækja og jafnvel starfsmanna þess eru komin út fyrir eðlileg mörk. Þessi umræða verður að vera á málefnalegum forsendum.
Verjum sparisjóðina
Angi af umræðunni um samþjöppun og hringamyndun er SPRON málið. Þessi fyrirhuguð kaup KB banka á SPRON er ekkert annað en frekari samþjöppun á fjármálamarkaði og getur auk þess leitt til þess sparisjóðakeðjan leysist upp og að viðskiptabankarnir kaupi hvern sparisjóðinn á fætur öðrum. Aukin samþjöppun er ekki líkleg til þess að vera neytendunum til góðs og fyrirsjáanlegt er að víða á landsbyggðinni verði verri þjónusta og lakari aðgangur að lánsfé fyrir atvinnufyrirtæki eftir viðskiptabankavæðingu viðkomandi sparisjóðs. Sparisjóðirnir sem heild eru öflugir á landsvísu og veita viðskiptabönkunum samkeppni, svo þarf að vera áfram. Sérmál í þessu er svo að auðvitað er verið að ráðstafa eigið fé sparisjóðanna sem er ekki í eigu stofnfjáraðila. Síðast þegar ég vissi var stofnfé í SPRON 10% af eigið fé sjóðsins en nú stendur til að stofnfjáreigendurnir fái 33% af kaupverðinu í sinn hlut fyrir þessi 10%. Þetta er ekkert annað en tilfærsla á fé til stofnfjáreigenda umfram það sem þeir eiga nokkurt tilkall til. Og svo má spyrja er það væntanlegri sjálfseignarstofnun SPRON fyrir bestu að fé hennar verði öllu breytt í hlutabréf í KB banka ? Það finnst mér mikið vafamál.
þögn um ESB aðild
Eftir miklar umræður um ESB aðild síðustu ár brá svo við að þegar dró að Alþingiskosningunum síðastliðið vor að umræðan hljóðnaði og var vart á málið minnst í kosningabaráttunni. Það á sér sínar eðlilegu skýringar í því að ESB aðild á greinilega ekki mikinn hljómgrunn meðal þjóðarinnar. Líklega telja menn nægilegt að Íslendingar séu aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og svo má ekki horfa framhjá því að þjóð eins og Færeyingar, sem byggja lífskjör sín á útflutningi sjávarafurða, eiga ekki í neinum vandræðum að selja vörur sínar innan ESB nánast tollfrjálst. Þá hafa lífskjör á Íslandi batnað samfleytt síðustu 8 ár án aðildar að ESB og umfram það sem gerst hefur innan Evrópusambandsins. Miklar breytingar hafa orðið innan ESB á undanförnum árum og verða áfram mið fjölgun þjóða í sambandinu. Skynsamlegt er að bíða og sjá hvernig Evrópusambandinu reiðir af á næstu árum. Þá skiptir Íslendinga miklu máli þær breytingar sem verða innan WTO, alþjóðaheimsviðskiptastofnunaninnar, en þar koma þjóðir heimsins sér saman um leikreglur í viðskiptum sín í milli á miklu stærra svæði en innan ESB. Þannig mun þróunin innan WTO hafa veruleg áhrif á íslenskan landbúnað ekki síður en hugsanleg ESB aðild. Reyndar er það mat formanns Bændasamtakanna að Íslendingar hefðu meira svigrúm til að fylgja eigin stefnu utan Evrópusambandsins en innan og að aðild að ESB sé versti kosturinn.
bændur bæta lífskjör þjóðarinnar
Umræða um landbúnað einkennist af erfiðleikum einkum í sauðfjárrækt. En þar er ekki allt sem sýnist. Landbúnaður er atvinnugrein sem lagt hefur sitt af mörkum til þess að bæta lífskjör íslensku þjóðarinnar. Bændur hafa miklu fremur verið gefendur en þiggjendur með lækkandi matvælaverði. Þjóðin ver nú aðeins 15% ráðstöfunartekna sinna til matvælakaupa sem er svipað hlutfall og er í evrulöndunum 12. Verð til bænda hefur farið lækkandi og þeir því lagt sitt af mörkum. Verðlækkun skilar sér í aukinni sölu og í kjöti hefur sala aukist um rúm 12% á síðustu 3 árum eða um 2.400 tonn. Mest hefur lækkunin verið í framleiðslu svínakjöts, en talið er að framleiðslukostnaður þess hafi lækkað um nálægt helming á síðustu 15 árum. Samdráttur hefur hins vegar verið í sölu kindakjöts og framleiðendur kindakjöts eiga í harðri samkeppni við annað kjöt á íslenskum markaði. Tryggja verður að sauðfjárbændur búi við sanngjarnar leikreglur í þeirri samkeppni. Skipulag kjötvinnslu og sölu skiptir miklu máli fyrir sauðfjárbændur ásamt almennri markaðssetningu. Þeir verða að standast öðrum snúning á heildsölu og smásölustigi. Hafa verður í huga að talið er að hagvöxturinn á næstu árum muni skapa aukinn markað fyrir góðar búvörur. Þar liggur tækifæri fyrir landbúnaðinn.
Framundan eru breytingar á landbúnaði og líklegt er miðað við stefnumörkun hjá WTO að það dragi úr beinum framleiðslutengdum stuðningi með það að markmiði að jafna samkeppnisskilyrði. Þessi stefnumörkun hefur legið fyrir í mörg ár og er ekki að sjá að frá henni verði horfið. Við verðum því að búa okkur undir þær breytingar. Mjólkuriðnaðurinn stendur frammi fyrir breytingum á þessu ári. Að öllu óbreyttu verður afnumin um mitt árið opinber verðlagning á heildsölustigi og frá og með þeim degi mun mjólkuriðnaðurinn falla undir samkeppnislög skv. túlkun Samkeppnisstofnunar. Stofnunin telur að þá verði verðtilfærsla mjólkuriðnaðarins óheimil og margt af mikilvægu samstarfi mjólkurfyrirtækjanna eins og sameiginleg dreifing, sölu- og markaðsstarf og þar með talinn rekstur Osta- og smjörsölunnar í núverandi mynd. Gangi þetta eftir kemst núverandi verkaskipting milli fyrirtækjanna í mjólkuriðnaðinum í ákveðið uppnám. Þarna vegast á tvö ólík sjónarmið annars vegar mikil samvinna fyrirtækja með skipulagðri hagræðingu eða samkeppni milli þeirra. Spurningin er hvort er betra fyrir neytendur ?
áfram ólga í sjávarútvegi
Ekki er líklegt að sjávarútvegsmálin séu útrædd, þau verða áfram ofarlega á baugi stjórnmálanna. Eftir tveggja áratuga stjórnun, fyrst og fremst með aflamarki, lætur árangur á sér standa í uppbyggingu þorskstofnsins og ástand rækjustofnsins við landið er ekki til að hrópa mörg húrra fyrir. Stóra spurningin er þessi: erum við að gera rétt varðandi stjórn veiðanna ? Óvissan er nokkur um það hvað í raun og veru er veitt og það hlýtur að vera bagalegt. Grundvöllur allrar stjórnunar og mat á árangri hvílir á því að menn hafi réttar upplýsingar um veiðarnar.Við hljótum að stefna að því marki. Annað atriði er hagkvæmnin. Það verður að nýta auðlindina með sem hagkvæmustum hætti. Á Vestfjarðamiðum er veiddur fjórðungur alls þorskafla landsmanna, liðlega þriðjungur alls ýsuafla og tæplega helmingur steinbítsaflans. Aðeins hluti af þessum afla er veiddur af skipum sem landa aflanum á Vestfjarðahöfnum, á að giska þriðjungur, og vitað er að um 75% af botnfiskafla lönduðum á Vestfjörðum er unninn þar. Þetta er ekki hagkvæmasta nýting auðlindarinnar. Það kostar mikið fé að sigla skipum til og frá Vestfjarðamiðum og vinnslan er a.m.k. jafnhagkvæm á Vestfjörðum og annars staðar. Þetta er heldur ekki í samræmi við þá stefnu að nýta náttúruauðlindir í þeim landshlutum sem þær eru. Skýrasta dæmið eru fallvötnin á Norður- og Austurlandi. Það dettur engum í hug að flytja raforkuna yfir allt hálendið frá Austurlandi til Suðvesturlands og hafa verksmiðjurnar þar, enda hvorki hagkvæmt né skynsamlegt. Sama á auðvitað að gilda um fiskimiðin. Vestfjarðamið verða best nýtt fyrir þjóðarhag frá Vestfjörðum.
Nýlegar tölur staðfesta að fækkun starfa á Vestfjörðum í fiskveiðum frá 1998 stafar af brottflutningi kvóta. Beint samband er svo milli fækkun starfa og fækkun íbúa. Það munar mikið um fækkun um 320 störf í fiskveiðum á aðeins 5 árum. Fækkun starfa um 36.5% á 5 árum í fiskveiðum er ekkert annað en hrun og hvernig halda menn að tölurnar hefðu litið út ef saumað hefði verið harðar að smábátaflotanum en þó var gert ? Hlutur sjávarútvegs í fjórðungnum er enn 32% af störfum en var nærri 38% fyrir 5 árum.Þetta er langhæsta hlutfall á landinu. Þessar tölur sýna að hlutur vestfirskra skipa í fiski veiddum á Vestfjarðamiðum hefur minnkað og meira er veitt af skipum sem sækja langt að. Tölurnar sýna með öðrum orðum að óhagkvæmnin hefur aukist. Þetta er ekki skynsamleg þróun.
Umræðan um fiskveiðikerfið beinist um þessar mundir fyrst og fremst að stöðu þeirra byggðarlaga sem búa við óvissu um framtíð veiðiheimildanna á staðnum. Það eru einkum Akureyri, Akranes og Skagaströnd og menn velta því fyrir sér hvort heimamenn geti keypt veiðiheimildir Brims sem eru til sölu. Nú eru þeir, sem til þessa hafa litið svo á að þeir gætu bara bætt við sig veiðiheimildum skyndilega í þeirri stöðu sem aðrir voru í, svo sem Vestfirðingar. Nú dugar ekki lengur að hreyta ónotum í Vestfirðinga og segja að þeir hafi ekki kunnað að spila með kerfinu, rekið sín fyrirtæki illa eða verið á móti kvótakerfinu og þeim sé það mátulegt að kvótinn flytjist burt. Eða þessi klassíska viðbára að þetta sé bara þróunin að veiðiheimildir flytjist frá smærri stöðum til stærri. Nú er viðbúið að menn leggi allt kapp á að tryggja að veiðiheimildir Brims verði áfram þar sem þær eru nú, vegna þess að óttast er að kvótakerfið standist ekki ólguna sem verður, ef veiðiheimildir í stórum byggðarlögum hverfi þaðan. En þá er komin upp sú staða að sjávarútvegsfyrirtækin á þessum stöðum hafa keypt veiðiheimildirnar á fullu verði og á að reka þau á annan hátt en þann hagkvæmasta, þ.e. að gera út þaðan sem styst er á miðin ? Og ef svo er hver ætlar að borga kostnaðinn ? Bankarnir ?
kosningaloforð efnt
Línuívilnun er í höfn og það kosningaloforð hefur verið efnt. Þetta er ekkert nýtt. Línutvöföldun fjóra mánuði á ári var í gildi um margra ára skeið eftir að kvótakerfi var komið á og sérstak verð var löngum fyrir línufisk meðan verðlagsráð ákvað lágmarksverð og þekkt er að kaupendur borga stundum hærra verð fyrir línufisk en annan fisk. Andstaða LÍÚ og félaga tengd þeim kom á óvart, sérstakleg þar sem þessir hagsmunaaðilar höfðu ekki haft neitt við málið að athuga fyrir kosningar. Þá beittu þeir sér gegn hugmyndum stjórnarandstöðuflokkanna um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu en sögðu ekki stakt orð um línívilnunina sem báðir stjórnarflokkarnir boðuðu. Ég verð að segja að þessi viðbrögð LÍÚ og skyldra aðila finnast mér ekki bera vott um vilja til ná samkomulagi, Þeir beittu sér gegn stjórnarnandstöðuflokkunum fyrir kosningar af því að þeir boðuðu verulegar breytingar en eftir þær þegar stjórnarflokkarnir héldu áfram samstarfi sínu og ljóst var að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af stefnu stjórnarandstöðunnar þá var tekin upp barátta gegn því helsta í stefnu stjórnarflokkanna sem til breytinga horfði og var borið fram til þess að mæta kröfum kjósenda. Niðurstaðan er sú að LÍÚ og tengdir hagsmunaaðilar berjast gegn öllum breytingum og svo getur farið að með þessari einstrengingslegu afstöðu dæmi þeir sig úr leik í þeirri umræðu sem mun halda áfram um breytingar á fiskveiðistjórninni. Þegar hefur komið fram að forsvarsmenn LÍÚ gefa ekkert fyrir atvinnu fólks og hagsmuni þess og telja að forræði veiðiheimilda sé þeirra einkamál og lengi verða í minnum höfð ummæli formanns Útvegsbændafélags Vestmannaeyja sem sagði að beitningaskúrar væru fullir af öryrkjum og gamalmennum. Niðurstaða mín er að enn er langt í land að sjávarútvegsmálin verðu útrædd, þar eru atvinnuhagsmunir um of í uppnámi fyrir of marga til þess að lát verði á ólgunni sem undir kraumar svo ekki sé nefnd samþjöppunin eða peningabrottfallið úr greininni.
Ég vil að lokum árna lesendum velfarnaðar á nýju ári og færa þeim bestu þakkir fyrir samstarfið á liðnu ári.

Athugasemdir