Skæruliðar innan stofnana

Pistlar
Share

Yfir Vestfirðinga ríður eitt stofnanaáfallið enn. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi rekstrarleyfi fyrir 17.500 tonna laxeldi í sjó í Patreksfirði og á Tálknafirði.  Óafgreiddar eru kærur um sjálft starfsleyfið. Stofnanir inn framkvæmdasvaldsins takast á um laxeldið. Úrskurðarnefndin finnur að gerðum Skipulagsstofnunar og Matvælastofnunar og tekur nú til meðferðar kæru á Umhverfisstofnun. Þessi stofnanasirkus hefur þá einu niðurstöðu í för með sér að uppbygging laxeldis í sjó á Vestfjörðum  tefst og jafnvel stöðvast eins í Ísafjarðardjúpi.

Deilt um peninga

Átökin snúast ekki um hárfína lögfræði. Lagaþræturnar sem andstæðingar laxeldis bjóða upp á eru birtingarmynd átaka, afleiðing en ekki orsök. Átök  snúast ekki heldur um vernd laxastofna. Áratuga fiskrækt með hrognakokteilum bæði innlendum og erlendum í velflestum ám landsins staðfesta að markmiðið var að efla stangveiðina en ekki að vernda staðbundna stofna. Þetta snýst um peninga og ekkert annað. Flóknara er málið ekki.

Fyrir Vestfirðinga snýst málið líka um peninga. Af laxeldi í sjó má vænta þess að hafa miklar tekjur, fjölda starfa, fjölgun íbúa og hækkandi verðmæti verðlítilla íbúða. Laxeldið í sjó uppfyllir líka að vera það  eina sem staðið hefur til boða síðustu 20 árin: að vera eitthvað annað.

Stefnan mörkuð 2004

Fyrir hálfum öðrum áratug gerðu stjórnvöld sátt í málinu. Mörkuð var sú stefna að banna laxeldi í sjó um allt land, nema þar sem stangveiðihagsmunirnir voru hverfandi. Frá þeim tíma hefur eldið aðeins verið leyft á Vestfjörðum, hluta af Austfjörðum og í Eyjafirði.  Þarna var gengið mjög langt til móts við áhrifamikinn og háværan hóp veiðiréttindamanna. Við þetta samkomulag hefur verið staðið. En innan stangveiðihópsins eru menn sem vilja enga sátt. Þeir hafa grafið undan samkomulaginu og hafa sterk tök innan margar stjórnmálaflokka, að ekki sé talað um nokkrar stofnanir sem eru undirlagðar talibönum að þessu leytinu til. Þar hefur Hafrannsóknarstofnun verið misnotuð til þess að skapa þá trú að laxeldi sé sérstaklega varasamt fyrir land og þjóð. Svonefnt áhættumat hefur ekki gengið í gegnum vísindalega prófraun og er hvergi til í heiminum, en er engu að síður notað sem vísindaleg rök gegn laxeldinu.

Laxeldið gefur miklar tekjur

Fyrirsjáanlegt er að laxeldið mun gefa miklar tekjur. Útflutningstekjur 2016 af um 10 þúsund tonna framleiðslu voru um 10 milljarða króna og er þó laxeldið enn á byrjunarstigi. Stangveiðin gefur miklu minna af sér. Miðað við skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá 2004 má ætla að beinar tekjur hafi verið 3,5 – 4 milljarðar króna. Fimmtíu þúsund tonna framleiðsla á Vestfjörðum, sem meira að segja Hafrannsóknarstofnun segir mögulega, myndi gefa um 50 milljarða króna í útflutningstekjur á hverju ári. Því myndi fylgja um 800 störf bein og óbein og mannfjölgun á Vestfjörðum gæti orðið um 1800 manns sé miðað við mat KPMG sem unnið var á síðasta ári. Ætla má að unnt verði hæglega að framleiða 150 þúsund tonn á Íslandi. Gengi það eftir væri búið að auka tekjur þjóðarinnar um 150 milljarða króna og fer þá að slaga upp í sjávarútveginn.

Þessi möguleikar eru raunhæfir, verðið á laxinum er gott og því spáð að svo verði næstu ár, fjárfestar eru fúsir til þess að setja peninga í uppbygginguna og greinin tekjur framförum jafnt þétt í búnaði og öðru varðandi reksturinn. Fiskeldi er mjög vaxandi í heiminum og Sameinuðu þjóðirnar kalla eftir auknu fiskeldi til þess að mæta aukinni fæðuþörf heimsins vegna fólksfjölgunar.

Stangveiðin verður áfram

Engin ástæða er til þess að ætla að laxeldið hafi skaðleg áhrif á villta laxastofna og því mun sú atvinnugrein eiga sína möguleika áfram. Í opinberri umræðu hér á landi fara hátt ýkjur um hættur af laxeldi. Ekkert er þó handfast eða staðfest um blöndun stofna, aðeins tilgátur og upphlaup.

Skæruliðastjórnmál

Öfgar og óbilgirni eru orðin að alvarlegasta vandamáli íslenskra stjórnmála. Talibanarnir innan veiðiréttarhópsins virða ekkert nema eigin kröfur og standa ekki við markaða stefnu stjórnvalda. Við þetta bætist svo að  náttúruvernd er í hugum töluverðs hóps ofar öllu öðru og þar með talið þörfum fólks víða um land. Venjulegt alþýðufólk á Vestfjörðum á ekki bandamann í hópi þessara skæruliða sem hefur sótt í ráðandi störf hjá opinberum stofnunum sem huga að umhverfismálum. Sjást merki um það í hverju hagsmunamáli Vestfirðinga á fætur öðru að helstu tálmanirnar er að finna innan stofnana ríkisins í formi einstrengislegrar túlkunar  á lögum og skorts á vilja til lausna. Mál er að linni. Annars verða landsmenn sviptir miklum möguleikum til efnahagslega ávinnings.

Athugasemdir