Úrslit alþingiskosninganna um síðustu helgi eru um margt athyglisvert. Ekkert lát er á upplausninni á stjórnmálasviðinu sem fylgdi hruninu 2008. Augljóst er að verulega djúp gjá er milli kjósenda og stjórnmálaflokkanna. Flokkarnir eru greinilega ekki að mæta kröfum kjósenda. Ef til vill eru kjósendur ráðvilltir eftir hrun og eru að einhverju marki að gera óraunhæfar kröfur. Hins vegar eru flokkarnir ekki síður að reyna að átta sig á því hvaða breytingar kjósendur vilja að verði á stjórnmálunum.
Það sem uppúr stendur er að hrun viðskiptabankanna varð aðeins 6 árum eftir að ríkisbankarnir voru einkavæddir. Það var fyrst og fremst afleiðing ábyrgðarleysis, ófyrirleitni og óráðvendni tiltölulega fámenns hóps í stjórnmála- og viðskiptalífinu. Tugþúsundir trúðu og treystu þessum hópi sem síðar kom í ljós að meira og minna sigldi annan sjó en almenningur , kom sér undan stóráföllum og virðist hafa komið ár sinn vel fyrir borð á erlendum skattaskjólseyjum. Innherjaupplýsingar og sérmeðferð eru sem eitur í beinum almeinnings og enn kaumar undir niðri reiði og ólga sem síðan birtast í þingkosningum. Allar þrjár ríkisstjórnir sem myndaðar hafa verið eftir hrunið studdust við meirihluta en þær hafa allar mátt þola að vera kosnar frá völdum í almennum kosningum við fyrsta tækifæri.
Ríkisstjórnin féll
Fráfarandi ríkisstjórn féll innan níu mánaða frá því hun var mynduð. Þrátt fyrir skamman tíma tókst stjórnarflokkunum að verða óvinsælir fyrr en flestum öðrum ríkisstjórnum sem á undan hafa setið og í þingkosningum misstu ríkisstjórnarflokkarnir 12 þingmenn af 32. Samanlagt fylgi flokkannna þriggja minnkaði um 15%, fór úr 48% í 33%. Þetta er mestu skellum í sögunni, sem er þeim mun óvenjulegri að kosningarnar fóru fram í einu mesta efnahags góðæri Íslandssögunnar. Hagvöxtur á síðasta ár varð 7,4% og kaupmáttur launa óx um nærri 9% frá fyrra ári. Verðmæti Íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hefur tvöfaldast á 6 árum sem er til marks um batnandi efnahags almennings. Það voru ekki efnahagsmálins em fellldu ríkisstjórnina heldur siðferðilegu málin. Kaldrifjuð afstaða valdamanna til þolenda kynferðilegs ofbeldis og stöðug skörun stjórnmála og viðskipta ýfðu upp reiðibylgjur sem varð ríkisstjórninni svo að falli.
Stjórnarandstaðan vann ekki
Það óvenjulega við hinn mikla ósigur ríkisstjórnarflokkanna er að stjórnaandstaðan vann ekki. Flokkarnir fjórir sem voru í stjórnarandstöðu bættu að vísu við sig einu þingsæti og hafa nú samtals 32 þingsæti, en þeir eru ekki það samstæðir að líklegt sé að þeir muni eða vilji vinna saman auk þess að meirihlutinn er svo tæpur að ríkisstjórn verður ekki ýtt úr vör án frekari stuðnings.
Ein ástæða þess að stjórnarandstöðunni vegnaði ekki betur er að vinstri flokkarnir, Samfylking og vinstri grænir fengu frekar slaka kosningu. Vinstri grænir fóru með himinskautum í skoðanakönnunum og virtust ætla að bæta miklu fylgi við sig en misstu frá sér sigurinn og sátu upp með aðeins 1% aukningu í fylgi og einu þingsæti meira en áður. Samfylkingunni vegna skár. Flokkurinn komast af líknardeildinni og jók fylgi sitt úr 5% í 12%. Segja má að Samfylkingin sé mætt til leiks á ný sem stjórnmálaafl. En því er ekki að leyna að samt er fylgi flokksins innan við helmingur þess sem það var frá kosningunum 1999 til 2009. Samfylkingin er að fá minna fylgi en Alþýðubandalagið eitt fékk. Greinilegt er að almenn skýrskotun flokkanna tveggja er takmörkuð og að þeir verða að endurskoða margt í almennum áherslum sínum. Þessir flokkar eiga eðli málsins samkvæmt að vera óhræddir við að krefjast kerfisbreytinga í þjóðfélaginu og takast á við hagsmunahópa og gróðapunga í sjávarútvegi og fjármálafyrirtækjunum. Þeirra vandi liggur helst í því að vera of samdauna kerfinu og þora ekki að skora sérhagsmunaöflin á hólm.
Sundrung og klofningur
Þriðja atriðið sem stendur upp úr að í fyrsta sinn einkennir sundrung og klofningur mið- og hægri flokkana. Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði formlega með stofnun Viðreisnar í fyrra og nú bættist Flokkur fólksins við sem þriðji flokkurinn sem að miklu leyti er skipaður fólki sem pólitískt séð á sínar rætur í Sjálfstæðisflokknum. Framsóknarflokkurinn klofnaði fyrir þessar kosningar svo harkalega að fara verður aftur til Bændaflokksins til þess að finna samjöfnuð. Fimm af átta flokkum sem fengu kosna þingmenn eru með einum og öðrum hætti frá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Þessi sundrung á mið- og hægri væng stjórnmálanna er nýmæli og slær úr langvarandi samstöðuleysi vinstri manna.
Í þessu felst tækifæri vinstri flokkanna, þeir eiga tækifæri til þess að ná frumkvæði í íslenskum stjórnmálum og öðlast stöðu til þess að móta samfélagið á næstu áratugum á grundvelli stefnu jafnaðarmanna.
Kristinn H. Gunnarsson
" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook
Athugasemdir