Stundarbilun

Pistlar
Share

Stundin er fréttamiðill sem einbeitir sér að rannsóknarblaðamennsku. Metnaður eigenda og starfsmanna er að kafa ofan í álitamál samtímans og færa lesendum bestu fáanlegu upplýsingar. Til þess þurfa blaðamenn Stundarinnar að vera ódeigir og þora að fletta ofan af upplýsingum og staðreyndum sem verið er að leyna til þess að afvegaleiða almenning.

Víst er að blaðamennirnir hafa tekið fyrir mörg málefni og vonandi hafa þeir með störfum sínum veitt almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru. En svo bregður nú við ein greinin er skrifuð til þess eins að bera í bætifláka fyrir Hafrannsóknarstofnun.

Stofnunin var harðlega gagnrýnd hér í leiðara fyrir mánuði fyrir að vera báðum megin borðsins. Annars vegar sem umsvifamikill verktaki hjá ýmsum veiðifélögum um laxveiði í ám og í öðrum nánum fjárhagslegum tengslum við þau í gegnum Fiskræktarsjóð og hins vegar sem faglegur ráðgjafi stjórnvalda því máli sem þau leggjast hvað harðast gegn, laxeldi í sjó. Bæði forstjóri Hafrannsóknarstofnunar og einstaka starfsmenn hafa nú og fyrr sem starfsmenn Veiðimálastofnunar gefið út yfirlýsingar gegn laxeldi í sjó og sérstaklega í Ísafjarðardjúpi áður en stofnunin er fengin til þess að hrófla upp svonefndu áhættumati í því skyni að stöðva áform um laxeldi.
Blaðamaður Stundarinnar, Ingi Freyr Vilhjálmsson, gerir lítið úr fjárhagslegum samskiptum stofnunar og veiðifélaga og segir þau afmarkast við veiðifélag Langadalsár. Þá heldur blaðamaðurinn því fram að Hafrannsóknarstofnunin þiggi mikla styrki frá eldisfyrirtækjunum. Þar er vísað til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis sem hann segir í eigu eldisfyrirtækjanna. Er það meginniðurstaða blaðamanns Stundarinnar að Hafrannsóknarstofnun fái fé frá báðum hagsmunaaðilum og þó sýnu meira frá eldisfyrirtækjunum en frá veiðifélögunum.

Hallað mjög réttu máli

Um þessa frásögn rannsóknarblaðamannsins má hafa sömu orð og höfundur Njáls sögu þegar rakin er frásögn Gunnars Lambasonar af Skarphéðni í brennunni:
Og um allar sagnir hallaði hann mjög til en ló víða frá.

Fyrir það fyrsta hverfur vanhæfnin ekki þótt hún kunni að eiga bæði við samskipti Hafrannsóknarstofnunar við veiðifélögin og eldisfyrirtækin. Þvert á móti þá eykst umfang vanhæfninnar. Í lögum veldur það vanhæfni ef opinber aðili á sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta eða ef samskiptin eru þannig að draga megi með réttu óhlutdrægni hans í efa.

Þannig er ástatt með samskipti Hafrannsóknarstofnunar við veiðifélögin og Fiskræktarsjóð. Stofnunin vinnur margar rannsóknir fyrir einstök veiðifélög á hverju ári. Á síðustu mánuðum má nefna Veiðifélag Laxár í Dölum og Veiðifélagið Faxa í Tungufljóti til viðbótar við veiðifélag Langadalsár. Hafrannsóknarstofn er háð þessum veiðifélögum um sértekjum og starfsmenn eiga starf sinn að einhverju leyti a.m.k. undir því að vinna fyrir veiðifélögin. Það gefur auga leið að stofnunin er ekki í góðri stöðu ef hún gefur út álit sem gengur gegn hagsmunum veiðifélaganna. Þá eru samskiptin við Fiskræktarsjóð þannig að stofnunin hefur fengið 43 styrki á 10 ára tímabili samtals að fjárhæð 80 milljónir króna. Fiskræktarsjóður er opinber sjóður en 3 af 5 stjórnarmönnum sem afgreiða erindi um styrkir eru fulltrúar veiðifélaganna. Þar liggur hundurinn grafinn. Veiðifélögin hafa tögl og haldir og Hafrannsóknarstofnun fær ekkert rannsóknarfé nema með þeirra stuðningi. Í þessu ljósi er hollt að líta málverkagjöf forstjóra Hafrannsóknarstofnunar til Landssambands veiðifélaga á 50 ára afmæli þeirra.

Umhverfissjóður sjókvíaeldis

Staðan í umhverfissjóði sjókvíaeldis er gerólík. Sá sjóður er nýr. Lög um hann voru sett 2014 og sjóðurinn úthlutaði fé fyrst í ár. Stundin upplýsir að Hafrannsóknarstofnun hafi fengið 54 milljónir króna af 86 milljónar króna úthlutun. En sjóðurinn er ekki í eigu eldirfyrirtækjanna eins og staðhæft er. Þvert á móti í lögunum segir að Umhverfissjóður sé sjálfstæður sjóður i eigu ríkisins. Eldisfyrirtækjunum er gert að greiða árlegt gjald fyrir hvert framleitt tonn sem nota á til þess að lágmarka umhverfisáhrif af sjókvíaeldi. Stjórn sjóðsins úthlutar fénu. Fjórir skipa stjórnina, tveir fulltrúar ráðherra, einn frá eldisfyrirtækjum og einn frá veiðifélögum. Þarna er fulltrúi eldisfyrirtækja í minnihluta ólíkt því sem er í Fiskræktarsjóði þar sem veiðifélögin hafa meirihluta.

Tilraun blaðamanns Stundarinnar til þess að hvítþvo Hafrannsóknarstofnun af vanhæfninni er vindhögg. Gagnaöflun er verulega áfátt, hún er óvönduð og villandi mynd dregin upp. Þetta er eiginlega sorglegt frávik frá öðrum greinum Stundarinnar, nokkurs konar Stundarbilun. Spyrja má um ástæður. Ekki verður fullyrt um þær en athyglisvert er að á Facebook síðu blaðamannsins er mynd af honum sigri hrósandi með nýveiddan 93 cm hæng úr Vatnsdalsá.

Kristinn H. Gunnarsson

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir