Alþingiskosningar brustu á fyrirvaralaust og þær verða fyrir lok næsta mánaðar. Trúnaðarbrestur milli manna í ríkisstjórninni varð ríkisstjórninni að falli. Það er sérstaklega athyglisvert að allar þrjár síðustu ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt sæti í hafa hvellsprungið áður en kjörtímabilið var liðið. Fráfarandi ríkisstjórn er skammlífasta meirihlutastjórn sem sögur fara af. Frá hruni fjármálakerfisins 2008 hefur verið mikill óróleiki í þjóðfélaginu.
Vantraust
Vantraust almennings í garð auðs og valds, þar með pólitískra valdhafa, er mikið og fer frekar vaxandi með árunum. Krafa kjósenda til stjórnmálamanna er um heilindi og trúnað við almenna hagsmuni. Stjórnmálaflokkarnir eiga í erfiðleikum með að laga sig að þessum kröfum almennings eftir hrun eins og sést á miklum fylgissveifum, stofnun nýrra flokka og sundrungar í eldri flokkum. Sjálfstæðisflokkurinn er fastheldnari en aðrir flokkar á fyrirhruns viðmið og það hefur orðið samstarfsflokkum hans um megn í stjórnarssamstarfi. Þeir stjórnmálaflokkar sem leita aftur fyrir hrun að pólitískum viðmiðunum og starfsháttum standa helst í vegi fyrir réttlátari leikreglum í þjóðfélaginu, en þær eru forsenda þess að gjáin milli þings og þjóðar verði brúuð.
Tækifæri Vestfirðinga
Í komandi kosningum , sem verða þær fjórðu frá hruni fjármálakerfisins, takast á þeir sem vilja að stjórnmál mótist fyrst og fremst af almennum hagsmunum þar sem jafnræði ríkir um tækifærin og gæðin í þjóðfélaginu og hinna gömlu viðhorfa um sérreglur fyrir innvígða og innmúraða. Almannahagsmunir gegn sérhagsmunum. Hagur almennings gegn gengdarlausri auðsöfnum kvótagreifa og ættstórra fjármálamanna. Sömu reglur fyrir háa sem lága. Þessar Alþingiskosningar verða tækifæri fyrir Vestfirðinga til þess að rétta sinn hlut. Gengið hefur verið á hlut þeirra í hverju málinu á fætur öðru. Nú eiga Vestfirðingar að rísa upp sem einn maður og krefjast jafnréttis á við aðra landsmenn. Þeir eiga að krefjast sömu tækifæra og öðrum standa til boða og þeir eiga að krefjast sömu lífskjara og aðrir búa við. Það er sama hvar í flokki menn standa, ranglætið brennur á þeim öllum. Það er sama að hvaða flokki kröfunni er beint, þeir eiga allir að vinna að jöfnum rétti og tækifærum Vestfirðingum til handa.
Jaðarsettir Vestfirðingar
Þrjú mál hafa brunnið heitast á Vestfirðingum síðustu mánuði. Áralöng árangurslaus barátta fyrir góðum vegi um Teigsskóg í Gufudalssveit, virkjun Hvalár í Ófeigsfirði og áframhaldandi uppbygging laxeldis í sjó. Ákveðin atriði koma fram í þeim öllum og eru sameiginleg. Einstaklingar, samtök og stofnanir hafa lagst gegn framgangi þeirra af mikilli hörku í nafni umhverfis- og náttúruverndar. Það má ekki spilla gróðri í Þorskafirði, vatnafari og ásýnd fossa í Ófeigsfirði og ekki heldur má ala lax í Ísafjarðardjúpi. Hvert þessara mála mun færa aðstæður á Vestfjörðum nær því sem annars staðar gerist. Vegir munu batna, raforkuöryggi mun aukast og atvinna mun verða meir og fjölbreyttari. Þetta eru eðlileg framfaraskref sem hafa verið tekin annars staðar á landinu íbúunum þar og þjóðinni allri til hagsbóta. Okkur Vestfirðingum er neitað um framfarir og of margir stjórnmálamenn verða þvöglumæltir og jafnvel óskiljanlegir þegar þeir eru krafðir um stuðning. Vestfirðingar eru jaðarsettir í eigin landi og neitað um sömu tækifæri og öðrum bjóðast.
Tvöfeldni í náttúru- og umhverfisvernd
Langflestir andstæðingar framfaranna á Vestfjörðum búa á höfuðborgarsvæðinu við bestu aðstæður. Gildir það um landeigendur, embættismenn, lækna og stjórnmálamanna sem horfa til atkvæðastuðnings á mölinni. Svo virðist sem þessi stóri hópur hafi tekið upp tvöföld viðhorf í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Á heimaslóðum stendur ekkert í vegi fyrir framförum og nýjum atvinnurekstri. Það má alls staðar leggja vegi, yfir holt, hraun, fjörur og annað sem fyrir verður. Gálgahraun hvað? Það má alls staðar byggja hótel, sneinsnar frá hinu stílhreina Alþingishúsi og jafnvel kirkjugarði er sópað burt án þess að nokkur Teigsskógarvinurinn depli auga. Þar eru framfarir og tekjusköpun í fyrirúmi. Þegar komið er út fyrir höfuðborgarsvæðis breytist hljóðið í þessum hópi landsmanna. Þá fer gróður og náttúra að verða mikilvægari en allt annað, þar með talið mannfólkið. Vestfirðingar hafa lent illilega í þessum tvískinnungi. Það er eins og andmælendur Vestjarða bæti sér upp virðingarleysið við náttúruna á heimaslóðum með því að hefja upp til skýjanna náttúruna á Vestfjörðum. Öfgarnar slá þá út í hina áttina.
Kannski er þetta sálfræðilegt atriði sem minnir á syndina og yfirbótina í kaþólskunni þar sem syndararnir teka yfirbótina út á Vestfirðingum. En þessi tvöfeldni getur aldrei verið ásættanleg fyrir Vestfirðinga né heldur aðra landsmenn sem verða fyrir þessari sömu ógæfu. Það verða að gilda sömu viðhorf um allt land, sömu tækifæri til þess að lifa og starfa á landinu og auðlindum þess. Vestfirðingar vilja hafa vinnu, aka vegi og framleiða orku á hagkvæman hátt rétt eins og aðrir landsmenn og vera hluti af samofnu neti samskipta og viðskipta þar sem hver landshluti er órjúfanlegur þáttur í þjóðfélaginu. Fyrir þessari kröfu eiga Vestfirðingar að rísa upp, sem einn maður. Eigi víkja!
Kristinn H. Gunnarsson
leiðari í blaðinu Vestfirðir 21. sept. 2017
" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook
Athugasemdir