Samofnir hagsmunir

Pistlar
Share

Athuganir staðfesta að hagsmunir hluta vísindamanna og stangveiðifélaga hafa rækilega verið samofnir, sérstaklega fjárhagslegir hagsmunir. Um árabil var náið samstarf milli Veiðimálastofnunar og Landsambands veiðifélaga og þessir aðilar litu á sig sem samherja í viðleitni til þess að ná sem mestum efnahagslegum hag út úr stangveiðinni. Veiðimálastonfun er nú runnin saman við Hafrannsóknarstofnun og fyrrum forstjóri veiðimálastofnunar er nú forstjóri hinnar nýju stofnunar.

Skýrasta táknmynd hinna samofnu hagmuna birtist í ljósmynd frá 50 ára afmæli Landsambands veiðifélaga árið 2008. Myndin sýnir núverandi forstjóra Hafrannsóknarstofnunar afhenda formanni Landsambands veiðifélaga málverk að gjöf. Gjöf er gefin vinum.

Fiskræktarsjóður og Veiðimálastjóri

Fiskræktarsjóðir er opinber sjóður sem veitir lán og styrki til verkefna sem þjóna þeim markmiðum að efla fiskrækt, bæta veiðiaðstöðu, styðja við rannsóknir í ám og vötnum og auka verðmæti veiði úr þeim. Fim manna stjórn er yfir sjóðnum sem Landbúnaðarráðherra skipar. Tveir stjórnarmenn koma frá Landsambandi veiðifélaga og sá þriðji frá Landsambandi stangveiðifélaga. Einn stjórnarmaður kemur frá Landsambandi fiskeldisstöðva og einn er skipaður án tilnefningar. Veiðifélögin hafa því tögl og haldir í stjórninni og þar sitja framámenn úr þeirra röðum, meðal annars sá sem tók við málverkinu á afmælinu 2008.

Veiðimálastofnun sækir stíft um styrki úr Fiskræktarsjóði og hefur frá 2005 til 2015 fengið samtals 42 styrki að fjáræð um 80 milljónir króna til verkefna sem varða laxastofna. Er það nokkur furða að veiðimálastjórninn fyrrverandi og núverandi forstjóri Hafrannsóknarstofnunar hafi gefið Landsambandi veiðifélagi veglega gjöf á 50 ára afmælinu.

Meira að segja fékk sjálfur Veiðimálastjóri úthlutað styrk árið 2005 úr Fiskræktarsjóði að upphæð 360 þúsund kr til þess að halda ráðstefnu um áhrif fiskeldis á náttúrulega laxastofna. Það væri gaman að fá að sjá afraksturinn frá þeirri ráðstefnu svona í ljósi þess að 12 árum seinna er sami maður forstjóri Hafrannsóknarstofnunar og er einarður í þeirri afstöðu sinni og tillögugerð stofnunarinnar að ekki skuli leyfa laxeldi í sjó í Ísafjarðardjúpi. Fulltrúar veiðifélaga og stangveiðimanna telja örugglega nú að peningunum hafi verið vel varið til þessarar ráðstefnu.

Efnahagslegir hagsmunir af laxveiðum

Það er líka mjög sláandi hversu mikil áhersla er lögð á efnahagslega þýðingu standveiðanna. Meira að segja í nýútkomnu áhættumati Hafrannsóknarstofnunar sem á eingöngu að fjalla um mögulega erfðablöndum milli eldislax og villts lax hefst skýrslan á þessum orðum sem eingöngu er um efnahagslega þýðingu laxveiða:

„Stangveiði og netaveiði úr náttúrulegum íslenskum laxastofnum hafa gefið að meðaltali um það bil 4050 þúsund laxa á ári undanfarna fjóra áratugi. Með tilkomu hafbeitar og sleppinga, ásamt minnkun netaveiða, hefur síðan orðið mikil fjölgun í heildarfjölda stangveiddra laxa upp í allt að 80-90 þúsund laxa í bestu árum. Bein verðmæti veiðiréttinda í íslenskum laxveiðiám eru metin yfir 4 milljarðar króna og með afleiddum, óbeinum áhrifum (gisting, veitingasala o.fl.) metin 15-20 milljarðar króna á ári.“

Í ársskýrslum Veiðimálastofnunar kemur ítrekað fram hjá Veiðimálastjóra hver efnahagslegur ávinningur er af stangveiði í ám og vötnum landsins. Nefna má ársskýrslurnar frá 2012 og 2014 sem dæmi þar um. Að sama skapi víkur Veiðimálastjóri að fiskeldinu á neikvæðan hátt og varar við hættum sem hann telur vera því samfara.

Athyglisvert er að ekkert er vikið að efnahagslegri þýðingu fiskeldis, í öllum þessum skýrslum, sem þó liggur fyrir að er geysimikil. Þannig liggur fyrir staðfest mat opinberra aðila eins og Byggðastonunar að laxeldi í Ísafjarðardjúpi einu er efnahagslega mun verðmætara fyrir þjóðarbúið en öll stangveiði landsins. Þegar haft er í huga að um 95% allra laxveiðiáa eru friðaðar fyrir fiskeldi með lokun fjarða og flóa og stangveiðin þannig vernduð í bak og fyrir er það stórt spurningarmerki hvernig á því megi standa að helsti talsmaður stangveiðimanna, sjálfur forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, sem við hvert tækifæri tíundar umfang og veltuna af stangveiðinni, skuli algerlega sneiða hjá því að nefna allar tekjurnar sem fiskeldið gefur af sér.

Kannski að fiskeldismenn eigi að huga að málverki til gjafa við hentugt tækifæri.

Hvað sem því líður, þá má hverjum manni ljóst vera að þegar kemur að mótun opinberrar stefnu um fiskeldi í sjó, þá eru þeir vanhæfir til álitsgjafar sem eru saman vafðir öðrum hagsmunaaðilanum og eiga langa sögu fjárhagslegra samskipta við þá sem þiggjendur. Slík álit eru að engu hafandi.

Kristinn H. Gunnarsson

leiðari í blaðinu Vestfirðir 7. september 2017

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir