Leirufjörður var í fréttum í vikunni vegna slóða sem gerður var ofan af Öldugilsheiði niður í Leirufjörð. Farið er upp á heiðina upp úr Unaðsdal. Ástæðan var sú að fara þurfti með ýtu norður í Leirufjörð, en hennar var þörf til þess að vinna gegn landbroti í firðinum.
Leirufjörður er austastur fjarðanna fimm í Jökulfjörðum, sem ganga norður úr Ísafjarðardjúpi. Drangajökull skríður niður í fjarðarbotninn og er mikill framburður frá jöklinum út fjörðinn. Fyrir vikið er fjörðurinn grunnur og mórauður og minnir mjög á Kaldalónið.
Ekki hefur öllum þótt fjörðurinn fagur og til varð þessi vísa, höfundur er ókunnur:
Ljótur ertu Leirufjörður
líst mér illa á þig.
Að þú sért af guði gjörður
gengur yfir mig.
(vísunni breytt 21. ág. kl 21.50 eftir ábendingu og vísað í Grunnvíkingabók I. bindi)
Viðbrögðin við slóðagerðinni hafa ekki verið í samræmi við vísuna, svo vísan verður í raun öfugmælavísa og spurning er hvort ekki sé rétt að hafa hana svona:
Listafagri Leirufjörður
líst mér bara vel á þig.
Þú er best af guði gjörður
gimsteinn fyrir þig og mig.
Athugasemdir