Vísa vikunnar ( 139): Á göngu lífsins sótti að mér sopinn

Molar
Share

23. september 2009.

Í vikublaðinu Feyki heldur Guðmundur Valtýsson, bóndi á Eiríksstöðum í Svartárdal úti vísnaþætti af miklum myndarskap og fádæma elju. Lesendur gerðu fátt betra við peninga sína en að gerast áskrifendur að blaðinu og njóta þess sem Guðmundur ber fram hverju sinni.

Erlendur Hansen á Sauðárkróki á margar vísurnar hjá Guðmundi. Í þessari orðar hann svona beiðni um næturgistingu:

Í kvóldhúminu sest er sól
sígur værð á frúna.
Hefur þú ekki húsaskjól
handa okkur núna.

Svo eru það hugleiðingar um lífshlaupið:

Á göngu lífsins sótti að mér sopinn
ég sinnti honum eins og gerist best.
Við stundaglasið steininn holar dropinn.
Við Strönguhvísl er ferja fyrir gest.

Að lokum er vísa úr þætti Guðmundar eftir Snæbjörn Kristjánsson, bónda í Hergilsey á Breiðafirði. Ekki hafði hann alltaf ritföng tiltæk:

Hér er hvorki blek né blað
böl er til að vita,
stökur gleymast af því að
ekki er hægt að rita.

Athugasemdir