Vísa vikunnar ( 123): Ei skal greina víl né vol

Molar
Share

19. júní 2008.

Á skáphurð einni á Þingeyri, sem upphaflega er úr útihúsi á Sveinseyri, skrifaði Elías M. V. Þórarinsson 4 vísur þann 23/1 1987. Tilefnið var að þá var hann að hefja smíði á bát. Skömmu síðar féll Elías frá. Sonur hans, Skúli, hefur nú tekið upp þráðinn og sér fyrir endann á nýsmíðinni.

Ei skal greina víl né vol
virðum hreinust gæði.
Látum reyna á þrek og þol
þó að meinin blæði.

Öldnu brjósti yljar veig
engu framar kvíðum.
Gott er að una öls við teig
og eiga bát í smíðum.

Eftir að gnoð er afsúðuð
öll að fornum hætti.
Sérhvert umfar glæðir guð
giftu sinni og mætti.

Nú skal hnoða nagla að ró
nökkvar hafflöt skáru.
far þú vel í sollnum sjó
sigraðu hverja báru.

Athugasemdir