Svikin dýrkeypt

Pistlar
Share

Í janúar næstkomandi verða liðin 19 ár frá því Hrönn hf rann inn í Samherja hf. Þá hvarf Guðbjörg ÍS úr flota vestfirskra skipa. Þá var kvóti skipsins um 3.400 þorskígildistonn, en hafa ber í huga að það fiskveiðiár var aðeins 130 þúsund tonnum af þorski úthlutað á aflamarksskip. Síðan hefur kvótinn verið mun meiri í 15 ár en þá var. Þrjú ár hefur þorskkvótinn verið svipaður og aðeins einu sinni minni. Ætla má að samanlagður úthlutaður kvóti skipsins á þessum 19 árum sé ekki undir 75.000 tonnum, líklega þó meiri. Áætla má að útflutningsverðmæti aflans miðað við hagskýrslur fyrir árið 2014 hafi verið um 30 milljarðar króna. Útgerð togara eins Guðbjargarinnar ÍS hefur mikil áhrif. Það eru fjölmargir sem hafa vellaunaða vinnu beint og óbeint og umtalsverð þjónusta er í landi við skipið. Þrjátíu milljarða króna velta hefur margfeldisáhrif þegar hún fer um hagkerfi útgerðarstaðarins.

Við samrunann var gert munnlegt samkomulag milli ísfirskra eigenda skipsins og forsvarsmanna Samherja þess efnið að skipið yfir áfram gert út frá Ísafirði. Því var mátulega trúað að það yrði efnt og til þess að róa Ísfirðinga gaf forstjórinn Þorsteinn Már Baldvinsson út þá yfirlýsingu í útvarpi að Guggan yrði áfram gul, hún yrði áfram ÍS og að hún yrði áfram gerð út frá Ísafirði. Það var allt svikið, hvert einasta orð. Það stóð ekki steinn yfir steini, það kom í ljós að aldrei stóð til að efna heiðursmannasamkomulagið, né heldur opinberu yfirlýsinguna.

Vanefndirnar hafa reynst Vestfirðingum dýrkeyptar. Þegar mikil velta hverfur úr litlum samfélögum verður það mikið högg. Við þetta bættist að Básafellskvótinn og Ósvararkvótinn í Bolungavík fór að mestu á þessum tíma. Það veikti undirstöður atvinnulífsins svo að ekki hefur verið bætt. Þetta var Samherjamönnum ljóst. Þeir gátu gert skipið út frá Ísafirði eftir sem áður en gerðu ekki. Þeir kusu að styrkja byggð á öðrum stað. Vestfirðingarnir sitja eftir með skaðann af aðgerðinni í formi lægri launa, færri starfa, færra fólks, minni þjónustustarfsemi og hruns í húsnæðisverði.

Ný skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um hagvöxt eftir landshlutum dregur mjög skýrt fram hversu veikt Vestfirðir standa og skýrsluhöfundar taka sérstaklega fram að ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af þróun mála á Vestfjörðum. Framleiðslan á mann er sú lægsta á landinu þar sem áður tekjur voru hæstar.

Ný tegund útgerðarmanna

Formaður VM- félags vélstjóra og málaiðnaðarmanna lét hafa eftir sér á dögunum að samtök sjómanna væru ný að glíma við nýja tegund útgerðarmanna. Sagðist hann ekki hafa kynnst neinu slíku síðan hann byrjaði að vinna við samningagerð. Lýsti hann stöðunni svo að um sjö stórar útgerðir réðu öllu. Hann sagði orðrétt: „Staðan er sú að sjómenn andmæla ekki Þorsteini Má í Samherja, Gunnþóri í Síldarvinnslunni eða þeim á Höfn eða í Vestmannaeyjum. Þetta er veruleikinn sem við glímum við.“

Veruleikinn birtist einmitt í því að kjarasamningar hafa verið lausir frá ársbyrjun 2011 eða nærri 5 ár. Veruleikinn er sá að sjómönnum er hótað brottrekstri og til viðbótar er þeim hótað útilokun um ráðningu hjá öðrum útgerðum innan LÍÚ. Við þessa lýsingu formanns VM er ekki miklu að bæta. Svona er staðan. Í krafti þess að útgerðarmenn einir hafa kvótann í sínum höndum og geta ráðstafað honum að vild hefur merð árunum hugarfar og framganga útgerðarmanna breyst.

Vestfirðingar þekkja dæmi um kúgun og hótanir í garð sjómanna ef þeir sitja ekki og standa eins og eigandanum þóknast. Valdið og fjármagnið sem þeir hafa í sínum höndum hefur með árunum samherjavætt útgerðarvaldið. Þegar rætt erum að brjóta upp sjálft úthlutunarkerfið, kjarnann í auðsöfnun og völdum tiltölulega fárra auðmanna á Íslandi og koma á jafnræði og samkeppni um eftirsótt réttindi er því svarað af óbilgirni.

Þorsteinn Már ber því við að slíkt hefði áhrif á 400 störf við Eyjafjörð. Hann varðaði ekkert um störf fólks annars staðar og fannst ekki tiltökumál blekkja fólk sem óttaðist um störf sín. Forstjóri Síldarvinnslunnar kom fram á fjölmennum fundi á Neskaupstað og hélt á lofti myndum af börnum sínum og sakaði stjórnmálamenn um að eyðileggja framtíð þeirra með hugmyndum sem eru viðurkenndar eðlilegar og sanngjarnar í öðrum atvinnugreinum. Það eiga fleiri börn en hann.

Þetta er hin nýja tegund útgerðarmanna. Það er ekki hin gengna stétt manna sem töldu sig vera hluta af þjóðfélagi og báru skyldur við aðra en sjálfa sig. Þetta er ekki sú stétt útgerðarmanna sem gerði munnlegt samkomulag og stóð við það. Þetta er ekki sú stétt útgerðarmanna sem hafði menn í vinnu án tillits til skoðana þeirra og lét sér ekki koma í hug að kúga sjómenn til hlýðni og undirgefni með hótunum um atvinnumissi.

Þetta er hins vegar sú tegund útgerðarmanna sem er auðugri en áður hefur þekkst og valdameiri en þekkst hefur síðan á dögum vistarbandsins. Þetta eru útgerðarmenn sem eru spilltir af græðgi og ágirnd og eiga fá markmið í lífinu önnur en að auka við bankainnstæður sínar í fjarlægum löndum. Þetta er afleiðingin af kerfi sem komið var á fót án þess að hafa siðferðilegar undirstöður. Þá verða svikin sjálfsagt tæki til að auka gróða sinn.

greinin birtist í Bæjarins besta á Ísafirði 17. desember sl.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir