Össur sækir í fleyg ummæli fyrrv. formanns Framsóknarflokksins

Molar
Share

Össur Skarphéðinsson er greinilega aðdáandi Ólafs Jóhannessonar fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins og oft má heyra á ræðum hans að Framsóknarflokkurinn er honum hugleikinn. Það mætti líklega útnefna hann formann í Framsóknarvinafélaginu innan Samfylkingarinnar.
Tvívegis hefur Össur vitnað í þingræðu í fleyg ummæli Ólafs Jóhannessonar. Í fyrra skiptið fyrir nokkrum árum þegar hann sagði að honum heyrðist að Árni Johnsen væri að hrista höfuðið. Svipuð ummæli lét Ólafur falla í frægri utandagskrárumræðu veturinn 1975/76, líklega þeirri fyrstu sem var sjónvarpað beint, um málshefjandann Sighvat Björgvinsson.
Aftur vitnaði Össur til Ólafs síðastliðinn fimmtudag í utandagsskrárumræðu um starfsmannaleigur, en þar sagði Össur um sum þeirra fyrirtækja að það væru glæpafyrirtæki sem haga sér svona og glæpafyrirtæki skulu þau heita. Hin minnisstæði ummæli Ólafs voru um Vísismafíuna sem hann sagði að stæðu að aðför að sér: mafía er hún og mafía skal hún heita.
Það gefst greinilega vel að styðjast við fyrrverandi formann Framsóknarflokksins.

Athugasemdir