Orkubúsránið

Pistlar
Share

Ráðning á nýjum Orkubússtjóra fór af stað sem venjubundið ráðningarferli en fór út af sporinu og opinberaði áður en yfir lauk klíkuskap, blekkingarvef og spillingu. Helstu forystumenn Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum eru berir að því að líta á stöðu Orkubússtjóra sem herfang eða góss sem þeir geti ráðstafað innan eigin hóps og vikið til hliðar almennum sjónarmiðum og góðum stjórnsýsluháttum. Slíkt athæfi er gjarnan nefnt spilling. Andstaðan við spillinguna kom úr þeirra eigin röðum þar sem einn sjálfstæðismaðurinn í stjórninni neitaði að taka þátt í sjónarspilinu sem sett var á svið.Það varð til þess upp komst um ráðabruggið og helstu drættir þess liggja nú ljósir fyrir.

Fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins

Í stjórninni eru oddviti sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ, fyrrverandi sveitarstjóri og oddviti sjálfstæðismanna í Tálknafirði sem er einnig varaþingmaður flokksins í Norðvesturkjördæmi og sá þriðji er fulltrúi fjármálaráðherra, Bjarna Benedikssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Auk þessara þriggja er einn stjórnarmaður frá Hólmavík og sá fimmti er bóndi í Önundarfirði. Sá sem var ráðinn er forystumaður Sjálfstæðisflokksins í Bolungavík.

Fulltrúi fjármálaráðherra er embættismaður í ráðuneytinu og jafnframt formaður stjórnar. Það er til þess að undirstrika að hann gengur erinda ráðherrans en ekki sjálfs sín. Embættismaðurinn hefur verið stjórnarformaður fyrir þrjá síðustu fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon, Oddnýju Harðardóttur og Bjarna Benediktsson. Hlutverk formanns stjórnar er að framkvæma vilja fjármálaráðherrans.

Leikrit í tveimur þáttum

Það er mikill misskilningur ef menn halda að atburðarrásin hafi verið tilviljunarkennd. Svo er ekki. Það sem formaður Sjálfstæðisflokksins og forystumenn flokksins á Vestfjörðum vissu er að orkubússtjóri mun fara á eftirlaun á næsta ári. Þá vill svo til að kosið verður til Alþingis og mynduð ný ríkisstjórn. Nýr fjármálaráðherra mun svo skipa nýja stjórn fyrir Orkubú Vestfjarða. Þá verður ekki víst að þeir sem nú ráða muni hafa nokkuð um ráðningu nýs Orkubússtjóra að segja. Starf orkubússtjóra er eftirsótt. Svo undir forystu fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins er sett atburðarrás af stað. Samið er við núverandi Orkubússtjóra að hætta strax. Auðvitað hefur hann ekki hugsað sér að hætta fyrr en á næsta ári svo það þarf að semja við hann. Niðurstaðan er að hann fái leyfi en laun í 16 mánuði. Það kostar Orkubúið um 20 milljónir króna.

Næst er að ákveða hver fái góssið í sinn hlut. Þar koma saman flokksbroddarnir á Vestfjörðum og formaður Sjálfstæðisflokksins og ráða ráðum sínum. Hvernig þetta ráðslag gekk fyrir sig væri forvitnilegt að fá upplýsingar um, kannski að forseti Alþingis geti varpað ljósi á atburðarrásina, en niðurstaðan varð að bæjarstjórinn í Bolungavík fengi starfið. Líklega hefur hann sóst eftir starfinu enda farið að hitna undir honum í Bolungavík. Þá hófst seinni þáttur leikritsins, ráðningaferlið. Starfið var auglýst og bárust 25 umsóknir. Formanni stjórnarinnar, það er sérstökum fulltrúa formanns Sjálfstæðisflokksins og varaformanni stjórnar, varaþingmanni flokksins var falið að fara yfir umsóknir og ræða við þá og hafa ráðgjafa frá Hagvangi sér til halds og trausts. Ætlunin var að hæfustu umsækjendurnir kæmu fyrir stjórn Orkubúsins sem síðan myndi taka ákvörðun. Nokkrir umsækjendur voru teknir í viðtal en síðan fór málið út af sporinu og starfsreglur stjórnarinnar voru beygðar og brotnar. Ráðningin var keyrð í gegnum stjórnina án viðtala. Trúverðugleika stjórnar Orkubús Vestfjarða var fórnað.

Án nokkurs vafa voru Andri Teitsson og Gunnar Tryggvason langhæfustu umsækjendurna bæði vegna menntunar og reynslu af störfum í orkugeiranum. Stjórnarmaðurinn, sem neitaði að taka þátt í leikritinu, sagði að sá sem ráðinn var hefði ekki verið í hópi hæfustu manna að sínu áliti. Orkubúi Vestfjarða var neitað um hæfasta stjórnandann.

Óttinn við sjálfstætt fólk

Eðlilega vekur undrun hvers vegna ráðningaferlið gekk ekki sinn gang. Þá hefði málið líklega ekki vakið neina sérstaka athygli. En fyrir því var rík ástæða. Flokksbroddarnir vissu um andstöðu bóndans í Önundarfirði. En til viðbótar vissu þeir að vegna veikinda yrði að kalla til varamann þegar að ráðningu kæmu. Sá varamaður er ekki aðeins Sjálfstæðismaður heldur sjálfstæð kona frá Ísafirði. Því var ekki að treysta að hún myndi gagnrýnislaust taka þátt í því að velja hinn smurða eftirmann. Það gæti því farið svo að tveir stjórnarmenn myndu krefjast faglegra vinnubragða við val á næsta Orkubússtjóra. Þá yrði málið orðið tæpt og enn erfiðara Sjálfstæðisflokknum. Á það mátti ekki hætta og því fór sem fór. Óttinn við sjálfstæða einstaklinga í Sjálfstæðisflokknum rak flokksbroddana í þennan ógæfuleiðangur sem endaði með úrsögn stjórnarmanns úr stjórninni og svo úr Sjálfstæðisflokknum.

Uppreisn gegn ránsfengsstjórnmálum

Niðurstaðan er nokkuð skýr. Útvaldir forystumenn Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum fá formann flokksins með í stjórnmál gamla stílsins. Þeir telja feita bita í opinberum stöðum vera einhvers konar verðlaunafé til þeirra sem eigi að ráðstafa innan hins útvalda hóps. En þau sjónarmið eiga ekki lengur upp á pallborðið hjá almenningi og jafnvel traustir flokkmenn gera uppreisn. Menn vilja að fagleg sjónarmið ráði.

Þolandinn í málinu er Orkubúið. Orkubúinu er gert að greiða kostnaðinn við ránsfenginn. Orkubúið ber kostnaðinn af því að fá ekki hæfasta stjórnandann og stjórn Orkubúsins er rænd trúverðugleikanum. Þetta er Orkubúsránið.

pistill í bæjarins besta á Ísafirði 31. mars 2016

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir