Mótvægisaðgerðin flutningsstyrkur

Pistlar
Share

Stundum er eins og að vinstri höndin viti ekki hvað sú hægri gerir eða kannski er það öfugt, að sú vinstri veit einmitt hvað hin gerir, en af einhverri ástæðu segir bara allt annað.

Stjórnvöld ákváðu að skera niður þorskkvótann um þriðjung. Það þýðir að margir munu missa vinnuna. Formaður samtaka fiskvinnslustöðva segir í Morgunblaðinu í gær að hátt í eitt þúsund manns verði sagt upp störfum á næstu 6 – 12 mánuðum.

Sömu stjórnvöld hafa af öllum kröftum sagt að gripið yrði til mótvægisaðgerða sem ætlað er að skapa önnur störf á meðan niðurskurðurinn varir. Mótvægisaðgerðirnar eiga líka að stuðla að því ný störf verði til á öðrum og varanlegri grunni og byggðin um landið, sem mun líða fyrir niðurskurðinn og uppsagnirnar, standi þá jafnvel betur á eftir þegar kvótinn hefur verið aukinn á nýjan leik með fleiri störfum.

Á það hefur verið bent að afleiðingin af svona gífurlegum niðurskurði í 3-6 ár verði mikil samþjöppun í sjávarútvegi með fækkun starfa og fyrirtækja og í framhaldinu dregst upp afleidd starfsemi. Sumar byggðir gætu fengið svo gott sem rothögg á þessum tíma . Því svarar ríkisstjórnin með mótvægisaðgerðunum, sem eiga að vera íbúum landsbyggðarinnar sönnun þess að stjórnarherrunum er alvara í því að halda landinu í byggð.

Svo er á það bent að uppgangurinn á höfuðborgarsvæðinu og næsta nágrenni sé ævintýralegur, endalaus skortur á vinnuafli, stórar framkvæmdir á báðar hendur og íbúðabyggingarnar með slíkum fádæmum að það þurfi um 20 þúsund manns að flytja þangað til að kaupa og búa í íbúðunum sem eru í byggingu.

Þá kemur í ljós að mótvægisaðgerðirnar bjóða þeim sem eru a missa vinnuna fá tækifæri til vinnu, eru eiginlega í þeim skilningi hvorki fugl né fiskur. Eðlilega er spurt: Hvar á fólkið að fá vinnu? Fólkið flest býr á landsbyggðinni en atvinnutækifærin eru á höfuðborgarsvæðinu.

Á forsíðu Morgunblaðsins er í dag lítil frétt. Þar segir að stjórn atvinnuleysistryggingarsjóðs hafi mótað reglur um styrki allt að 200 þúsund kr. til búferlaflutninga fyrir atvinnulausa. Forstjóri Vinnumálastofnunar segir styrkina til þess að örva fólk til þess að flytja sig á milli svæða. Félagsmálaráðherra hefur tillögurnar til athugunar.

Allt í kemur svarið öllum á óvörum. Það á að bjóða fólkinu styrk af opinberu fé til þess að flytja úr sjávarplássunum þangað sem atvinnan er. Það á sem sé að bera fé á fólk til þess að koma því burtu frá þessum stöðum. Það á ekki að flytja atvinnu til fólksins heldur öfugt. Hugtakið mótvægisaðgerð fær alveg nýja og óvænta merkingu.

Kannski veit stjórn atvinnuleysistryggingarsjóðs og Vinnumálastofnun ekki hvað ríkisstjórnin var að gera ,að ríkisstjórnin ætlaði að gera fólki kleyft að búa áfram í sinni heimabyggð. En kannski veit stjórn atvinnuleysistryggingarsjóðsins einmitt hvað ríkisstjórnin er að hugsa, þótt hún láti annað í veðri vaka og bjó þess vegna til tillöguna um flutningsstyrk.

Það vantar 20 þúsund manns inn á höfuðborgarsvæðið sagði um daginn í fréttum Ríkisútvarpsins.

Athugasemdir