Það er komin upp snúin staða á stjórnmálasviðinu , ef niðurstaða Alþingiskosninganna verða eitthvað nálægt því sem skoðanakannanir sína. Framsóknarflokkurinn er óábyrgasti flokkurinn í málflutningi, einkum í efnahagsmálum, en jafnframt líklegastur til þess að sópa að sér fylginu. Sjálfstæðisflokkurinn fylgir í humátt á eftir Framsóknarflokknum, þótt hann sé ekki nærri eins yfirgengilegur í skruminu.
Stjórnarflokkarnir eru báðir í miklum tilvistarvanda. Þeir hafa tapað meira fylgi en dæmi eru um áður að stjórnarflokkar hafi gert og mörg af nýju framboðunum eru ýmist hrein klofningsframboð eða boðin fram af fyrrum stuðningsmönnum. Eins og staðan er núna eiga þeir lítið erindi í ríkisstjórn. Breytingar á forystusveit stjórnarflokkanna virðist hafa verið gerðar of seint og ef til vill hafa þær ekki verið nógu afgerandi.
Efnahagsmálin eru hinn alvarlegi þjóðarvandi, sem verður að glíma við næsta áratuginn. Erfiðar aðgerðir eru framundan, ef ekki á illa að fara, þar sem almennar lífskjarabætur verða aðeins í boði hægt og bítandi. Hins vegar er pólitíski vandinn ekki síður erfiður viðureignar.
Nær ómögulegt er að setja Framsóknarflokkinn í stjórnarandstöðu. Forystumenn flokksins mun þá geta haldið áfram ábyrgðarlausu lýðskrumi sínu og viðhaldið væntingum kjósenda um töfralausnir til kjarabóta. Ríkisstjórnin mun varla geta varist því, verandi í erfiðum ríkisfjármálaaðgerðum, og því mun Framsóknarflokkurinn við þær aðstæður fitna eins og púkinn á fjósbitanum.
Myndi Framsóknarflokkurinn samsteypustjórn mun hann leika þá list að kenna samstarfsflokknum eða samstarfsflokkunum um og segja að þeir hafi komið í veg fyrir að töfrabrögðin yrðu framkvæmd. Óánægja og vonbrigði kjósenda vegna brostinna vona munu þá skella á samstarfsflokknum. Það verður því ekki eftirsóknarvert fyrir nokkurn flokk að sitja í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum og þurfa fyrst og fremst að verjast honum.
Líklega er skynsamlegast fyrir stjórnarflokkana að bjóðast til þess að verja minnihlutastjórn Framsóknarflokksins vanstrausti. Þá fær Framsókn tækifæri til þess að sýna í verki hverjar tillögurnar eru og útfærslur þeirra,þar sem ekki þarf að semja við neinn anna stjórnmálaflokk. Þá ættu stjórnarflokkarnir líka að bjóðast til þess að tryggja framgang lykilmála minnihlutastjórnarinnar á Alþingi með því að ábyrgjast þinglega meðferð frumvarpanna og afgreiðslu þeirra innan eðlilegra tímamarka.
Í þessu myndi felast fyrirheit um að umræður tækju hóflegan tíma og að mál hafi öruggan meirihlutastuðning til og frá þingnefnd. Þannig kæmu öll mikilsverð mál ríkisstjórnarinnar til atkvæðagreiðslu. Það yrðu svo eins og alltaf að ráðast af málatilbúnaði, umsögnum og umræðum í þinginu hvernig atkvæðin myndu falla og hvort þingmálin fengju að lokum meirihluta. En minnihluta ríkisstjórn Framsóknarflokksins hefði með þessu tilboði fengið öll hugsanleg tækifæri til þess að efna kosningaloforð flokksins og sýna landsmönnum á spilin.
Forystumönnum Framsóknarflokksins gæti tekist að sannfæra meirihluta Alþingis um ágæti efnahagsstefnu sinnar og þá er það vel. Það gæti líka komið í ljós, það sem mér sýnist, að loforðin eru óframkvæmanleg og meira og minna innantóm. Ef það rættist myndi önnur ríkisstjórn verða mynduð og hún hefði þá betri stöðu til nauðsynlegra aðgerða.
" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook
Athugasemdir